Skattfrádráttur vegna styrkja til Fjölnis

Vissir þú að þú getur fengið skattfrádrátt þegar þú styrkir Fjölni?

Einstaklingar geta fengið skattfrádrátt (lækkun á tekjuskattstofni) með því að styrkja Fjölni um allt að 350.000 kr. en að lágmarki 10.000 kr.

Dæmi: Einstaklingur sem greiðir 30.000 kr. styrk til Fjölnis fær skattafslátt að upphæð 9.435 kr. og greiðir þannig í raun 20.575 kr. fyrir 30.000 kr. styrk til félagsins

Fyrirtæki geta líka fengið skattafslátt vegna styrkja. Fyrirtækjum er heimilt að draga frá skattstofni allt að 1,5% af rekstrartekjum.
Dæmi: Fyrirtæki sem styrkir Fjölni um 500.000 kr. getur lækkað tekjuskattinn sinn um 100.000 kr. fyrirtækið greiðir þannig í raun 400.000 kr. fyrir 500.000 kr. styrk til Fjölnis.

Svona gengur ferlið fyrir sig:

Þú millifærir upphæð að eigin vali, að lágmarki 10.000 kr. en að hámarki 350.000 kr. (700.000 kr. hjá hjónum) og sendir kvittun á skrifstofa@fjolnir.is

Fjölnir sendir kvittun til baka á greiðanda þar sem fram kemur nafn og kennitala greiðanda ásamt upphæð styrks.

Fjölnir sendir upplýsingar um styrki til skattsins, sem kemur skattafslættinum til skila til þín.

Til þess að geta nýtt heimildina fyrir árið 2023 þarf greiðsla að hafa borist fyrir 30. desember næstkomandi.

Reikningsupplýsingar:
0114-26-155
kt 631288-7589
Kvittun sendist á skrifstofa@fjolnir.is

Við hjá Ungmennafélaginu Fjölni sendum kærlegar þakkir til allra þeirra sem veitt okkur ómetanlegan stuðning í gegnum tíðina.


Jólatrjáasöfnun meistaraflokka Fjölnis í handbolta

Þann 7. janúar ætla meistaraflokkar Fjölnis í handbolta að koma og sækja jólatré í hverfi 112 og farga þeim.

Skráning og nánari upplýsingar um greiðslu má finna hér:

https://forms.gle/UD9LWQ6DPYvMDcoaA


Skráningar fyrir vorönn opna 2. janúar

Skráningar fyrir vorönn hefjast 2. janúar í gegnum skráningakerfi Fjölnis. Hér eru nánari upplýsingar og leiðbeiningar um skráningakerfið okkar: https://fjolnir.is/skraningakerfi/


Uppskeruhátið Fjölnis 2023

Hin árlega Uppskeruhátíð Fjölnis fór fram við hátíðlega athöfn í Keiluhöllinni í gær, þann 13. desember, og heppnaðist kvöldið einstaklega vel. Vel var mætt á viðburðinn en hátt í 100 manns voru viðstaddir athöfnina. Veitt voru verðlaun fyrir íþróttaafrek ársins, sjálfboðaliðum voru veitt gull- og silfurmerki ásamt því að valið á Fjölnismanni, íþróttakarli og -konu var tilkynnt.

Íþróttafólk deilda er kjörið ár hvert af deildum félagsins, aðalstjórn félagsins velur svo úr hópi þeirra einn íþróttakarl og eina íþróttakonu Fjölnis. Aðalstjórn félagsins velur einnig Fjölnismann ársins út frá ábendingum. Þau hljóta öll farandbikar sem þau varðveita í eitt ár og einnig fá þau afhentan bikar til eignar sem gjöf.

Silfurmerki félagsins er viðurkenning sem veita má þeim sem starfað hafa í stjórnum í 5 ár eða lengur eða hafa með öðrum hætti unnið vel og dyggilega fyrir félagið. Gullmerki má veita þeim sem hafa starfað í stjórnum í 10 ár eða lengur. Um gull- og silfurmerki gildir að aðalstjórn félagsins fær sendar inn ábendingar / tilnefningar frá stjórnum deilda. Aðalstjórn tekur endanlega ákvörðun um veitingu viðurkenninga til einstaklinga.

Jón Karl formaður félagsins og Jarþrúður Hanna varaformaður félagsins stýrðu athöfninni og í hléi var Arnór Ásgeirsson, íþróttastjóri Fjölnis, með Kahoot spurningakeppni með glæsilegum vinningum. Baldvin Örn Berndsen og Þorgils G sáu um að mynda viðburðinn og þökkum við þeim kærlega vel fyrir.

