Skákæfingum Fjölnis lauk með fjölmennri skákhátíð í hátíðarsal Rimaskóla 14. maí. Tilkynnt var um val skákdeildarinnar á afreks-og æfingameistara vetrarins. Margir voru verðugir heiðursins en aðeins tveir útvaldir.
Hin efnilega Emilía Embla B. Berglindardóttir í 2. bekk Rimaskóla var kjörin afreksmeistari. Hún leiddi hina efnilegu stúlknaskáksveit skólans sem sigraði í opnum flokki bæði á jólamóti ÍTR og TR og Reykjavíkurmóti grunnskóla 2020 í flokki 1. – 3. bekkjar, afrek sem engin stúlknasveit hefur fyrr né síðar náð að landa. Emilía Embla varð líka Íslandsmeistari grunnskóla í stúlknaflokki með sveit Rimaskóla 3. – 5. bekkur. Framtíðarskákkona Íslands.
Arnar Gauti Helgason í 6. bekk Rimaskóla var valinn æfingameistari vetrarins. Hann var ásamt fjölmörgum Fjölniskrökkum með 100% mætingu og Reykjavíkurmeistari í flokki 4. – 7. bekkjar 2020 ásamt félögum sínum í Rimaskóla.
 Í tilefni af skemmtilegu skákári var öllum 50 þátttakendum æfingarinnar boðið upp á Domínó´s pítsur þar sem allir fengu nægju sína.
Allar skákæfingar Fjölnis í vetur hafa verið mjög vel sóttar næstum jafnt af strákum og stelpum. Krakkarnir eru á öllum grunnskólaaldri og fást við verðug en skemmtileg viðfangsefni á hverri æfingu.
Skákæfingarnar hefjast að nýju um miðjan september.