Jónatan Guðni með U17!

Lúðvík Gunnarsson, landsliðsþjálfari U17 karla, hefur valið leikmannahóp til þátttöku í Telki Cup æfingamóti sem fram fer í Ungverjalandi dagana 14. – 20. ágúst næstkomandi.

Liðið mætir Króatíu, Úsbekistan og Ungverjalandi.

Jónatan Guðni er lykilleikmaður 2.flokks þrátt fyrir að vera ennþá í 3.flokki ásamt því að vera í æfingahóp meistaraflokks karla.

Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Jonna góðs gengis í þessu verkefni!


Þrír nýir leikmenn í meistaraflokk kvenna í knattspyrnu

Þrír leikmenn komu inn um gluggann í gær

Katrín Vilhjalmsdóttir er sóknarmaður sem kemur á láni frá Aftureldingu en Katrín er uppalin í 112.

Freyja Aradóttir er miðjumaður og kemur hún á láni úr efri byggðum Kópavogs eða liði fólksins HK.

Dúa Landmark er sóknarmaður sem kemur á láni frá Gróttu.

Bjóðum þær velkomnar í 112!


Fjölnir tók tvöfalt gull á USA Cup

3. flokkur karla Fjölnis í knattspyrnu hélt til Bandaríkjanna á USA Cup með fjögur lið, tvö 2008 lið og tvö 2007 lið.

2008 A-liðið komst í undanúrslit gegn Rush sem unnu svo mótið að lokum en liðið vann sinn riðill og spilaði frábæran fótbolta gegn sterkustu liðum mótsins í Gold keppni U15 deildarinnar.

2008 B-liðið vann einnig sinn riðill og unnu svo í 16-liða úrslitum og komust í 8-liða úrslit. Meiðsli settu strik sitt í reikninginn á mótinu hjá drengjunum en þrátt fyrir mikinn hita og að liðið hafði fáa skiptimenn þá var fótboltinn og liðsheildin hjá drengjunum til fyrirmyndar, mikill karakter sem býr í þessum geggjuðu strákum.

A-lið 3. flokks vann Gold keppnina í U16 keppninni og töpuðu ekki leik á leið sinni í úrslitin. Í úrslitum mættu þeir Progressive YSA akademíu frá New York sem er ein sú besta á landinu. Leikurinn endaði 5-0 fyrir Fjölni og unnu þeir keppnina örugglega! Jónatan Guðni Arnarsson endaði markahæstur í keppninni með 10 mörk í 6 leikjum. Liðið skorað flest mörk og fékk á sig fæst af öllum þeim sem tóku þátt í U16 Gold.

B-lið 3. flokks vann einnig sína keppni en þeir voru í Bronze keppninni í U16. Í úrslitaleiknum mættu þeir Fusion SC og unnu þann leik 2-0 eftir miklar þrumur og eldingar þar sem hlé þurfti að gera á leiknum vegna þeirra. Aron Ernir endaði markahæstur í sinni keppni með 11 mörk í 6 leikjum.

Frábær árangur hjá 3. flokknum í Fjölni og er framtíðin björt í Grafarvoginum!


Frábær árangur hjá 4 flokki kvenna í knattspyrnu á Barcelona girls Cup

Fjórði flokkur kvenna í knattspyrnu fór í síðustu viku í æfinga- og keppnisferð til Spánar. Stefnan var tekin á Salou þar sem alþjóðlegt mót stúlkna í knattspyrnu er haldið ár hvert, Barcelona girls cup. Flogið var út þriðjudaginn 6. júní og náði hópurinn nokkrum æfingum fyrir mótið sem hófst þann 10 júní. Þar voru 28 Fjölnisstelpur mættar galvaskar og tvö lið skráð til leiks.

Fjölnir 2 byrjaði mótið illa fyrri keppnisdaginn en sótti heldur betur í sig veðrið og endaði mótið á mjög svo flottum og jákvæðum nótum. Mikill stígandi var í liðinu og klárt að þessi æfinga- og keppnisferð kemur á réttum tíma og eflir liðið fyrir næstu leiki á Íslandsmótinu.