Við óskum fólkinu okkar innilega til hamingju og þökkum öllum sem komu í gær kærlega fyrir komuna og kvöldið! Hér fyrir neðan má sjá þau sem hlutu viðurkenningar og verðlaun.

Íþróttakona ársins: Helga Þóra Sigurjónsdóttir

Helga Þóra Sigurjónsdóttir hefur náð mjög góðum árangri í hástökki á árinu. Hún er 23 ára gömul og hefur æft frjálsar íþróttir frá 9 ára aldri. Hún er nú með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek 2023 er stökk upp 1,77 m á Stökkmóti FH og Meistaramóti Íslands utanhúss, en sá árangur skilaði henni Íslandsmeistaratitli og er annar besti árangur konu utanhúss á árinu og jöfnun á besta árangri innanhúss. Jafnframt er þetta 8. besti árangur sem íslensk kona hefur stokkið. Sá árangur gefur 994 WA stig sem er frábær árangur. 

Mynd: Baldvin Berndsen

Íþróttakarl ársins: Gabríel Sigurður Pálmason

Gabriel er sem fyrr einbeittur karatemaður og fyrirmyndariðkandi. Í ár hefur hann dregið heim gullpeninga fyrir frammistöðu sína í kata 15 ára pilta á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kata. Það sama á við um Kata 16-17 ára pilta á GrandPrix mótaröð Karatesambands Íslands, en þaðan kom hann með tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Auk þess náði hann sér í bronsverðlaun á Reykjavík International Games í flokki ungmenna. Á Kobe Osaka International mótinu í Skotlandi í haust gerði hann sér lítið fyrir og tók heim gull í kata bæði í aldursflokki 14-15 ára og 16 ára. Auk þess sem hann hlaut gull fyrir keppni í kumite 14-15 ára.  

Í salnum er hann óþreytandi, mætir hann á allar æfingar og afreksæfingar auk styrktaræfinga og hann gefur sig allan á hverri æfingu. 

Gabriel er fyrirmyndar afreksíþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.   

Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabriel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar 

Mynd: Baldvin Berndsen

Fjölnismaður ársins Hildigunnur Smáradóttir 

Hildigunnur hefur sinnt miklu og góðu sjálfsboðaliðastarfi í mörg ár fyrir knattspyrnudeild Fjölnis. Í gegnum tíðina hefur hún tekið að sér fjöldan allan að verkefnum og ávallt leyst þau með myndarbrag. Undanfarin ár hefur Hildigunnur verið í meistaraflokksráði kvenna og hefur hún átt stóran þátt í aukinni og betri umgjörð í kringum meistaraflokk kvenna m.a. með sínum frægu pastamáltíðum. 

Mynd: Baldvin Berndsen

Fimleikadeild

Fimleikakarl: Elio Mar Rebora 

Elio er 16 ára gamall og hefur æft fimleika í fjölda ára. Hann keppti á mótum í frjálsum æfingum karla á árinu og stóð sig mjög vel. Elio er einnig þjálfari hjá deildinni og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni.

Mynd: Þorgils G

Fimleikakona: Natalía Tunjeera Hinriksdóttir 

Natalía er 16 ára gömul og hefur æft hópfimleika frá unga aldri. Hún keppir með 1. flokki Fjölnis í hópfimleikum og hefur verið valin tvisvar í úrvalshóp fyrir sína grein. Natalía er alltaf jákvæð og vinnusöm og hefur verið að aðstoða við þjálfun síðustu árin.

Mynd: Þorgils G

Frjálsíþróttadeild

Frjálsíþróttakarl: Bjarni Anton Theódórsson 

Bjarni Anton er 25 ára gamall og hefur æft frjálsar íþróttir í fjöldamörg ár. Hann hefur einbeitt sér að styttri hlaupum og keppir aðallega í 200 og 400 m hlaupum og náð mjög góðum árangri. Á þessu ári hljóp hann best 400m á tímanum 49,84 sek á Reykjavik International Games. Sá árangur gefur 928 WA stig sem er mjög góður árangur. Þessi árangur setur hann í þriðja sæti á listann yfir bestu afrek í 400 m hlaupi innanhúss á þessu ári og fjórða sæti bæði innan og utanhúss. Hann hljóp einnig á mjög góðum tímum á Meistaramóti Íslands innanhúss og á Nike mótaröð FH. Bjarni Anton var í boðhlaupssveit Fjölnis á Meistaramóti Íslands í 4×400 m boðhlaupi og 1000 m boðhlaupssveit Fjölnis/UMSS á Bikarkeppni FRÍ þar sem sveitin náði 2. sæti í báðum mótum.

