Fjölnir spilaði fyrsta æfingaleik tímabilsins á móti Breiðablik 12. september. Breiðablik spilar í Domino’s deildinni í vetur og var að spila sinn þriðja æfingaleik, svo vitað var að verkefnið yrði verðugt. Það var stress í okkar stelpum fyrir leikinn, enda liðið ennþá að slípast saman og stöllurnar Andrea og Elfa að komast aftur í gírinn eftir að hafa ekki spilað körfubolta í meira en ár. Fjölniskonur voru því miður áhorfendur á báðum endum vallarins í byrjun leiks en töluvert meiri reynsla Breiðabliks skilaði þeim í frábærri skotnýtingu, og endaði bandarískur leikmaður þeirra með 35 stig. Fjölnisstelpur áttu ágætis kafla inn á milli, og sjá mátti að þær voru allt en sáttar með lokaniðurstöðu leiksins, en alltaf má taka eitthvað úr stórum æfingaleikjum sem þessum. Því miður var engin tölfræði tekin í þessum leik.

 

Næsti æfingaleikur liðsins var á móti Hamri, þann 19. september og fór sá leikur mikið betur en sá fyrri. Augljóst var frá fyrstu mínútu að stelpurnar höfðu harma að hefna, og vildu sýna hvað í þeim býr. Gestirnir frá Hveragerði byrjuðu mjög sterkt og komust í smá forystu í upphafi leiks. Okkar konur voru þó aldrei langt undan, og eftir slæma byrjun komst Fjölnir yfir fyrir lok 1. leikhluta. Í öðrum leikhluta var sett í fluggírinn og stelpurnar komnar í þægilega stöðu fyrir seinni hálfleikinn. Þegar svo 3. leikhluta lauk voru heimakonur komnar í góða 30 stiga forystu, eftir að hafa náð að loka algjörlega á Hamar með þéttum varnarleik. Hamarskonur bitu frá sér í síðasta leikhlutanum, og unnu þann leikhluta, en það var líkt og Fjölnir hefðu hætt að spila saman og nokkrir tapaðir boltar gerðu það að verkum að Hamar nýtti tækifærið. Leikurinn endaði 78-59 fyrir Fjölni. Atkvæðamestar voru Fanney með 22 stig og 4 stoðsendingar, Heiða Hlín með 19 stig og 4 fráköst og Fanndís María með 10 stig of 6 fráköst.

 

Næsti æfingaleikur liðsins, og jafnframt sá síðasti, er annað kvöld, 24. september, á móti Njarðvík suður með sjó.