Kæru forráðamenn, iðkendur og þjálfarar,

Í ljósi nýrra takmarkana á samkomum frá og með 31. júlí til og með 13. ágúst er þeim tilmælum beint til eldri flokka (16 ára og eldri, f. 2004 og fyrr):

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til og með 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Þetta þýðir að ef hægt er að æfa með því að fylgja ítrustu takmörkunum er það heimilt. Við ítrekum að nauðsynlegt er að gæta fyllstu varúðar og fara í einu og öllu að tilmælum heilbrigðisyfirvalda s.s. að virða fjarlægðarmörk og huga að handþvotti og sóttvörnum. Við höfum ákveðið að loka styrktarsalnum í Dalhúsum og búningsklefum í Egilshöll og Dalhúsum til og með 13. ágúst.

Æfingar yngri iðkenda, þeirra sem eru 15 ára og yngri (f. 2005 eða síðar) fara fram með óbreyttu sniði. Við beinum því til forráðamanna að ef það þarf að fylgja barni á æfingar að aðeins einn forráðamaður mæti með barnið. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá höfum við skilgreint inn- og útganga við Egilshöll. Vinsamlegast kynnið ykkur myndina vel.

Stjórnendur félagsins vinna náið með yfirþjálfurum og öðrum starfsmönnum félagsins í úrlausnum á æfingum fyrir þann hóp sem takmarkanirnar hafa mest áhrif á. Staðan er endurmetin eftir þörfum, í takt við uppfærð tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Allar uppfærslur má finna á Facebook Fjölnis og heimasíðu okkar www.fjolnir.is.

Við óskum eftir því að allir félagsmenn okkar sýni gott fordæmi og hjálpi okkur að fylgja þessum tilmælum, með lausnarmiðuðum hugsunarhætti og jákvæðni.

Með Fjölniskveðju,
Forsvarsmenn Fjölnis