Íþróttakarl Fjölnis 2023 - Gabríel Sigurður Pálmason

Uppskeruhátið Fjölnis fór fram þann 13. desember að viðstöddum stórum hópi íþrótta- og stuðningfólks. Stóru fréttirnar voru þar að okkar maður, Gabríel Sigurður Pálmason afreksmaður hjá Karatedeild Fjölnis var valinn íþróttakarl ársins. Það var sérlega ánægjulegt að sjá Gabríel hljóta þessa viðurkenningu fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í undanfarin ár. En á meðal sigra hans árið 2023 voru Íslandsmeistaratitill í kata, ásamt fjölda verðlauna sem hann hlaut á hinum ýmsu mótum innanlands og utan.

Við óskum Gabríel innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Mynd: Kristján U Kristjánsson.


Framtíðar frjálsíþróttastjörnur á Jólamóti Fjölnis

Jólamót frjálsíþróttadeildar Fjölnis var haldið á dögunum í Laugardalshöll. Mótið er haldið á ári hverju í desember fyrir yngstu iðkendur í frjálsum. Krakkarnir léku á als oddi og spreyttu sig í 60m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti, grindaboðhlaupi, þrístökki og 200m hlaupi. Árangurinn lét ekki á sér standa og ljóst er að Fjölnir á stóran hóp af efnilegum frjálsíþróttakrökkum.

Þjálfarar hópsins hafa lagt áherslu á að byggja upp alhliða íþróttakrakka sem njóta þess að hreyfa sig og mæta á æfingar og hefur tekist vel til. Að mótinu loknu fengu allir keppendur verðlaunapening og viðurkenningarskjal fyrir frábæran árangur.


Fjölnisjólakúla

Við erum að selja glæsilegar jólakúlur til styrktar yngri flokka starfi félagsins 🎅🎁

Tilvalið í leynivinagjöf til Fjölnisfólks eða bara til að fylla jólatréð af Fjölniskúlum 🎄

Kíkið við á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll og nælið ykkur í jólakúlur ☃✨


Keppnistímabilið er byrjað

Mótatímabilið 2023/2024 er hafið !
Virkilega flottir fulltrúar Fjölnis. Á haustin eru oft margir sem keppa í nýju þrepi eða með nýjar æfingar.
Til hamingju með flott mót iðkendur og þjálfarar

Meðfylgjandi má sjá skemmtilegar svipmyndir.


Takk sjálfboðaliðar!

Í dag, 5. desember, er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Við hér í Fjölni búum svo vel að eiga fjölda góðra sjálfboðaliða sem sjá til þess að verkefni innan félagsins eru unnin af kostgæfni.

Við erum ævinlega þakklát ómetanlegu framlagi sjálfboðaliða okkar til félagsins en án þeirra væri ómögulegt að halda úti jafn öflugu starfi og raun ber vitni.

Takk fyrir ykkur sjálfboðaliðar og til hamingju með daginn!


JÓLANÁMSKEIÐ ARONS SIG!

JÓLANÁMSKEIÐ MEÐ ARONI SIG!
Jólanámskeiðið verður haldið dagana 27., 28., 29. og 30. desember við bestu aðstæður inni í Egilshöllinni í samstarfi við Fjölni! ☃️

Námskeiðið er fyrir 6., 5. og 4. flokk karla og kvenna og verða tveir æfingahópar sem æfa annars vegar kl. 10:00-12:00 og 13:00-15:00. 48 sæti eru laus í hvorn hópinn.

Þjálfarar á námskeiðinu verða Aron Sigurðarson, uppalinn Fjölnismaður og atvinnumaður í fótbolta hjá Horsens og Björn Breiðfjörð yfirþjálfari yngri flokka Fjölnis ásamt góðum aðstoðarþjálfurum. Á hverjum degi verður keppni þar sem veglegir vinningar verða fyrir efstu sæti. Einnig kíkja góðir gestir á námskeiðið alla dagana og heilsa upp á krakkana.

Námskeiðsgjald er 8.990 kr. og eru 48 laus pláss í hvorn hópinn! FYRSTUR KEMUR, FYRSTUR FÆR!
Skráning fer fram í gegnum XPS https://xpsclubs.is/fjolnir/registration 🎅⛄️


Fulltrúar Fjölnis í æfingahópum yngri landsliða í körfubolta

**Uppfært** Á upptalninguna vantaði Guðmund Aron Jóhannesson í U20 og Helenu Rut Ingvarsdóttur í U15

Þjálfarar landsliða U15, U16, U18 drengja og stúlkna og U20 karla og kvenna hafa nú valið og boðað sína fyrstu æfingahópa sem æfa um miðjan desember. Þetta eru fyrstu stóru æfingahóparnir hjá hverju liði en upp úr þessum hópum verður svo valið í næstu minni æfingahópa sem koma til æfinga í febrúar næstkomandi.