Mynd: Þorgils G

Frjálsíþróttakona: Helga Þóra Sigurjónsdóttir 

Helga Þóra Sigurjónsdóttir hefur náð mjög góðum árangri í hástökki á árinu. Hún er 23 ára gömul og hefur æft frjálsar íþróttir frá 9 ára aldri. Hún er nú með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek 2023 er stökk upp 1,77 m á Stökkmóti FH og Meistaramóti Íslands utanhúss, en sá árangur skilaði henni Íslandsmeistaratitli og er annar besti árangur konu utanhúss á árinu og jöfnun á besta árangri innanhúss. Jafnframt er þetta 8. besti árangur sem íslensk kona hefur stokkið. Sá árangur gefur 994 WA stig sem er frábær árangur.

Mynd: Þorgils G

Handknattleiksdeild

Handboltakarl ársins: Björgvin Páll Rúnarsson 

Björgvin Páll er uppalinn Fjölnisstrákur með risastórt Fjölnishjarta. Hann hefur verið lykilmaður í liðinu í mörg ár og farið í gegnum nokkur kynslóðarskipti hjá liðinu þar sem hann hefur verið mikill leiðtogi innan vallar sem utan. Þá hefur hann verið frábær hægri hönd þjálfara sem fyrirliði liðsins í að aðstoða fjölmarga unga og efnilega uppalda leikmenn að aðlagast stóru stökki úr yngri flokkum í meistaraflokk. Á liðnu ári hefur Björgvin Páll verið einn af allra bestu leikmönnum liðsins ásamt því að vera einn besti sóknarmaður deildarinnar. Fyrr á þessu ári náði hann þeim merka áfanga að verða leikja- og markahæsti leikmaður í sögu félagsins þrátt fyrir ungan aldur og sýnir það hversu mikilvægur hlekkur hann hefur verið fyrir liðið öll þessi ár. Bjöggi eins við þekkjum hann flest er frábær fyrirmynd fyrir alla unga leikmenn félagsins bæði innan vallar sem utan og er virkilega vel að þessari viðurkenningu komin.

Mynd: Þorgils G

Handboltakona ársins: Sara Björg Davíðsdóttir 

Sara hefur leikið upp alla yngri flokka í Fjölni. Snemma byrjað hún að banka upp á hjá meistaraflokki og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik þegar hún var í fjórða flokki ásamt því að vera snemma valin í yngri landsliðin. Sara er frábær sóknarmaður með gríðarlega góða skottækni og frábærar fintur. Sara er mjög vinnusöm á æfingum og góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Hún hefur verið burðarásinn í liðinu á núverandi tímabili og markahæst í deildinni. Framtíðin er því afar björt hjá þessum frábæra leikmanni.

Mynd: Þorgils G

Íshokkídeild

Íshokkíkarl ársins: Hilmar Benedikt Sverrisson

Hilmar byrjaði að æfa i kringum 2004. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn, vinnusamur og mætir alltaf. Hann er sterkur leikmaður og setur svip sinn og karakter i liðið. Hann fékk einnig boð A landslið karla á tímabilinu.

Mynd: Gunnar Jónatans

Íshokkíkona ársins: Guðrún Viðarsdóttir 

Guðrún hefur svo sannarlega sannað sig sem mikilvægur hlekkur í meistaraflokki kvenna. Hún er mikill leiðtogi í leikjum og ávallt með stöðuga frammistöðu. Hún spilar stórt hlutverk í varnarleik liðsins og býr yfir miklum leikskilningi. Utan vallar eru hún mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar.

Mynd: Þorgils G

Karatedeild

Karatekarl ársins: Gabriel Sigurður Pálmason 

Gabriel er sem fyrr einbeittur karatemaður og fyrirmyndariðkandi. Í ár hefur hann dregið heim gullpeninga fyrir frammistöðu sína í kata 15 ára pilta á Íslandsmeistaramóti unglinga í Kata. Það sama á við um Kata 16-17 ára pilta á GrandPrix mótaröð Karatesambands Íslands, en þaðan kom hann með tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Auk þess náði hann sér í bronsverðlaun á Reykjavík International Games í flokki ungmenna. Á Kobe Osaka International mótinu í Skotlandi í haust gerði hann sér lítið fyrir og tók heim gull í kata bæði í aldursflokki 14-15 ára og 16 ára. Auk þess sem hann hlaut gull fyrir keppni í kumite 14-15 ára. Í salnum er hann óþreytandi, mætir hann á allar æfingar og afreksæfingar auk styrktaræfinga og hann gefur sig allan á hverri æfingu. Gabriel er fyrirmyndar afreksíþróttamaður sem sannar að sjálfsagi og einbeiting skilar árangri.

