Hrund Hauksdóttir (1759), ung og efnileg landsliðskona úr Skákdeild Fjölnis sigraði á fjölmennu U2000 skákmóti Taflfélags Reykjavíkur en mótinu lauk 26. nóvember sl. Hrund fylgdi þar með eftir frábærri frammistöðu sinni á alþjóðlega helgarskákmótinu í Hasselbacken um sl. mánaðarmót en þar náði hún 3. sæti kvenna og vann til “ratings” verðlauna. Með frammistöðu sinni hefur Hrund hækkað um 100 skákstig á tæpum mánuði. Hrund er fyrrverandi nemandi í Rimaskóla og varð Norðurlandameistari með skáksveit skólans árið 2012. Hrund hefur teflt með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíumóti landsliða og virðist til alls líkleg í framtíðinni.