Sumarlestrarátak Fjölnis vakti mikla lukku meðal gesta Borgarbókasafnsins í Spöng í sumar, en þetta er annað árið sem Fjölnir stendur fyrir þessu átakinu. Átakið gengur út á að minna börn og fullorðna um mikilvægi lesturs og að gleyma ekki að viðhalda lestrarfærni yfir sumartímann.

„Ég hef setið ófáa fundi sem formaður Foreldrafélags Kelduskóla með skólastjórum og kennurum þar sem fjallað hefur verið um hve mikið lestrar færnidettur niður á sumrin. Mér fannst því tilvalið að nýta starf mitt í þágu barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis til að minna á mikilvægi lesturs á sumrin“ segir Sævar Reykjalín í barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis.

Fjölnisfólk úr ýmsu greinum valdi sínar uppáhaldsbækur og var þeim í framhaldi stillt upp í sérstökum standi í Borgarbókasafninu í Spöng.

„Við urðum greinilega vör við áhuga og að gestir skoðuðu útstillinguna á bókunum og það sem sagt var um Fjölnisfólkið. Sérstaklega vakti þetta athygli hjá börnum og gaman hvað þau voru ánægð að sjá þjálfarann sinn eða leikmann sem þau voru hrifin af og varð það oft tilefni til smá spjalls þeirra á milli um bækurnar, íþróttirnar, Fjölni og fleira“ segir Katrín Guðmundsdóttir, deildarstjóri Borgarbókasafnsins í Spöng og Árbæ.

„Okkur starfsfólkinu þykir mjög gaman að geta tekið þátt í þessu og láta safnið þannig tengjast betur hverfinu og íbúum þess“

Fjölnir vill þakka öllum þeim sem komu að og tóku þátt í þessu átaki kærlega fyrir og það er alveg öruggt að þetta verður endurtekið á næsta ári.

#FélagiðOkkar