Metnaður og Heilbrigði eru þau Fjölnisgildi sem Gabriel hefur staðið fyrir í starfi sínu innan karatedeildarinnar 

Mynd: Þorgils G

Karatekona ársins: Klara Ólöf Kristjánsdóttir 

Klara hóf nýverið að keppa fyrir alvöru og hefur fyrst og fremst einbeitt sér að keppni í kumite hluta karate. Í ár náði hún tvisvar á verðlaunapall á Íslandi. Fékk brons á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite í flokki 14-15 ára stúlkna og fékk einnig bronsverðlaun á 3. GrandPrix móti Karatesambands Íslands í sama flokki. Klara keppti jafnframt á Kobe Osaka International í Skotlandi í haust og hlaut þar 3. sæti í kata 14-15 ára, 2. sæti í kumite 12-13 ára og sigraði Gladiator 14-15 ára!

Klara er meðlimur í Afrekshópi karatedeildarinnar. Metnaður er það gildi Fjölnis sem Klara  hefur lifað í starfi sínu innan deildarinnar.

Mynd: Þorgils G

Knattspyrnudeild

Knattspyrnukarl ársins: Hans Viktor Guðmundsson 

Hansi átti frábært tímabil sem fyrirliði Fjölnis og steig vart feilspor í hjarta varnarinnar. Hann leiddi liðið af fordæmi og var sterkur á öllum sviðum leiksins. Skoraði mikilvæg mörk og traustur sem klettur í vörninni. Við kveðjum Hansa með söknuði, í bili, en vitum að við munum sjá hann aftur í Fjölnistreyjunni sem hann elskar.

Mynd: Þorgils G

Knattspyrnukona ársins: Alda Ólafsdóttir 

Hvað er hægt að segja eftir svona tímabil en hún skoraði yfir 40 mörk í öllum keppnum. En Alda er ekki bara með gott markanef heldur er hún frábær manneskja og fyrirmynd og gerir alla hluti 120%. Það verður söknuður af Öldu en önnur verkefni bíða hennar. Takk fyrir okkur og sjáumst aftur í gulu treyjunni á næstu árum.

Mynd: Þorgils G

Körfuknattleiksdeild

Körfuboltakarl ársins: Viktor Máni Steffensen 

Viktor hefur lengi vel verið einn efnilegasti leikmaðurinn okkar hérna í Fjölni. Á undanförnum árum hefur Viktor verið að glíma við erfið meiðsli á hné en það segir mikið um vinnusemi og þrautseigju hjá þessum frábæra leikmanni að hann er núna einn af okkar mikilvægustu mönnum í meistaraflokki karla og einn af tveimur stigahæstu Íslendingum í 1.deild karla.

Viktor kemur úr yngri flokka starfinu hjá okkur í Fjölni og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í greininni.

Mynd: Þorgils G

Körfuboltakona ársins: Bergdís Anna Magnúsdóttir 

Bergdís Anna hefur þrátt fyrir ungan aldur svo sannarlega sett svip sinn á körfuknattleiksdeild Fjölnis. Hún kemur úr yngri flokka starfinu hjá okkur og var einmitt stór partur af því þegar Fjölnir vann sinn fyrsta titil í yngri flokkunum þegar hún og liðsfélagar hennar í stúlknaflokki urðu bikarmeistarar 2022. Bergdís er núna mikilvægur leikmaður í meistaraflokki Fjölnis en ásamt því þjálfarar hún okkar yngstu og efnilegustu iðkendur í minnibolta 8-9 ára. Hún var einnig partur af U18 landsliði kvenna sem náði sögulegum árangri í sumar.

Mynd: Þorgils G

Listskautadeild

Skautakona ársins: Lena Rut Ásgeirsdóttir 

Lena Rut Ásgeirsdóttir byrjaði að æfa listskauta 7 ára gömul og hafa listskautar verið hennar líf og yndi. Lena Rut lenti í slysi árið 2022 og þurfti að taka sér hlé frá æfingum um tíma en kom tvíefld til baka og hefur unnið mikið þrekvirki síðan þá. Lena Rut leggur sig alla fram á æfingum og er frábær liðsfélagi, bæði inn á svellinu og utan þess. Lena Rut hefur unnið að því í nokkur ár að komast inn í landsliðið og á haustmótinu 2023 náði hún lágmarkinu. Lena fór í sitt fyrsta landsliðsverkefni til Póllands og stóð sig vel í lok nóvember varð Lena Rut Íslandsmeistari í flokki Junior Women 2023.

