Bikar 15 ára og yngri

Bikarkeppni FRÍ fyrir 15 ára og yngri fór fram sunnudaginn 3. mars í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika. Fjölnir sendi sameiginlegt lið með Aftureldingu og var eitt strákalið og tvö stelpulið. Í heildina varð Fjölnir A í 7. sæti og Fjölnir B í 9. sæti. Af strákaliðunum varð Fjölnir A í 7. sæti og af stelpuliðunum varð Fjölnir A í 5. sæti og Fjölnir B í 9. sæti. Var lið Fjölnis skipað ungu og efnilegu íþróttafólki sem lagði sig virkilega fram, en sumir voru að keppa í fyrsta skipti. Voru margir að setja persónuleg met í sínum greinum.

Öll úrslit mótsins er hér.

Úrslit í stigastöðunni er hér.


Fjölnir í 4. sæti

Bikarkeppni FRÍ fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika laugardaginn 2. mars. Fjölnir sendi sameiginlegt lið með Aftureldingu á mótið. Í heildina varð liðið í 4. sæti en 9 lið tóku þátt í keppninni. Í karla og kveppakeppninni varð liðið einnig í 4. sæti. Er það sannarlega góður árangur.

Daði Arnarson náði 2. sæti í 1500m hlaupi og Bjarni Anton Theódórsson náði 3. sæti í 400m hlaupi.

Vilhelmína Þór Óskarsdóttir náði 3. sæti í 400m hlaupi og Helga Þóra Sigurjónsdóttir náði 3. sæti í hástökki.

Öll úrslit mótsins eru hér.

Hér má sjá stigastöðuna.


Þrjár Fjölnisstúlkur í landsliðinu í frjálsum

Þær Helga Guðný Elíasdóttir, Helga Þóra Sigurjónsdóttir og Vilhelmína Þór Óskarsdóttir hafa verið valdar í landslið Íslands í frjálsum íþróttum. Helga Guðný er 25 ára gömul og hefur náð langt í langhlaupum. Hennar bestu tímar eru 4:49,78 í 1500m hlaupi, 10:28,50 í 3000m hlaupi, 18:43,50 í 5000m hlaupi og 38:44 í 10 km götuhlaupi. Helga Þóra er 19 ára gömul og hefur náð mjög góðum árangri í hástökki. Hefur hún hæst stokkið 1,74m. Vilhelmína er 21 árs gömul og hefur náð mjög góðum árangri í styttri hlaupum. Hennar bestu tímar eru 25,84sek í 200m hlaupi og 57,17sek í 400m hlaupi. Þetta er flottur árangur hjá þessum duglegu Fjölnisstúlkum og óskar frjálsíþróttadeildin þeim til hamingju.


Góður árangur á MÍ

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum var haldið í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika dagana 23. og 24. febrúar. Fjölnir átti 13 keppendur á mótinu sem stóðu sig mjög vel. Margir voru að ná góðum árangri og sumir að setja persónuleg met. Þau sem komust á verðlaunapall voru:

Daði Arnarson fékk silfur í 800m hlaupi á tímanum 1:56,36. Hann keppti einnig í 400m hlaupi og bætti sig í þeirri vegalengd.

Bjarni Anton Theódórsson fékk brons í 400m hlaupi á tímanum 50,11sek.

Hermann Orri Svavarsson fékk brons í langstökki með stökk uppá 6,57m og var það persónuleg bæting hjá honum. Hann keppni líka í 60m hlaupi og bætti sig þar einnig.

Vilhelmína Þór Óskarsdóttir fékk brons í 400m hlaupi á tímanum 57,86sek.

Helga Guðný Elíasdóttir fékk brons í 3000m hlaupi á tímanum 10:58,33.

Helga Þóra Sigurjónsdóttir fékk brons í hástökki með stökk yfir 1,64m.

Að lokum vann sveit Fjölnis brons í 4x400m boðhlaupi karla. Í sveitinni voru Hermann Orri Svavarsson, Daði Arnarson, Matthías Már Heiðarsson og Bjarni Anton Theódórsson.

Fleiri voru að bæta sinn persónulega árangur á mótinu. Bjartur Gabríel Guðmundsson keppti í þremur greinum; 60m hlaupi, 200m hlaupi og hástökki og bætti sig í öllum greinunum. Sara Gunnlaugsdóttir keppti í 200m hlaupi og bætti sig í þeirri vegalengd.

Öll úrslit mótsins eru hér.

Á myndinni er Daði Arnarson.


Sara með mótsmet

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fyrir 11-14 ára fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal helgina 9.-10. febrúar. Fjölnir átti 13 keppendur á mótinu. Sara Gunnlaugsdóttir 14 ára náði að komast fjórum sinnum á verðlaunapallinn sem er aldeilis vel af sér vikið. Hún sigraði í 600m hlaupi á tímanum 1:45,08 sem er persónulegt met hjá henni og setti mótsmet í greininni. Hún varð í öðru sæti í langstökki með stökk uppá 4,57m og varð einnig í öðru sæti í 60m grind á tímanum 10,10sek sem er persónulegt met hjá henni. Hún varð svo í þriðja sæti í 60 m hlaupi á tímanum 8,62sek. Þetta er frábær árangur hjá Söru en hún keppti í 6 greinum á mótinu.

Kjartan Óli Bjarnason 12 ára stóð sig líka vel á mótinu. Hann varð í þriðja sæti í langstökki með stökk uppá 4,19m sem er persónulegt met hjá honum. Hann bætti sig líka í 60m hlaupi þar sem hann varð þriðji í undanúrslitum en endaði svo í fjórða sæti á tímanum 9,22sek í úrslitahlaupinu. Var hann að bæta tímann sinn í 60m hlaupinu. Hann varð líka í fjórða sæti í 600m hlaupi á tímanum 1:56,85 og var einnig að setja persónulegt met þar.

Aðrir keppendur stóðu sig vel og margir settu persónuleg met.

Öll úrslit mótsins eru hér.