Frítt að æfa íshokkí í desember fyrir byrjendur

Íshokkídeildin býður byrjendum að prófa að æfa, þeim að kostnaðarlausu út desember. Íshokkí er fjölbreytt og skemmtileg íþrótt sem hentar öllum aldri, ekki skiptir máli að kunna á skauta því þjálfararnir okkar kenna skautatækni ásamt öðru sem tilheyrir íþróttinni á skemmtilegan hátt á æfingum.

Við hlökkum til að sjá sem flesta næst komandi þriðjudag til að prófa. Mæting kl. 17 til að finna búnað.


Gesta þjálfari frá Tychy í heimsókn hjá íshokkídeildinni

Helgina 30. nóvember til 1. desember fengum við til okkar gestaþjálfara sem heitir Tomasz Kurzawa og kemur hann frá Tychy í Póllandi. Tomasz var með æfingu á laugardagskvöldið fyrir 4.flokk og upp í mfl karla þar sem þáttakendur voru hátt í 30 talsins. Svo á sunnudagsmorgninum var hann með tvær æfingar, fyrri æfingin var fyrir 5.flokk og niður í kríli og seinni æfingin var fyrir 4.flokk og upp í 2.flokk og það var vel mætt á þær báðar. Það var mjög gaman að fylgjast með Tomasz við störf og við stefnum á fá þennan þjálfara aftur í heimsókn til okkar seinna.
Tomasz er rétt rúmlega fertugar og á að baki yfir 20 ára reynslu í íshokkí. Hann er fyrrum leikmaður GKS Tychy og er nú að þjálfa fyrir GKS en hann rekur einnig íshokkí akademiu Pionier Tychy sem hann opnaði árið 2015. Hann er með þjálfararéttindi frá University of Physical Education, Katowice og power skating þjálfari frá SK8ON Hockey School í Toronto þar sem hann vann með Jarek Byrski sem vinnur mikið með leikmönnum í NHL deildinni. Tomasz hefur meðal annars þjálfað NHL leikmenn á borð við Jeff Skinner leikmanni Buffalo Sabres, Jason Spezza leikmanni Toronto Maple Leafs og Brent Burns leikmanni San Jose Sharks.
Það er gaman að segja frá því að þessi þjálfari kom upphaflega til Íslands til að heimsækja vin sinn Marcin og þökkum við honum kærlega fyrir að hafa lánað okkur Tomasz um helgina. Einnig viljum við þakka Tomasz kærlega fyrir komuna og hjálpina um helgina.


Kvennaleikir helgarinnar

Nú um helgina fóru fram annar og þriðji leikur í hertz deild kvenna í íshokkí. Reykjavík tók á móti SA í Egilshöll.

Reykjavíkurstelpurnar skörtuðu stórglæsilegum nýjum búningum, voru þeir frumsýndir með athöfn á Laugardagskvöldinu (sjá myndband).

Reykjavík vann fyrsta leik deildarinnar og komu þær einbeittar til leiks í leikjunum tveim.

Leikur 2 í deildinni byrjaði hratt en SA skoraði fyrsta markið eftir eina mínútu og 23 sek. Þær bættu svo við öðru marki þegar 11 min og 48 sek voru liðnar af leiknum. Á fyrstu mínútu annars leikhluta meiddist leikmaður 25 Í Reykjavík (Elín Darko Alexdóttir) og þurfti að kalla eftir læknisaðstoð, hún kom því ekki meira inn á svellið um helgina. Þegar 13 min og 30 sek voru liðnar af öðrum leikhluta bættist við annað mark frá SA og staðan því orðin 3-0. 36 sek eftir það skoruðu Reykjavík sitt fyrsta mark í leiknum, markið skoraði Alda Arnarsdóttir (nr. 57) með stoðsendingu frá Laura Ann Murphy (nr.13). SA bætti við 4 markinu undir lok annars leikhluta, staðan orðin SA 4- Reykjavík 1. Þegar rúmar tvær mín voru liðnar af þriða leikhluta skoraði SA 5 markið, stuttu eftir það komu Reykjavíkurstelpurnar með sitt annað mark. Markið skoraði Sigrún Agatha Árnadóttir (nr.5) með stoðsendingu frá Védísi Valdemarsdóttir (nr 83). SA bætti við tveim mörkum í viðbót áður en leiknum lauk. Fanney Stefánsdóttir Aspar (nr 36) stóð í Reykjavíkurmarkinu allann leikinn og varði 34 skot af 41. Reykjavík átti 31 skot á mark SA í leiknum.

Lokastaða Reykjavík 2- SA 7

Þriðji leikurinn í deildinni fór svo fram á sunnudasmorguninn. Reykjavíkurstelpurnar komu ákveðnar inn í leikinn og ekki var hægt að sjá að leikur gærdagsins væri að hafa áhrif á þær.