Mynd: Þorgils G

Skákdeild

Skákkarl ársins: Theodór Helgi Eiríksson 

Theodór er nemandi í 8. bekk Foldaskóla. Hann hefur tekið þátt í skákæfingum Fjölnis í nokkur ár með stöðugum framförum. Fyrir ári síðan ákvað Theodór að taka skákíþróttina fastari tökum með því að stúdera skákir, sækja öll námskeið Skákskóla Íslands og taka þátt í nánast öllum mótum sem í boði hafa verið. Árangurinn athyglisverður og er drengurinn einn af þeim sem hækkar mest á skákstigum á milli mánaða. Í vor tók hann þátt í Deltalift Open Grand Prix helgarskákmótinu í Svíþjóð og þar komu berlega í ljós þær framfarir sem veturinn á undan höfðu fært honum. Theodór var valinn afreksmaður vetrarins í lok skákæfinga 2022 -2023. Hann hefur í haust unnið Bikarsyrpumót TR og leiddi A sveit Fjölnis á Íslandsmóti Barna-og unglingasveita í nóvember. Theodór er forfallinn skákáhugamaður en þannig og aðeins þannig verður maður eitthvað meira en bara skákmaður.

Mynd: Þorgils G

Skákkona ársins: Sóley Kría Helgadóttir 

Sóley Kría er nemandi í 10. bekk. Hún hefur teflt með skáksveitum Rimaskóla og skákdeild Fjölnis alt frá fyrstu grunnskólaárum. Í dag er hún einn af þjálfurum skákdeildarinnar á hinum fjölmennu skákæfingum alla fimmtudaga. Sóley Kría vann áskorendaflokk Íslandsmóts kvenna fyrr í haust með fullu húsi og ávann sér sæti á Íslandsmóti kvenna árið 2024. Sóley Kría hefur verið sigursæl á öllum þeim skákmótum sem hún hefur tekið þátt í vetur. Hún var ein fjögurra kvenna frá Skákdeild Fjölnis sem tók þátt í fyrsta Stockholm Ladies skákmótinu í byrjun september og auk þess tekið þátt í skólaheimsóknum nemenda Rimaskóla til Færeyja og Grænlands.

Mynd: Þorgils G

Sunddeild

Sundkarl ársins: Viljar Fannarsson 

Viljar hefur á árinu tekið miklum framförum, bæði á æfingum og á mótum, en Viljar náði í fyrsta skipti í ár að ná lágmörkum á Aldursflokkameistaramótið sem haldið var í júní.

Mynd: Þorgils G

Sundkona ársins: Álfrún Lóa Jónsdóttir 

Álfrún hefur á árinu tekið þátt á fjölmörgum mótum á tímabilinu þ.m.t. mörg lágmarka mót sem haldin eru á vegum Sundsambandsins eins og RIG, Íslandsmeistaramót í bæði 25 og 50m laug og Aldursflokkameistaramót. Nú í nóvember keppti Álfrún á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug og náði þar að synda sig inn í úrslit í fyrsta sinn og náði þar 7. sæti.

Mynd: Þorgils G

Tennisdeild

Tenniskona ársins: Saulé Zukauskaité 

Saulé átti mjög gott ár og náði frábærum og eftirtektarverðum árangri. Þar má helst nefna sigur í  tvenndarleik í meistaraflokki á Íslandsmóti innanhúss, 2. sæti í U16 á nokkrum alþjóðlegum mótum ásamt því að komst í undanúrslit í tvíliðaleik í meistaraflokki á Íslandsmóti innanhúss. Hún er dugnaðarforkur og mikil fyrirmynd.

Mynd: Þorgils G

Silfurmerki

Nr. 215 Sunna Rut Guðlaugsdóttir (karatedeild) 

Sunna Rut er ein þeirra sem halda alltaf áfram í sportinu. Hún byrjaði sem agnarlítið spons fyrir um 12 árum, rétt 7 ára gömul að mæta á æfingar. Vann ötullega að því að bæta sig. Tók þátt í mótum og dró heim fullt af verðlaunapeningum. Vann sér inn Íslandsmeistaratitla, klifraði upp á verðlaunapall á RIG mótum að ótöldum auðvitað öllum hinum mótunum þar sem hún tók þátt og þurfti að klifra upp á verðlaunapall. Því má ekki gleyma að hún hefur auðvitað líka verið valin karatekona ársins hjá Fjölni.

