Skert þjónusta við skautafólk

Frímann Ari Ferdinandsson formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur hefur fært Ungmennafélaginu Fjölni þau ótíðindi að menningar- íþrótta- og tómstundaráð hafi ákveðið að loka fyrir aðstöðu til skautaiðkunar í Egilshöll í júní næstkomandi.

Undirrituð eru forviða yfir þessari fregn og lýsa yfir miklum áhyggjum vegna hennar. Ákvörðunin kemur eins og reiðarslag í andlit forsvarsmanna og iðkenda þar sem gengið var út frá því að þjónusta við þá yrði eins og verið hefur undanfarin ár. Það er álit undirritaðra að gangi lokunin eftir sé verið að mismuna iðkendum einstakra íþróttagreina.

Það er mat undirritaðra að sparnaður sé takmarkaður í ljósi þess að svellinu þarf að halda frosnu í sumar hvort sem æft er á því eða ekki, því er óraunhæft að telja þetta sem hagræðingu. Fyrir Fjölni yrði lokunin mikið tekjutap þegar æfingagjöld falla niður og þjálfarar nýtast ekki til þeirrar vinnu sem þeir eru ráðnir til.

Niðurskurður mun hafa mikil áhrif á starfsemi Fjölnis til æfinga og á sumarnámskeiða fyrir listskauta og íshokkí. Undanfarin sumur hefur Fjölnir haldið úti sumarbúðum fyrir eldri iðkendur í framhaldshópum, ásamt því að sumarstarfið hefur laðað til sín áhugasama úr öðrum félögum. Á sumarnámskeiði fyrir iðkendur í 1. – 4. bekk hefur verið boðið upp á heildstæða dagskrá sem hefur reynst vel og verið mjög eftirsótt. Fyrir utan hversu mikil forvörn felst í góðum anda og samskiptum þátttakenda.

Listskautadeild Fjölnis hefur með markvissri uppbyggingu á starfseminni náð góðum árangri, nú síðast í vor þegar bikarmeistaratitli var náð.

Ólíkt öðrum íþróttum þá er ekki hægt að vera utandyra að sumri til. Við gætum því boðið iðkendum SR í sumarbúðir okkar ásamt því að eldri iðkendur hafa tök á því að æfa sína íþrótt.

Undirrituð fara þess hér með á leit að menningar- íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur
dragi ákvörðun sína um lokun til baka þannig að iðkendur listskauta og íshokkí geti stundað sína íþrótt eins og áformað hefur verið. Meðfylgjandi er mynd af framhaldshópum Fjölnis sem urðu bikarmeistarar ÍSS fyrir 2 vikum á Akureyri í fyrsta skipti síðan félagið var stofnað.

Virðingarfyllst,

formaður Fjölnis
Jón Karl Ólafsson

varaformaður Listskautadeildar Fjölnis
Tinna Arnardóttir

framkvæmdastjóri Fjölnis
Guðmundur L. Gunnarsson

íþróttastjóri Fjölnis
Arnór Ásgeirsson