Snæbjörn Willemsson Verhaul útnefndur gullmerkishafi Fjölnis
Snæbjörn byrjaði að æfa karate janúar 2004 og hefur því verið viðloðandi Karatedeild Fjölnis í 21 ár. Lengst allra þeirra sem henni tengjast.
Hann hóf fljótlega að keppa fyrir hönd deildarinnar og náði fljótlega góðum árangri. Hann var alltaf í verðlaunasætum í bæði kata og kumite þangað til að hann hætti keppnisþátttöku árið 2011. Á ferlinum tók hann, meðal annars, þátt í tveimur heimsmeistaramótum sem haldin voru á vegum Kobe Osaka International sambandinu.
Hann hóf fljótt að aðstoða við þjálfun og starfar í dag sem aðstoðaryfirþjálfari deildarinnar. Hann menntaði sig sem styrktarþjálfari og býður framhaldshópum, afrekshópum sérsniðina styrktarþjálfun.
Hann hefur einnig verið dómari fyrir hönd Fjölnis á mótum innanlands og erlendis og sat á tímabili í stjórn deildarinnar sem fulltrúi yngri iðkenda.

Takk Snæbjörn
Karate: María Baldursdóttir nýr handhafi gullmerkis Fjölnis
María Baldursdóttir er fyrrverandi formaður Karatedeildar Fjölnis og hóf fyrst þátttöku í starfi deildarinnar, eins og svo mörg önnur, með því að fylgja börnunum sínum á æfingar. Fljótlega tók hún virkari þátt með því að setjast í stjórn deildarinnar og gegndi formennsku um árabil.
Þegar drengurinn hennar lét af iðkun íþróttarinnar var María þó ekki af baki dottin heldur tók að sér nýtt hlutverk. Fyrir hönd Karatedeildar Fjölnis settist hún í stjórn Karatesambands Íslands og tók þar að sér eitt streitufyllsta og vanþakklátasta hlutverk hreyfingarinnar – formennsku í mótanefnd. Í því hlutverki stýrði hún mótahaldi í níu ár og bar ábyrgð á öllum mótum, bæði smærri mótum Karatesambandsins og á stærri alþjóðlegum mótum eins og Norðurlandameistaramótum og Smáþjóðaleikum.
Íþróttahreyfingin byggist á sjálfboðaliðum, og þar er Karatedeild Fjölnis engin undantekning. Okkar heppni hefur verið að eiga einstaklinga eins og Maríu, sem með óeigingjörnu starfi sínu hefur lagt grunn að öflugri og sjálfbærri starfsemi.
María var sæmd gullmerki Fjölnis númer 42.
#TakkMæja

Heiðursfélagar Fjölnis: Willem Verhaul og Valborg Guðjónsdóttir Karatedeild
Það er vart hægt að tala um annað þeirra heiðurshjóna án þess að nefna hitt í sömu andrá – enda hafa þau verið óaðskiljanleg í starfi Karatedeildar Fjölnis í á þriðja áratug. Af þeirri ástæðu er okkur sannur heiður að tilnefna þau sem Heiðursfélaga Fjölnis fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til íþróttarinnar, félagsins og deildarinnar.
Ein krafan til þeirra sem sækjast eftir Dan gráðun (svarta beltið) í karate sé að þau verði að gefa til baka til íþróttarinnar. Fá hafa lagt sig jafn mikið fram um að gera það eins og þau Willem og Valborg. Án þeirra, ræki Karatedeild Fjölnis einfaldlega ekki þá öflugu starfsemi sem raun ber vitni. Þau hafa lagt ómælda vinnu í uppbyggingu deildarinnar, hvort sem það er í þjálfun,

stjórnarsetu, liðsstjórn eða dómgæslu. Öll þeirra börn hafa stundað karate, og sjálf hafa þau gengið í öll möguleg ábyrgðarhlutverk – jafnan oftar en einu sinni.
Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hversu dýrmæt þau eru fyrir starfsemina, en fyrir okkur sem höfum notið eljusemi þeirra og eldmóðs er það augljóst. Það er því með djúpu þakklæti sem við tilnefnum þau til þessarar viðurkenningar.
