Það er Knattspyrnudeild Fjölnis sönn ánægja að tilkynna Júlíus Ármann Júlíusson og Theódór Sveinjónsson sem nýja aðalþjálfara meistaraflokks kvenna. Taka þeir við af Axel Erni Sæmundssyni sem hverfur til annarra verkefna innan félagsins.

Júlíus er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til kvennaboltans en hann hefur gegnt starfi aðalþjálfara meistaraflokks kvenna Aftureldingar frá árinu 2015 þar sem hann stýrði liðinu meðal annars upp úr 2. deild árið 2017. Að auki hefur hann sinnt þjálfun hjá Gróttu í tæp 20 ár við góðan orðstír þar sem hann stýrði meðal annars meistaraflokki karla en hann var einnig sigursæll þjálfari þau 10 ár sem hann var við störf hjá Breiðablik. Júlíus hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu.

Theódór þekkjum við Fjölnismenn vel þar sem hann stýrði nokkrum yngri flokkum félagsins hér á árum áður og meistaraflokki kvenna í Landsbankadeildinni árið 2008. Síðustu ár hefur Theódór þjálfað yngri flokka Víkings með góðum árangri og jafnframt verið í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna Víkings. Áður var hann þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Aftureldingu, Þrótti og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals sem varð Íslandsmeistari á árunum 2006 og 2007. Theódór hefur einnig lokið UEFA-A þjálfaragráðu.

Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við þessa ráðningu og hlakka til samstarfsins á komandi tímabilum.

Fjölnir þakkar Axel Erni fyrir sitt mikilvæga framlag undanfarin ár og býður Júlla og Tedda velkomna til starfa.