Öll liðin hafa verkefni á komandi sumri en þá munu U15 liðin fara í mót eða verkefni með Norðurlöndunum og svo eru U16, U18 og U20 öll að fara á NM í lok júní og byrjun júlí og svo halda þau öll á EM mót FIBA hvert um sig í kjölfarið. Öll íslensku liðin leika í B-deild Evrópumótsins nema U20 karla sem leika í A-deild líkt og í fyrra. Í A-deildum eru eingöngu topp 16 landsliðin í hverjum árgangi ár hvert og 2-3 lið fara upp og niður milli ára, og þá eru öll önnur lönd í B-deildunum, auk nokkurra í C-deildum.

Innilega til hamingju og gangi ykkur vel!


Saule valin tennisspilari mánaðarins hjá Tennissambandi Íslands

Við endurbirtum hér grein frá TSÍ. https://tsi.is/2023/11/tennisspilari-manadarins-saule-zukauskaite-nov23/

Tennisspilari mánaðarins í nóvember er Saulé Zukauskaité sem er 15 ára gömul og hefur verið að æfa tennis frá því að hún var fjögurra ára og er ennþá á fullu í tennis í dag. Saulé sagði fyrst frá því að pabbi hennar hefði tekið eftir því hversu sterk hún var þegar hún var lítil og þótti honum tennis vera fullkomin íþrótt fyrir hana. Í dag æfir Saulé hjá Fjölni og hefur gert það síðastliðin 5 ár en fyrstu árin hennar í tennis æfði hún í Litháen.

Aðspurð um uppáhalds augnablikið hennar í tennis sagði Saulé frá því þegar hún vann sitt fyrsta alþjóðlega mót sem kallast Ten-Pro sem haldið var í Georgíu í september í fyrra í U16 flokki. Hvað varðar skemmtilegustu keppnisferðina nefndi Saulé ferð til Coventry þar sem hún keppti á International Children‘s Games en kvaðst hún vera virkilega þakklát fyrir reynsluna, tækifærið að kynnast nýju fólki og fá að styðja liðið sitt. Saulé talaði sömuleiðis um skemmtilegar tennisferðir til Sviss og París en hún tók annað sætið í U16 í Sviss og í U16 í París í ágúst síðastliðnum.

Þegar Saulé var spurð um ráð til annarra tennisspilara nefndi hún mikilvægi þess að ferðast um heiminn og spila með ólíkum spilurum. Saulé var einnig spurð hver uppáhalds meðspilari hennar væri en nefndi hún þá vinkonu sína Ívu Jovisic en þær hafa keppt mikið saman. Saulé sagði frá því að uppáhalds undirlagið hennar væri hard court en hún æfir mest á því undirlagi en sagði hún fljótt frá því að að hún kunni illa að spila á leirvöllum þar sem hún fær sjaldan tækifæri til að spila á slíkum völlum. Hvað varðar uppáhalds tennisspilara hennar nefndi Saulé spænska tennisspilarann Rafael Nadal en dáist hún einna helst að hugarfarinu hans.

Þessa dagana er Saulé búin að vera að keppa á alþjóðlega Ten-Pro mótinu í Rafa Nadal akademíunni en hún verður þar frá 20.nóvember til 3. desember en þar voru með henni þrír aðrir Íslendingar eða þeir Daniel Pozo, Ómar Páll og Andri Mateo. Saulé er ánægð með að fá að vera þarna með vinum sínum þar sem þau geta stutt hvort við annað í mótinu. Saulé sagði loks frá því að tennis geri hana mjög hamingjusama og hafi hún lært mikið af íþróttinni. Hún nefndi einnig að henni fyndist sérstaklega gaman að keppa og undirbúa sig fyrir mót en þá sé hún með hvata til að leggja enn meira á sig.

Uppáhalds skot: Forhönd og uppgjafir

Uppahalds tennisspilari: Rafael Nadal

Uppáhalds undirlag: Hard court

Ráð til að vera betri í tennis: Spila við ólíka einstaklinga


Handboltapassinn – Heimili handboltans

Handboltapassinn – Heimili handboltans

Við viljum kynna nýjung frá Símanum og HSÍ, Handboltapassann. Í Handboltapassanum verða allar íslensku deildirnar í handbolta, karla og kvenna, á einum stað. Í fyrsta skipti verða allir leikir í Olís og Grill 66 deildum karla og kvenna í beinni útsendingu.