Fjör í fimleikasal í Dymbilvikunni
Fjör í fimleikasal í Dymbilvikunni
Við ætlum að bjóða krökkum á aldrinum 2018-2013
tækifæri á því að koma í fimleikasalinn okkar dagana 14.-16. apríl frá kl 09:00-12:00
Verð 3500 kr hver dagur
Við viljum bjóða upp á fimleika, skemmtun og afþreyingu fyrir börn á þessum aldri í páskafríiinu.
Skráning er opin á XPS !
Fréttabréf listskautadeildar
Paraskautun á EM
Júlía Sylvía og Manuel tóku þátt fyrir Íslands hönd á Evrópumóti sem fór fram í Tallin 28. janúar til 2. febrúar. Með þátttökunni voru þau fyrsta skautaparið til að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópumóti í listskautum. Enduðu þau í 18. sæti með 48,58 stig í stutta prógramminu sínu og komust því miður ekki áfram en 16 efstu komust áfram til að taka frjálsa prógrammið. Þrátt fyrir að hafa ekki komist áfram mega þau vera stolt af frammistöðu sinni og fengu þau dýrmæta reynslu fyrir framhaldið.
Skautahlaup og Samhæfður skautadans/Synchro
Í lok janúar byrjuðu námskeið hjá Fjölni bæði í samhæfðum skautadans og einnig í skautahlaupi. Voru námskeiðin til lok febrúar og verður það endurtekið núna eftir páska og verður námskeiðin frá 23.apríl og út maí. Skráning er hafin inn á XPS
Norðurlandamót 2025
5. – 9. febrúar fór fram Norðulandamót sem var haldið í Asker í Noregi. Tveir keppendur frá Fjölni, Arna Dís og Elín Katla, fóru fyrir hönd Íslands. Góð reynsla fyrir þessa skautara og náði Elín þeim árangri að fá hæstu heildarstig sem íslenskur skautari hefur fengið í Advanced Novice flokki á Norðurlandamóti. Nánar er hægt að lesa um mótið hér: Norðurlandamót 2025 – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Vormót ÍSS og Bikarmeistarar
Helgina 28. febrúar til 2. mars fór fram Vormót ÍSS á Akureyri. Fóru 24 keppendur frá Fjölni sem tóku þátt. Bendum á færsluna um mótið hér: Fjölnir Bikarmeistarar í listskautum! – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Stóðu allir keppendur Fjölnis sig með príði og voru félaginu til fyrirmyndar að öllu leiti. Viljum við nýta tækifærið og þakka þeim sjálfboðaliðum sem hjálpuðu til á Akureyri í þessari ferð.
Með þeim árangri sem okkar skautarar náðu á þessu móti sem og fyrri mótum náði félagið þeim glæsilega árangri að tryggja sér bikarmeistaratitilinn árið 2025. Var þetta þriðja árið í röð sem Fjölnir verður bikarmeistari í listskautum!
Öskudagsball
Á öskudaginn héldum við öskudagsball á skautasvellinu og var góð og skemmtileg stemming sem skapaðist þar. Þökkum öllum sem gerðu sér leið á ballið og gerðu þetta að þeirri skemmtun sem þetta var.
Sonja Henie Trophy 2025
Sonja Henie Trophy fór fram í Osló dagana 6.mars – 9.mars og átti Fjölnir keppendur á mótinu. Ermenga Sunna tók þátt í Basic Novice Girls á meðan að Arna Dís og Elín Katla tóku þátt í Advanced Novice Women.
Ermenga hóf keppni af okkar keppendum og með sínu prógrammi fékk hún 30,51 stig sem skilaði henni 14.sæti af 47 keppendum.
Í stutta prógramminu fékk Elín Katla 33,70 stig sem skilaði henni 5.sæti eftir fyrri daginn. Arna Dís fékk 25,28 stig fyrir sitt stutta prógram og var hún í 19. sæti að loknum fyrsta degi.
Á seinni keppnisdeginum var frjálsa prógrammið á dagskrá og fékk Arna Dís 53,86 stig fyrir það. Skilað það henni upp um tvö sæti eða í 17. sætið með 79,14 heildarstig.
Elín Katla fékk 64,91 stig fyrir sitt frjálsa prógramm og endaði hún því með heildarstig upp á 98,61 stig og endaði hún í 5. sæti með þeim stigafjölda.
Frábært árangur og reynsla fyrir báða keppendur og stóðu þær sig með prýði.