SA skoraði tvö fyrstu mörkin í leiknum í fyrsta leikhluta. Reykjavík skoraði fyrsta mark annars leikhluta, markið skoraði Védís Valdemarsdóttir (nr.83) með stoðsendingu frá Lauru Ann Murphy (nr.13). SA liðið svaraði fljótt fyrir sig og kom með sitt þriðja mark minna en mínútu seinna. Þær skoruðu svo 4 mark sitt 5 min eftir það. Reykjavík skoraði sitt annað mark þegar 15 min og 36 sek voru búnar af öðrum leikhluta í powerplay, markið skoraði Védís Valdemarsdóttir (nr.83) með stoðsendingum frá Lauru Ann Murphy (nr.13) og Steinunni Sigurgeisdóttur (nr. 10) SA bætti við 2 mörkum í þriðja leikhluta, Reykjavík var þó ekki hætt, þriðja mark þeirra kom þegar rétt rúmar 1 og hálf min voru eftir af leiknum, markið skoraði Sigrún Agatha Árnadóttir (nr. 5) með stoðsendingu frá Védísi Valdemarsdóttur (nr.83). Fanney Stefánsdóttir Aspar (nr. 36) stóð í marki Reykjavíkur allann leikinn og varði 26 af 32 skotum. Reykjavík átti 29 skot á mark SA.

Lokastaða Reykjavík 3- SA 6

Stelpurnar í Reykjavík stóðu sig með prýði og börðust frá fyrstu mínútum til leiksloka. Þær áttu mörg góð tækifæri í leikjunum tveim sem endurspeglast ekki í lokaniðurstöðum leikjanna.

Mikil uppbygging hefur verið í kvennahokkí í Reykjavík að undanförnu og margar í liðinu að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki kvenna.

Miðað við ákveðni, elju og leikgleði sem lið Reykjavíkur sýndi um helgina er ljóst að framtíðin er björt og gaman verður að halda áfram að fylgjast með hörku keppni í deildinni þennann veturinn.

Greinahöfundur: Ásta Hrönn Ingvarsdóttir
Myndir: Kristján Valdimar Þórmarsson


Kvennahokkí veisla um helgina

Um helgina verður sannkölluð kvennahokkí veisla. En stelpurnar í Reykjavík taka á móti stelpunum í SA í svo kölluðum double-header. Fyrri leikurinn verður á laugardaginn kl. 18.50 og seinni á sunnudaginn kl. 9.30

pssst heyrst hefur að nýjar treyjur verði afhjúpaðar fyrir Reykjavíkurliðið


Peter Bronson tekur við Reykjavíkurliðinu

Í gær var tilkynnt um ráðningu Peter Bronson í starf þjálfara Reykjavíkur, sameinaðs kvennaliðs Skautafélags Reykjavíkur og Fjölnis.

Peter er 47 ára Bandaríkjamaður sem hefur búið og starfað hér á landi sem golfþjálfari hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar síðan 2017. Samhliða ferli í golfþjálfun hefur hann spilað íshokkí í Póllandi, Þýskalandi og heimalandi sínu Bandaríkjunum ásamt því að hafa þjálfað þar. Peter er vottaður þjálfari (fyrsta stigs) frá bandaríska íshokkísambandinu.

Af sama tilefni var nýtt einkennismerki, litur og búningar Reykjavíkur afhjúpaðir en það er hluti af átaki sem nú er í gangi til að stórefla kvennaíshokkí á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum.

Á myndinni má sjá frá vinstri: Kjartan (formaður íshokkídeildar SR), Peter Bronson (þjálfari) og Guðmund L Gunnarsson (framkvæmdastjóri Fjölnis)

Meira hér: https://www.mbl.is/sport/frettir/2019/07/10/fjolhaefur_thjalfari_tekur_vid_reykjavikurlidinu/


Skráningar á sumarnámskeið félagsins í fullum gangi

Skráningar á sumarnáskeið félagsins eru í fullum gangi.

Fjölbreytt úrval námskeiða er í boði hjá deildum félagsins.  Sjá allar upplýsingar um námskeið HÉR.

Allar skráningar á námskeið og æfingar félagsins eru rafrænt í Nóra, skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/

 


Íshokkí æfingabúðir fyrir 11 ára+

Íshokkídeild verður með æfingabúðir fyrir 11 ára og eldri í sumar. Boðið verður upp á fimm námskeið.

11. - 15. júní.

18. - 22. júní.

24. - 29. júní.

6. - 10. ágúst.

12. - 17. ágúst.

