Það má með sanni segja að um stóra helgi hafi verið að ræða fyrir #FélagiðOkkar.

Íslandsmeistarar, sigur í fyrsta leik í Inkasso, mótahald og vorsýning á svellinu er flokkar og deildir félagsins iðuðu af lífi.

Fjölnir er stórt félag, með frábæra aðstöðu, sjálfboðaliða úr öllum áttum og umgjörð á hæsta stigi.

 

Íslandsmeistarar í 3.fl karla í handbolta og 8.fl karla í körfubolta

Fjölnir eignaðist Íslandsmeistara í handbolta og körfubolta í gær.

3.fl karla í handbolta lék gegn Val í úrslitum við mikinn fjölda áhorfenda í Kaplakrikanum. Strákarnir höfðu undirtök allan leikinn og þrátt fyrir gott áhlaup Valsmanna í seinni hálfleik, tryggðu strákarnir okkar sigurinn í lokin. Lokatölur 23-20 og er niðurstaða tímabilsins frábær; Íslands- og bikarmeistarar.

8.fl karla í körfubolta lék á heimavelli í úrslitum A riðils. Fjölmargir lögðu leið sína í Dalhúsin og það hefur greinilega gefið strákunum okkar aukinn kraft enda Nánast fullt hús var báða leikdaga og svo fór að strákarnir okkar unnu alla 4 leiki sína og þar með tryggðu þeir sér Íslandsmeistarartitilinn.

 

Sigur í fyrsta leik í Inkasso deild karla

Allar aðstæður voru frábærar fyrir góðan fótbolta. Grasið grænt, Kárapallurinn klár og sólin skein. Það má með sanni segja að strákarnir okkar höfðu góð tök á leiknum og uppskáru tvo flott mörk, frá þeim Alberti Brynjari Ingasyni og Hans Viktori Guðmundssyni. Gestirnir náðu reyndar að klóra í bakkann í lok leiks en niðurstaðan var góður 2-1 sigur fyrir framan rúmlega 500 manns á Extra-vellinum.

 

Mótahald í Dalhúsum og Fjölnishöllinni

Það var mikið um að vera í báðum íþróttahúsum Fjölnis alla helgina þegar fjölliðamót í 6.fl karla yngra ár í handbolta og úrslitakeppni A-riðils í 8.fl karla í körfubolta fóru fram. Það má áætla að um 1000 manns hafi komið í íþróttahúsum Fjölnis þar sem fjörið var mikið. Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum sá til þess að öll umgjörð var með besta móti.

 

Vorsýning skautaskólans

Skautaskóli Fjölnis hélt frábæra vorsýningu á laugardaginn þar sem iðkendur sýndu listir sínar undir merkjum fjölmargra þjóða og fóru með áhorfendum heimshornanna á milli.

 

Myndir: Baldvin B., Þorgils G. og Gunnar Jónatansson