Í gegnum tíma sinn hjá Fjölni hefur hún aukið við þekkingu sína jafnt og þétt með því að ljúka hverri beltagráðuninni á fætur annari, þar til nú síðast þegar hún lauk gráðun til 2. dans svartbeltisgráðun (Nidan) með miklum sóma.

Partur af því að æfa Karate er að gefa til baka til íþróttarinnar og félagsins sín. Þar lætur Sunna ekki sitt eftir liggja. Því hún er einnig vinsæll og óþreytandi þjálfari þeirra sem á eftir henni hafa komið. Auk þess að taka að sér liðsstjórastörf á mótum.

Sunna er kona sem er tilbúin að leggja sig fram um að láta starfið hjá okkur ganga upp, auk þess að vera frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur deildarinnar.

Mynd: Þorgils G

Nr. 216 Hildigunnur Smáradóttir (knattspyrnudeild) 

Hildigunnur hefur sinnt miklu og góðu sjálfsboðaliðastarfi í mörg ár fyrir knattspyrnudeild Fjölnis. Í gegnum tíðina hefur hún tekið að sér fjöldan allan að verkefnum og ávallt leyst þau með myndarbrag. Undanfarin ár hefur Hildigunnur verið í meistaraflokksráði kvenna og hefur hún átt stóran þátt í aukinni og betri umgjörð í kringum meistaraflokk kvenna m.a. með sínum frægu pastamáltíðum.

Mynd: Baldvin Berndsen

Nr. 217 Steinunn Björk Sigurðardóttir (knattspyrnudeild) 

Steinunn hefur sinnt miklu og góðu sjálfboðaliðastarfi í mörg ár fyrir knattspyrnudeild Fjölnis. Í gegnum tíðina hefur hún tekið að sér fjöldan allan að verkefnum og ávallt leyst þau með myndarbrag. Undanfarin ár hefur Steinunn verið í meistaraflokksráði kvenna og hefur hún átt stóran þátt í aukinni og betri umgjörð í kringum meistaraflokk kvenna.

Mynd: Baldvin Berndsen

Nr. 218 Gunnar Sigurðsson (knattspyrnudeild) 

Gunnar Sigurðsson hefur verið í þjálfarateymi meistaraflokks karla frá árinu 2012. Í þessi ellefu ár hefur Gunni unnið frábært og óeigingjarnt starf fyrir knattspyrnudeildina. Hann hefur haft yfirumsjón með markvarðaþjálfun félagsins bæði í yngri flokkum sem og meistaraflokki þar sem hann hefur miðlað sinni reynslu og þekkingu með framúrskarandi árangri.

Mynd: Þorgils G

Nr. 219 Salvör Þóra Davíðsdóttir (körfuknattleiksdeild) 

Salvör hefur verið viðloðandi félagið í mörg, mörg ár og allan þann tíma hefur hún sinnt óeigingjörnum sjálfboðaliðsstörfum. Núna er hún formaður körfuknattleiksdeildar Fjölnis en hún hefur skipulagt og komið að allskonar viðburðum á vegum deildarinnar. Hún hefur gefið mörg hundruð klukkustundir af vinnu, alltaf með bros á vör. Það eru forréttindi að vinna með Salvöru, hún er bóngóð, hugmyndarík, kraftmikil og með stórt og skilvirkt tengslanet sem nýtist einmitt frábærlega við öll þau störf sem sinna þarf við rekstur íþróttadeildar. Það er ómetanlegt fyrir félag eins og Fjölni að hafa manneskju eins og Salvöru innan sinna vébanda. 

Mynd: Þorgils G

Nr. 220 Jón Pétur Zimsen (körfuknattleiksdeild) 

Erfitt er að finna sjálfboðaliða með jafn mikið gult og blátt blóð í æðum sínum og Jón Pétur Zimsen. Gegnum árin hafa fáir staðið vaktina jafn oft og duglega og Jón Pétur.  Hvort sem það hefur verið að starfa í BUR, stjórn, taka við æfingum, peppa unga iðkendur, vera í heimaleikjaráðum eða meistaraflokksráðum, eða styðja starfið með peningaframlögum, þá er hann boðinn og búinn að standa við bakið á KKD Fjölnis. Jón Pétrar vaxa því miður ekki á trjánum og Fjölnir KKD því einstaklega heppið að eiga hann að og allt það sem hann stendur fyrir og starfar að í þágu Fjölnis. Jón Pétur er einstaklega vel að silfurmerki Fjölnis kominn. 

