Pepsi Max deild karla
11. umferð
Stjarnan – Fjölnir
Sunnudaginn 4. október kl. 17:00 á Samsungvellinum, Garðabæ.

Nú þegar fimm leikir eru eftir af keppnistímabilinu er Fjölnir tíu stigum frá Víkingi R. sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Í síðasta leik laut Fjölnir í lægra haldi í Kaplakrika, 1-0. Andstæðingur Fjölnis á næstkomandi sunnudag gerði 1-1 jaftefli við FH síðastliðið fimmtudagskvöld. Fjölnir og Stjarnan mættust í 2. umferð á Extra vellinum og vann Garðabæjarliðið 1-4 sigur. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig en hefur leikið leik færra en öll önnur lið deildarinnar að KR frátöldu. Stjarnan er því í harðri baráttu um Evrópusæti.

Fjölnir á ansi veika von um að halda sæti sínu í deildinni. Vinni Víkingur leik sinn á sunnudag gegn KA og tapi Fjölnir gegn Stjörnunni verður tölfræðilegur möguleiki Fjölnis á að halda sæti sínu í deildinni ekki lengur til staðar.

Leikurinn í Garðabæ verður sá síðasti fyrir landsleikjahlé. Ekki verður leikið aftur í efstu deild fyrr en 15. október. Um er að ræða frestaðan leik frá 11. umferð. Sigurpáll Melberg Pálsson verður í leikbanni í leiknum á sunnudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Stjörnumennirnir Halldór Orri Björnsson og Brynjar Gauti Guðjónsson verða fjarverandi af sömu ástæðu.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson