Sterkt og fjölmennt TORG – skákmót Fjölnis 2020

Það er ekki á hverjum degi sem 2/3 þátttakenda á skákmóti ljúka keppni með verðlaunum eða happadrættisvinningi. Þetta gerðist þó á fjölmennu og skemmtilegu TORG skákmóti Fjölnis í Rimaskóla fyrsta dag febrúar mánaðar.
Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson stigahæsti skákmaður Íslands og fyrrum nemandi Rimaskóla var heiðursgestur mótsins og lék fyrsta leikinn fyrir Söru Sólveigu Lis. Sara er ein fjögurra stúlkna í Íslandsmeistarasveit Rimaskóla á Íslandsmóti grunnskóla 6. – 10. bekkjar.
Á TORG skákmótinu fjölmenntu yngri og eldri skákkrakkar á grunnskólaaldri, þar af um helmingur úr Grafarvogi. Tefldar voru sex umferðir og barist um hvern vinning sem skipti máli í hnífjafnri baráttu um sigra og veglega vinninga.
Það var að venju margt spennandi og skemmtileg á TORG skákmótinu 2020, fríar veitingar frá Hagkaupum, Ekrunni og Emmess. Glæsilegir vinningar frá Hagkaup, Emmess, CoCO´s, Pizzan, Bókabúðinni Grafarvogi og Blómabúðinni Grafarvogi, alls 40 talsins.
Fjölniskrakkar sem urðu meðal efstu á mótinu má nefna stúlkurnar Emilíu Emblu, Maríu Lenu og Nikolu sem allar tefldu með Íslandsmeistarasveit Rimaskóla á Íslandsmeistaramóti stúlkna í 3. – 5. bekk í janúar sl., bekkjarbræðurna Aðalbjörn Þór og Aron Örn í Rimaskóla, Eirík Emil í Húsaskóla og áðurnefnda Söru Sólveigu Lis í Rimaskóla.
Skákstjórn var í höndum Helga Árnasonar formanns skákdeildar Fjölnis og Páls Sigurðssonar skákdómara.
Þátttakendur voru 64, jöfn tala við reitina á skákborðinu, sem er skemmtileg tilviljun. Foreldrar fjölmenntu að venju og fylgdust af ánægju með sínum ungu “skákmeisturum” og létu fara vel um sig í félagsmiðstöðinni á staðnum.
Skákdeild Fjölnis þakkar öllum þeim fyrirtækjum sem gáfu vinningana og veitingarnar á þessu 16. TORG skákmóti Fjölnis.
Myndatextar:
IMG 5380:  Heiðursgestur TORG mótsins, Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari, leikur fyrsta leik mótsins fyrir Söru Sólveigu Lis
IMG 5397:  Þessir efnilegu skákkrakkar hlutu eignarbikara TORG skákmótsins 2020. Einar Dagur í yngri flokk, Árni Ólafsson sigurvegari mótsins og Soffía Arndís sem náði bestum árangri stúlkna
IMG 5389: Skákfærnina er að finna meðal nemenda allt frá 1. bekk. Þessir efnilegu skákkrakkar á myndinni eru ótrúlega færir í skáklistinni þrátt fyrir ungan aldur og koma til með að tefla af krafti bæði innanlands og erlendis næstu árin