Mannabreytingar í stjórn og starfskrafti
Þann 6. mars var haldinn aðalfundur listskautadeildar. Á þeim fundi urðu breytingar á stjórn deildarinnar. Nýir meðlimir í stjórn eru Fanndís Ýr Brynjarsdóttir og Evelina Kreislere. Við þökkum fráfarandi stjórnar meðlimum kærlega fyrir sitt framlag í stjórnarstarfinu seinasta árið!
Einnig er breyting hjá starfsmönnum deildarinnar en Leifur sem hefur starfað sem skautastjóri síðan í ágúst 2023 mun færa sig um set innan Fjölnis og því ekki starfa lengur sem skautastjóri fyrir deildina. Seinasta árið hefur hann sinnt stöðu íþróttastjóra Fjölnis meðfram skautastjóra stöðunni en mun hann alfarið færa sig yfir á skrifstofu félagsins þar sem hann mun þó auðvitað ennþá vera innan handar fyrir listskautadeildina eins og aðrar deildir félagsins ef eitthvað er. Hægt er að senda tölvupóst á skautastjori@fjolnir.is eða listskautar@fjolnir.is ef hafa þarf samband vegna einhverra mála er við kemur listskautadeildinni.
Framundan
Næsta laugardag, 5.apríl, mun Kristalsmótið vera haldið af okkur í Fjölni á skautasvellinu í Egilshöll. Og af þeim sökum verða ekki æfingar en við hvetjum alla til að mæta og fylgjast með mótinu. Upplýsingar um dagskrá er hægt að finna á hér á heimasíðu Fjölnis: Kristalsmót 2025 – Dagskrá og keppnisröð – Ungmennafélagið Fjölnir – fjolnir.is
Fjölskyldudagur skautaskóla er svo á dagskrá 12.apríl og eiga upplýsingar um það að koma þegar nær dregur.
Nú er að koma mikið af rauðum dögum í tengslum við t.d. páskana og minnum við því á að á rauðum dögum er heilt yfir frí á æfingum nema annað sé tekið fram.
Grunnpróf fer einnig fram í apríl og verða upplýsingar sendar með það til þeirra sem eiga að skoða það, en einnig er hægt að ræða við þjálfara um það mál ef þið hafið einhverjar spurningar.
Stefnt er að halda vorsýninguna árlegu þann 31.maí en frekari upplýsingar um það munu koma þegar nær dregur.



Aðalfundur Ungmennafélagsins Fjölnis
Aðalfundur Fjölnis fer fram þriðjudaginn 8. apríl kl. 17:00. Fundurinn verður í Miðjunni, félagsaðstöðu Fjölnis í Egilshöll.
Framboð til stjórnar þarf að berast til gudmundur@fjolnir.is eigi síðar en 3. apríl.
Tillögur til breytinga á lögum félagsins, undirritaðar af flutningsmönnum, skulu sendar aðalstjórn félagsins eigi síðar en 3. apríl.
Tillögur að lagabreytingum munu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
Dagskrá aðalfundar verður:
a) Skýrsla stjórnar
b) Reikningar félagsins
c) Lagabreytingar
d) Kjör formanns
e) Kjör stjórnarmanna
f) Kjör skoðunarmanna reikninga
g) Önnur mál
8. grein
Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum og allt að tveimur til vara. Kosning til stjórnar skal fara þannig fram:
a) kosning formanns til eins árs,
b) kosning sex meðstjórnenda til tveggja ára, þannig að þrír eru kosnir á hverju ári,
c) kosning tveggja manna í varastjórn til eins árs.
Varamenn taka sæti í stjórn ef aðalmaður forfallast í sömu röð og þeir eru kosnir. Bjóði meðstjórnandi sig fram til formanns áður en kjörtímabili hans líkur, tekur varamaður sæti í stjórn fram að næsta aðalfundi.
Allir félagsmenn félagsins sem eru fjárráða geta boðið sig fram til formanns. Formaður félagsins getur ekki samtímis verið formaður deildar. Tilkynningar um framboð til formanns og meðstjórnenda félagsins skulu berast framkvæmdarstjóra félagsins minnst 5 dögum fyrir boðaðan aðalfund.
Formaður er kosinn beinni kosningu á aðalfundi, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Stjórn fer með umboð og vald aðalfundar á milli aðalfunda án heimildar til lagabreytinga.
Á aðalfundi skulu einnig kosnir tveir skoðunarmenn reikninga en í þeirra stað má kjósa einn löggiltan endurskoðanda.