Mynd: Þorgils G

Nr. 221 Kristel Björk Þórisdóttir (listskautadeild) 

Kristel Björk Þórisdóttir sinnti formennsku í stjórn listskautadeildar 2018 og 2019 og var síðan varamaður 2020. Eftir það hefur Kristel verið mikilvægur sjálfboðaliði og sinnt hinum ýmsu hlutverkum. Hún situr í stjórn Skautasambands Íslands og er formaður mótanefndar ÍSS. Hún hefur margoft verið sjálfboðaliði á Reykjarvíkurleikunum. Kristel hefur oft verið mótsstjóri þegar mót eru haldin í Egilshöll og er gríðarlega jákvæð, skipulögð og mikilvægur sjálfboðaliði. Hún stekkur til og hjálpar þó hún eigi ekki einu sinni iðkanda á viðburðinum.  Kristel hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir listskauta og á miklar þakkir skilið. 

Mynd: Þorgils G

Nr. 222 Ingibjörg G. Jónsdóttir (listskautadeild) 

Ingibjörg G. Jónsdóttir sat í stjórn listskautadeildar í fjögur ár, 2018-2021. Hún gegndi hlutverki ritara. Ingibjörg býðst alltaf til að hjálpa, er virkur sjálfboðaliði og sinnir þeim hlutverkum sem þarf að sinna. Til að mynda stökk hún til á síðasta móti sem haldið var í Egilshöll á síðustu stundu þar sem hún losnaði úr vinnu eftir að skipið sem hún var á strandaði og hún kom óvænt í land. 

Mynd: Þorgils G

Nr. 223 Gunnlaugur Egilsson (skákdeild) 

Gunnlaugur Egilsson hefur setið í stjórn skákdeildar Fjölnis allt frá stofnun fyrir tæpum 20 árum. Gunnlaugur er einstaklega samviskusamur og duglegur þegar kemur að undirbúningi og framkvæmd  skákmóta á vegum deildarinnar. Hann lætur verkin tala þegar leitað er til hans. Sem atvinnurútubílstjóri hefur Gunnlaugur ekið Fjölniskrökkum og leiðbeinendum í skákbúðaferðir út á land þar sem alltaf er gist og skáklistin þjálfuð. Öruggur bílstjóri sem heldur vel utan farþega og farangur. 

Mynd: Þorgils G

Gullmerki

Nr. 40 Ragnar Torfason (körfuknattleiksdeild) 

Fjölnismótið er hugarfóstur hans og Jóns Odds. Hann þjálfaði í mörg ár, var í stjórn í mörg ár, jólasveinn á jólaböllum Fjölnis, skemmtikraftur á öllum Fjölnismótum þegar hann var í stjórn og líka margoft síðan þá. Núna síðast í fyrra. Ætlaði að vera með áfram í ár en svo stangaðist það á við kórahelgi hjá honum. Samt mætti hann á mótið  bara til að tékka á því. 

Hann hefur styrkt starfið í mörg, mörg ár með peningaframlögum – bæði beinir styrkir og borgað 20.000 kr. inn á einn leik. 

Hann hefur ekki átt börn eða barnabörn í Fjölni í áraraðir – örugglega komin 10 ár – en er samt enn að styðja við deildina. Einstakur og ötull stuðningsmaður í áratugi. 

Mynd: Þorgils G

Nr. 41 Björn Valdimarsson (sund) 

Hann Björn Valdimarsson er yfirdómari hjá sunddeildinni. Hann hefur sinnt dómgæslu fyrir deildina af heilindum og miklum metnaði. Hann hefur reynst félaginu afskaplega vel og gætum við ekki haldið mót án hans óeigingjarna starfs. 

Mynd: Þorgils G


Íþróttakona Fjölnis 2023 - Helga Þóra Sigurjónsdóttir

Uppskeruhátið Fjölnis fór fram í kvöld, þann 13. desember. Hún Helga Þóra Sigurjónsdóttir hlaut titilinn Íþróttakona ársins 2023. Helga er með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek árið 2023 er stökk upp 1,77 m á Stökkmóti FH og Meistaramóti Íslands utanhúss, en sá árangur skilaði henni Íslandsmeistaratitli og er annar besti árangur konu utanhúss á árinu og jöfnun á besta árangri innanhúss. Jafnframt er þetta 8. besti árangur sem íslensk kona hefur stokkið. Sá árangur gefur 994 WA stig sem er frábær árangur.