Auk þess verður Handboltapassinn með beinar útsendingar frá 3. og 4. flokki karla og kvenna. Unnið er hörðum höndum að bæta þeim útsendingum við þjónustuna á næstunni.

Allir leikir eru aðgengilegir í 2 sólarhringa.

Aðgangur
Handboltapassinn er aðgengilegur í gegnum dreifileiðir Símans, hvort sem það er í myndlykil Símans eða Sjónvarp Símans appið í snjall-tækjum eða sjónvörpum.

Sjónvarp Símans appið er opið öllum óháð því hvar viðkomandi kaupir sína fjarskiptaþjónustu.

Áskrift af Handboltapassanum er afgreidd á sjálfsafgreiðsluvef Símans.

Útsending
Útsendingar fara fram í gegnum sjálfvirkar myndavélar sem nýta gervigreind til að koma útsendingum heim í stofu.

Auk þess þá verður einn leikur í hverri umferð í Olís deild karla og kvenna í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Þar fáum við áfram að njóta handboltans án gjalds á fimmtudagskvöldum í Olís deild karla og laugardögum í Olís deild kvenna.

Á handboltapassinn.is er hægt að tryggja sér áskrift á aðeins 1.290 kr. á mánuði og fá frekari upplýsingar um þjónustuna.


Íslands- og Íslandsmeistaramót ÍSS á Akureyri 24.-26.nóv

Íslands- og Íslandsmeistaramót ÍSS á Akureyri 24.-26.nóv

Seinustu helgi fór fram Íslands- og Íslandsmeistaramót ÍSS á Akureyri og að sjálfsögðu voru keppendur frá Fjölni á staðnum. Í þetta skiptið voru 10 keppendur sem kepptu fyrir okkar hönd. Elisabeth Rós tók þátt í Chicks flokkinum og Suri Han í Cubs flokki. Í Basic Novice voru það Arna Dís, Ermenga Sunna og Sóley Björt sem fóru fyrir Fjölnis hönd. Ísabella Jóna og Tanja Rut tóku þátt í Intermediate Women flokki. Advanced Novice keppendur voru Berglind Inga, Elva Ísey og Elín Katla. Lena Rut tók þátt í Junior Women flokki og Júlía Sylvía var í Senior Women flokkinum.

Á laugardeginum voru Basic Novice, Intermediate Women sem kláruðu sína keppni. Í Basic Novice lenti Ermenga Sunna í 2. sæti og Arna Dís náði 1.sætinu. Í Intermediate Women náði Tanja Rut 2. Sætinu. Allir keppendur í Basic Novice bættu sig frá haustmótinu sem var haldið í september.

Iðkendur Fjölnis í Cubs og Chicks tóku sinn keppnisdag á sunnudeginum og stóð þær sig með mikilli prýði.

Advanced Novice, Junior Women og Senior Women tóku stutta prógrammið sitt á laugardeginum og var árangurinn þar flottur. Eftir að Chicks og Cubs höfðu lokið sér af á sunnudeginum tók við frjálsa prógrammið hjá Advanced Novice, Junior Women og Senior Women.

Eftir frjálsu prógrömmin var komin heildarmynd hjá þessum flokkum. Í Advanced Novice endaði Berglind Inga í 3.sæti og Elín Katla tók 2.sætið. Elín Katla, Berglind og Elva Ísey bættu sig frá því á haustmótinu í september.

Eftir fyrri daginn var Lena Rut í fyrsta sæti í Junior Women flokkinum og eftir frjálsa prógrammið þá hélt hún fyrsta sætinu örugglega og bætti árangur sinn í heildarstigum frá Haustmótinu sem var haldið í september. Með þessu varð Lena því Íslandsmeistari í Junior flokki árið 2023!

Júlía Sylvía lokaði sunnudeginum með því að taka frjálsa prógrammið í Senior Women og stóð sig mjög vel og bætti hún sig í heildarstigum frá Haustmótinu frá því í september. Júlía Sylvía endaði sem Íslandsmeistari í Senior Women flokki árið 2023!

Við óskum öllum keppendum til hamingju með árangur sinn þessa helgi og fylgjumst spennt með næstu skrefum!

#FélagiðOkkar