Fjölnir 1 byrjaði mótið með miklum látum og frábær spilamennska og mikil barátta skilaði liðinu í undanúrslit. Sá leikur tapaðist með einu marki, fyrir liðinu endaði á því að sigra mótið. Í leiknum um þriðja sætið mættu stelpurnar liði Aftureldingar í hörkuleik þar sem ekkert var gefið eftir. Fjölnir komst yfir í byrjun seinni með hálfleiks en Afturelding náði að jafna leikinn með síðustu spyrnu leiksins. Vítakeppni þurfti því til að fá niðurstöðu. Vítakeppnin var æsispennandi og þurfti bráðabana til, en að lokum náðu Fjölnisstelpur að tryggja sér sigur. Stelpurnar töpuðu aðeins einum leik í mótinu, í undanúrslitum. Frábær árangur og mikill stígandi hjá liðinu.

Með hópnum í Salou voru þjálfararnir Halldór Bjarki Guðmundsson og Andri Freyr Björnsson. Fararstjórar með hópnum voru hjónin Einar Ásgeir og Erna Margrét Arnardóttir. Þá fylgdu fjölmargir foreldrar hópnum út og skapaðist mikil og góð stemning innan foreldrahópsins. Stelpurnar náðu líka að skemmta sér vel á milli æfinga og leikja, farið var í bæði leiktækja- og vatnsleikjagarð. Stelpurnar stóðu sig frábærlega í alla staði og voru sér og félaginu til mikils sóma.


Tilkynning um lok strætófylgdar

Sú ákvörðun hefur verið tekin að hætta með fylgd á æfingar í haust. Undanfarin 6 ár höfum við fylgt börnum í 1. og 2. bekk til og frá æfingum með Strætó.

Margir þættir höfðu áhrif á þessa ákvörðun, þar með talið hefur ekki tekist að tryggja nægt fjármagn. Verkefnið hefur aldrei verið gallalaust en síðastliðinn vetur komu upp nokkur mál sem vöktu okkur alvarlega til umhugsunar um öryggi barna sem eru í fylgdinni og teljum við það óásættanlegt að geta ekki tryggt öryggi þeirra í okkar umsjá.

Við viljum þakka Strætó, frístundaheimilunum hverfisins og annarra samstarfsaðila fyrir gott samstarf síðustu ár og við kveðjum þetta verkefni með miklum trega því upphaflega var markmiðið að stytta vinnudag barnanna og auka samverustundir fjölskyldunnar. Fylgdin kenndi iðkendum okkar að taka strætó á æfingar sem er gott veganesti inn í framtíðina og vonandi jók sjálfstæði þeirra.

Vinna er hafin við það að stilla upp æfingatímum fyrir þennan aldur og er það gert í samráði við yfirþjálfara og verkefnastjóra deildanna.

 


Halldór valinn í EM hóp U19 ára landsliðsins

Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið hóp sem spilar fyrir Íslands hönd á lokakeppni EM 2023 á Möltu dagana 3. – 16. júlí.

Ísland er í riðli með Grikklandi, Noregi og Spáni. Ísland endaði í efsta sæti síns riðils í undankeppni mótsins.

Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Halldóri innilega til hamingju!

https://www.ksi.is/um-ksi/frettir/frettasafn/frett/2023/06/06/U19-karla-hopur-fyrir-EM-2023-kynntur/


Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Heilsteyptur Haus – hugarfarsþjálfunar námskeið

Barna og unglingaráð knattspyrnudeildar Fjölnis stendur fyrir námskeiði fyrir iðkendur í 3. og 4. flokki karla og kvenna í samvinnu við HAUS hugarþjálfun. Um er að ræða námskeið sem miðar að því að styrkja hugarfarslega þætti þátttakenda í gegnum fræðslu, heimaverkefni og eftirfylgni. Námskeiðið hófst vikuna 24. – 28. apríl og eru hóparnir fjórir sem samanstanda af u.þ.b. 20 iðkendum hver.

Hugarfarslegi/andlegi þátturinn í íþróttum og lífinu er ekki síður mikilvægur en sá líkamlegi og með þessu vill BUR stuðla að bættri líðan og sjálfsmynd iðkenda Fjölnis. Jafnframt er þetta fyrsti
viðburðurinn sem greiddur er að hluta til úr styrktarsjóð Fjölnismannsins Hálfdáns Daðasonar.

Markmið styrktarsjóðsins er að stuðla að fræðslu um geðheilbrigði og efla forvarnarstarf hjá yngri flokkum knattspyrnudeildar félagsins.