Opnar fyrir skráningar 3.júní, skráningar í Nóra skráningarkerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/


Afmæli aðalþjálfarans

Í dag á aðalþjálfari hokkídeildarinnar, Alexander Medvedev, stórafmæli. Fertugsafmæli hans var fagnað með því að iðkendur fylktu liði inn á svell í lok æfingar hjá 4. og 5. flokki með afmælissönginn í undispili og afhentu þjálfara sínum orðið „Coach“ sem að allir iðkendur voru búnir að kvitta á með nafninu sínu.

Við óskum Alexander innilega til hamingju með daginn!


Bjarnarbúðin styrkir íshokkístarfið

Með kjörútsýni yfir svellið, situr Bjarnarbúðin og tekur á móti foreldrum og iðkendum hvern æfingardag og á heimaleikjum íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn. Þar er manni ávallt mætt með brosi og úr hefur orðið viss félagsmiðstöð þar sem foreldrar geta komið saman, horft á æfingar barnanna sinna með kaffibolla í hönd, hlegið saman og rætt saman um heima og geima. Bjarnarbúðarkonurnar sjá til þess að ýmiss hokkívarningur sé fáanlegur en engin sambærileg verslun er á höfuðborgarsvæðinu.

Allir þessir kaffibollar og ágóði af sölu hokkívarnings og matar hafa orðið til þess að nú fengu iðkendur ýmiss konar æfingarbúnað gefins frá Bjarnarbúðinni. Það er mikil lukka að fá búnað sem þennan til að nota til æfinga, bæði á ís og á þrekæfingum. Bjarnarbúðin hefur einnig keypt búnað og brynjur fyrir okkar yngstu iðkendur. Við í íshokkídeildinni erum afar þakklát fyrir þennan styrk til okkar, og krakkarnir svo sannarlega glaðir með nýjar leiðir til æfinga.

Á fyrri myndinni má sjá aðalþjálfara okkar, Alexander Medvedev, taka á móti styrk Bjarnarbúðarinnar sem afhentur var af þeim konum sem taka brosandi á móti foreldrum og iðkendum dag hvern (frá vinstri til hægri: Kristín Fossdal, Guðbjörg Gunnarsdóttir, Alexander Medvedev, Heiðrún Kristín Lúðvíksdóttir og Sigríður Hafdís Baldursdóttir).

Á seinni myndinni má sjá iðkendur í 3. flokki vera að prófa okkar nýju „slide boards“ sem við fengum að gjöf.

Finna má Bjarnarbúðina á Facebook hér : Bjarnarbúðin

Fyrir hönd íshokkídeildarinnar vil ég þakka Bjarnarbúðinni kærlega fyrir þessa kærkomnu gjöf og styrk til barna- og unglingastarfsins,
Hilja Guðmunds, formaður stjórnar.


IceCup 2019

Dagana 25.-28. apríl var íshokkímótið Iceland International Ice Hockey Cup 2019 haldið í Egilshöllinni. Til liðs mættu þrenn lið frá Finnlandi, stelpulið frá Akureyri, sameinað lið íslenskra félaga (SHS) og að lokum eitt lið frá okkur, Fjölnir-Björninn. Þátttökurétt höfðu iðkendur fæddir 2005 og 2006, s.s. 4. flokkur.

4. flokks lið íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn vann alla sína leiki á mótinu, þar á meðal úrslitaleikinn og vann því IceCup 2019. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá þær framfarir sem liðið hefur náð á þessu tímabili. Þrautseigja, elja, agi og viljinn til að ná lengra og gera betur hefur skilað þessum iðkendum þeim sigrum sem unnir hafa verið á svellinu. Þess má einnig geta að leikmenn úr 4. fl. Fjölnir-Björninn röðuðu sér í efstu þrjú sætin yfir stigahæstu leikmennina. Arnar Smári Karvelsson var stigahæstur leikmanna á mótinu og má sjá halda á verðlaunagripi fyrir þann titil. Hinir tveir leikmennirnir eru Haukur Freyr Karvelsson og Kristján Hróar Jóhannesson.

Á myndunum má einnig sjá nokkrar myndir úr úrslitaleiknum og auðvitað mynd af 4. flokk ásamt þjálfara, Alexander Medvedev. Frábært að enda keppnistímabilið á þennan hátt.

Við ætlum auðvitað að halda áfram að vaxa og ná enn lengra í komandi framtíð. Við hjá Fjölnir-Björninn hlökkum mikið til að fylgjast áfram með þessum leikmönnum vera ávallt besta útgáfan af sjálfum sér og bæði liði og félagi til sóma.

Sjá má niðurstöður mótsins og tölfræði á eftirfarandi tengli: Tölfræði IceCup 2019