Við óskum Helgu Þóru innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Mynd: Baldvin Berndsen


Framtíðar frjálsíþróttastjörnur á Jólamóti Fjölnis

Jólamót frjálsíþróttadeildar Fjölnis var haldið á dögunum í Laugardalshöll. Mótið er haldið á ári hverju í desember fyrir yngstu iðkendur í frjálsum. Krakkarnir léku á als oddi og spreyttu sig í 60m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti, grindaboðhlaupi, þrístökki og 200m hlaupi. Árangurinn lét ekki á sér standa og ljóst er að Fjölnir á stóran hóp af efnilegum frjálsíþróttakrökkum.

Þjálfarar hópsins hafa lagt áherslu á að byggja upp alhliða íþróttakrakka sem njóta þess að hreyfa sig og mæta á æfingar og hefur tekist vel til. Að mótinu loknu fengu allir keppendur verðlaunapening og viðurkenningarskjal fyrir frábæran árangur.


Fjölnisjólakúla

Við erum að selja glæsilegar jólakúlur til styrktar yngri flokka starfi félagsins 🎅🎁

Tilvalið í leynivinagjöf til Fjölnisfólks eða bara til að fylla jólatréð af Fjölniskúlum 🎄

Kíkið við á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll og nælið ykkur í jólakúlur ☃✨


Takk sjálfboðaliðar!

Í dag, 5. desember, er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Við hér í Fjölni búum svo vel að eiga fjölda góðra sjálfboðaliða sem sjá til þess að verkefni innan félagsins eru unnin af kostgæfni.

Við erum ævinlega þakklát ómetanlegu framlagi sjálfboðaliða okkar til félagsins en án þeirra væri ómögulegt að halda úti jafn öflugu starfi og raun ber vitni.

Takk fyrir ykkur sjálfboðaliðar og til hamingju með daginn!


JÓLANÁMSKEIÐ ARONS SIG!

JÓLANÁMSKEIÐ MEÐ ARONI SIG!
Jólanámskeiðið verður haldið dagana 27., 28., 29. og 30. desember við bestu aðstæður inni í Egilshöllinni í samstarfi við Fjölni! ☃️

Námskeiðið er fyrir 6., 5. og 4. flokk karla og kvenna og verða tveir æfingahópar sem æfa annars vegar kl. 10:00-12:00 og 13:00-15:00. 48 sæti eru laus í hvorn hópinn.

Þjálfarar á námskeiðinu verða Aron Sigurðarson, uppalinn Fjölnismaður og atvinnumaður í fótbolta hjá Horsens og Björn Breiðfjörð yfirþjálfari yngri flokka Fjölnis ásamt góðum aðstoðarþjálfurum. Á hverjum degi verður keppni þar sem veglegir vinningar verða fyrir efstu sæti. Einnig kíkja góðir gestir á námskeiðið alla dagana og heilsa upp á krakkana.

Námskeiðsgjald er 8.990 kr. og eru 48 laus pláss í hvorn hópinn! FYRSTUR KEMUR, FYRSTUR FÆR!
Skráning fer fram í gegnum XPS https://xpsclubs.is/fjolnir/registration 🎅⛄️


Fulltrúar Fjölnis í æfingahópum yngri landsliða í körfubolta

**Uppfært** Á upptalninguna vantaði Guðmund Aron Jóhannesson í U20 og Helenu Rut Ingvarsdóttur í U15

Þjálfarar landsliða U15, U16, U18 drengja og stúlkna og U20 karla og kvenna hafa nú valið og boðað sína fyrstu æfingahópa sem æfa um miðjan desember. Þetta eru fyrstu stóru æfingahóparnir hjá hverju liði en upp úr þessum hópum verður svo valið í næstu minni æfingahópa sem koma til æfinga í febrúar næstkomandi.

Öll liðin hafa verkefni á komandi sumri en þá munu U15 liðin fara í mót eða verkefni með Norðurlöndunum og svo eru U16, U18 og U20 öll að fara á NM í lok júní og byrjun júlí og svo halda þau öll á EM mót FIBA hvert um sig í kjölfarið. Öll íslensku liðin leika í B-deild Evrópumótsins nema U20 karla sem leika í A-deild líkt og í fyrra. Í A-deildum eru eingöngu topp 16 landsliðin í hverjum árgangi ár hvert og 2-3 lið fara upp og niður milli ára, og þá eru öll önnur lönd í B-deildunum, auk nokkurra í C-deildum.

Innilega til hamingju og gangi ykkur vel!