Heilsteyptur Haus er…
…hugarþjálfunarnámskeið fyrir yngri flokka og unglingaflokka í hópíþróttum þar sem iðkendur og þjálfarar læra að sinna þjálfun einbeitingar, sjálfstrausts og liðsheildar á reglubundinn hátt inni á æfingum samhliða tækniþjálfun og líkamlegri þjálfun.

Heilsteyptur Haus er fyrir…
…íþróttafélög sem vilja taka stórt skref í að sinna þeim hluta þjálfunar sem hefur verið stórlega
vanræktur í íþróttaþjálfun í gegnum tíðina og leiðir af sér ánægðarar íþróttafólk og betra íþróttafólk.

Heilsteyptur Haus samanstendur af:

  • 4 fyrirlestrum fyrir iðkendur
  • Vinnu iðkenda í styrktarprógrömmum á milli fyrirlestra
  • 4 þjálfarafundum
  • Þjálfarahandbók fyrir alla þjálfara


Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll 2023

Fjölnir býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða í allt sumar. Hægt er að velja eitt námskeið fyrir hádegi og annað eftir hádegi með eða án heitrar máltíðar. Sumarámskeiðin eru fyrir börn fædd 2013-2016. Fjölgreinanámskeiðin eru fyrir börn fædd 2014-2017, á því fá börnin að kynnast þeim íþróttum sem eru í boði hjá félaginu.

Skráning fer fram hér

Hvað er í boði?

  • Sumarnámskeið Fjölnis í Egilshöll (fjölbreytt úrval íþrótta) – þú setur saman daginn fyrir barnið þitt. Börn fædd 2013-2016
  • Fjölgreinanámskeið Fjölnis í ágúst – góður valmöguleiki til að kynnast úrvali íþrótta í Fjölni. Börn fædd 2014-2017

Hér má sjá nánari upplýsingar


Treyjunúmer

Ein af þeim knattspyrnureglum sem við verðum að fylgja er að allir hafi fast treyjunúmer. Nú er komið að þeim skemmtilegu tímamótum hjá yngra ári í 6. flokki í knattspyrnu að fá fyrstu úthlutun treyjunúmers. Iðkendur sem eru fæddir á slétttölu ári eiga að velja sér slétt númer á treyjuna sína. Þeir sem eru fæddir á oddatöluári velja sér oddatölu númer.

Ef fleiri en einn iðkandi óskar eftir sama númeri þá verður dregið um það hvaða iðkandi fær óskanúmerið. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það. Aðrir iðkendur verða að velja annað númer.

Iðkendur halda sama númeri út þriðja flokk. Númerið er óbreytilegt og hver leikmaður má eingöngu hafa eitt númer.

Yfirþjálfari (skrifstofa) félagsins heldur utan um númer allra iðkenda.

Nýir iðkendur hjá félaginu tala við yfirþjálfara til að fá treyjunúmer. Þeir leikmenn sem eru í 2. flokki mega halda áfram með sama númer nema ef tveir eru með sama númerið. Ef tveir eru með sama númer þá verður að draga út. Yfirþjálfari (skrifstofa) sér um það.

Ekki hika við að hafa samband yfirþjálfara ef einhverjar spurningar vakna.


Fjölnir og Samskip

Nú hafa meistaraflokkar knattspyrnudeildar Fjölnis spilað sína fyrstu leiki í nýjum búningum frá Puma. Það gleður okkur að kynna nýjan samstarfsaðila, Samskip, en merki þeirra er á baki allra búninga knattspyrnudeildarinnar; meistaraflokka og yngri flokka.

Samningurinn við Samskip var gerður til að heiðra minningu Sævars Reykjalín en hann var starfsmaður Samskipa og formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Fjölnis. Samningurinn var gerður til þriggja ára. Við þökkum Samskipum kærlega fyrir þennan rausnarlega styrk og hlökkum til samstarfsins næstu þrjú árin.

Á efri myndinni hér til hliðar má sjá Guðmund Lúðvík Gunnarsson, framkvæmdarstjóra Fjölnis ásamt Þórunni Ingu Ingjaldsdóttur, forstöðumanni markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Á þeirri neðri má sjá bakhliðina á nýju búningunum.