Pepsi Max deild karla

2. umferð

Fjölnir – Stjarnan

Sunnudaginn 21. júní kl. 16:45 á Extra vellinum

Eins og flestum Fjölnismönnum er kunnugt hófst tímabilið með 1-1 jafntefli gegn Víkingi. Af þeim fjórtán leikmönnum Fjölnis sem komu við sögu í leiknum voru fimm að þreyta frumraun sína í efstu deild, þeir Atli Gunnar Guðmundsson, Valdimar Ingi Jónsson og Orri Þórhallsson voru allir í byrjunarliðinu. Inn af varamannabekknum í sínum fyrstu leikjum í efstu deild komu Lúkas Logi Heimisson og Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson. Leikurinn var einnig frumraun Lúkasar í meistaraflokki. Þá lék Grétar Snær Gunnarsson sinn fyrsta leik í gulu treyjunni.

Á milli leikja hefur einn leikmaður bæst við í hóp Fjölnis. Í vikunni gengu Fjölnir og Víkingur R. frá samkomulagi um félagaskipti Örvars Eggertssonar sem skrifaði undir samning við Fjölni sem gildir út tímabilið 2021. Örvar er 21 árs kanntmaður sem leikið hefur 44 leiki fyrir Víking og skorað í þeim fjögur mörk. Örvar á það sameiginlegt með Valdimar Inga Jónssyni og Arnóri Breka Ásþórssyni að hafa þótt gríðarlega efnilegur í frjálsum íþróttum.

Andstæðingurinn

Stjarnan hóf tímabilið með því að leggja Fylki 2-1 með sigurmarki í uppbótartíma. Stjarnan hefur á að skipa reyndu liði sem litlum breytingum hefur tekið á síðustu árum. Rúnar Páll Sigmundsson er á sínu sjöunda tímabili sem þjálfari Stjörnunnar. Í vetur bættist Ólafur Jóhannesson inn í þjálfarateymið og eru þeir Rúnar báðir aðalþjálfarar. Stjarnan endaði í fjórða sæti á síðustu leiktíð. Fjölnir og Stjarnan mættust í Lengjubikarnum í febrúar. Heilt yfir var var jafnræði með liðunum í þeim leik en voru Fjölnismenn rækilega minntir á gæði Hilmars Árna Halldórssonar sem óumdeilanlega hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins síðustu ár. Hilmar Árni gerði bæði mörk þeirra bláklæddu gegn engu marki Fjölnismanna.

Hvað segir sagan?

Fjölnir og Stjarnan hafa nítján sinnum mæst í deildar- og bikarkeppni. Liðin hafa unnið sitt hvora sjö leikina og fimm leikir endað með jafntefli. Fjölnir hefur átt undir högg að sækja gegn Stjörnunni á síðustu árum. Fjölnir hefur ekki borið sigurorð á Stjörnnunni síðan Mark Charles Magee lék á alls oddi í 1-3 sigri Fjölnismanna fyrir fimm árum síðan. Með Ásmund Arnarsson í brúnni hefur Fjölnismönnum gengið vel gegn Stjörnunni; fjórir sigrar, þrjú jafntefli og ekkert tap.

Einn eftirminnilegasti leikur liðanna var í bikarkeppninni árið 2007. Torsóttasti sigur Fjölnis á leið sinni í bikarúrslit það ár var 2-3 sigur á Stjörnunni í 16-liða úrslitum keppninnar. Stjarnan komst í 2-0 með mörkum frá Guðjóni Baldvinssyni. Pétur Markan minnkaði muninn fyrir Fjölni áður en Ómar Hákonarson jafnaði undir lok venjulegs leiktíma. Ómar sem hafði farið úr axlarlið í leiknum innsigldi svo 2-3 sigur Fjölnis í framlengingu. Auk Guðjóns Baldvinssonar spiluðu tveir aðrir núverandi leikmenn Stjörnunnar umræddan leik, þeir Halldór Orri Björnsson og Daníel Laxdal. Leikurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir að hann er einn af fáum leikjum þar sem núverandi aðstoðarþjálfari Fjölnis, Gunnar Már Guðmundsson, kom inná sem varamaður. Ásmundur Arnarsson stýrði Fjölni á þessum tíma.

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

27 – Dagur Ingi Axelsson

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

33 – Eysteinn Þorri Björgvinsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson

 

 

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér.

Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

 

 

Sjá einnig:
Fyrri viðureiginir liðanna
Fjölnir á Facebook og Twitter
Fjölnir – Stjarnan á Facebook