Lög Fjölnis má finna hér:
https://fjolnir.is/felagid-okkar/log-felagsins/
Fimleikaæfingar falla niður útaf mótahaldi
Um helgina erum við að halda Bikarmót í hópfimleikum og áhaldafimleikum.
Í dag ,fimmtudag, kl 18:30 hefst uppsetning fyrir mótið.
Allar æfingar falla því niður frá 18:30 í dag og engar æfingar verða fram yfir helgi.
Vonandi komast skilaboðin til allra.
Á mánudaginn verður venjuleg dagskrá.
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Fjölnir er Íslandsmeistari í íshokkí kvenna annað árið í röð! 🏆
Leikur 4 – Skautafélag Akureyrar vs. Fjölnir, þriðjudagur 19. mars kl. 19:30
Lokastaða: Fjölnir 2 – 1 Skautafélag Akureyrar
Fjölnir tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna annað árið í röð með frábærum 2-1 sigri á Skautafélagi Akureyrar á útivelli. Liðið vann úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði innilega eftir erfiða og spennandi rimmu.
Frá upphafi var ljóst að SA ætlaði sér sigur og settu þær mikla pressu á vörn Fjölnis. Sóknaraðgerðir heimaliðsins voru beittar, en Fjölnir sýndi styrk sinn í varnarleiknum. Hvort sem það voru skot sem leikmenn blokkuðu eða stórkostlegar markvörslur Karítasar Halldórsdóttur, tókst Fjölni að halda markinu hreinu í fyrsta leikhluta.
Þrátt fyrir yfirburði SA í upphafi var það Fjölnir sem náði að opna leikinn á 18. mínútu. Hilma Bergsdóttir vann pökkinn af varnarmanni SA og skoraði án stoðsendingar, nokkuð gegn gangi leiksins. Fjölnir fór því með 1-0 forystu inn í fyrsta leikhlé.
Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn nokkuð og bæði lið fengu góð færi. Á 37. mínútu jók Fjölnir forskot sitt þegar Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði eftir mikið kapphlaup fyrir framan mark SA. Laura Ann Murphy og Elín Darkoh lögðu upp markið og Fjölnir var komið í vænlega stöðu, 2-0.
Þriðji leikhluti hófst með mikilli ákefð frá SA, og sex mínútum inn í lotuna tókst Önnu Sonju Ágústsdóttur að koma heimaliðinu inn í leikinn með marki. SA setti allt í sölurnar í lokin og sótti af krafti, en Fjölnir hélt út með sterkan varnarleik og kláraði leikinn með 2-1 sigri.
Með þessum sigri vann Fjölnir úrslitaeinvígið 3-1 og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum annað árið í röð. Frábær liðsheild, skipulagður varnarleikur og öflug frammistaða í lykilaugnablikum tryggðu titilinn.
Skot á mark í leik #4
Fjölnir: 25
SA: 21
Ungmennafélagið Fjölnir óskar ykkur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan titil! Þið eruð snillingar!! 💕
Sumarstörf Fjölnis fyrir 17-25 ára

Við höfum opnað fyrir umsóknir í sumarstörf Fjölnis 2025 fyrir 17-25 ára!
Við bjóðum upp á fjölbreytt störf fyrir 17-25 ára. Í boði er að vinna á íþróttasvæðinu í Dalhúsum, á sumarnámskeiðum deilda ásamt fjölgreinanámskeiði félagsins. Umsækjendur geta hakað við það starf sem þeir óska eftir, það er í boði að velja fleiri en eitt starf, t.d. að starfa á knattspyrnu- og listskautanámskeiðum.
Vinnutímabil fyrir 17-25 ára fer eftir nánara samkomulagi þegar ráðning liggur fyrir.
Sækja þarf um hér: https://forms.office.com/e/xQW1FM2gv5
Umsækjendur þurfa einnig að sækja um hjá Hinu Húsinu hér: https://jobs.50skills.com/reykjavik/is/34337
Laun eru greidd út samkvæmt kjarasamningum Reykjavíkurborgar.
Allar nánari upplýsingar veitir skrifstofa Fjölnis á sumarnamskeid@fjolnir.is.
Umsóknarfrestur er til 18. apríl
Öllum umsóknum verður svarað.
*Umsóknir fyrir sumarstörf fyrir unglinga hjá Vinnuskólanum opna á næstu dögum!
#FélagiðOkkar