Úlfur framlengir við Fjölni

Knattspyrnudeild Fjölnis og Úlfur Arnar Jökulsson hafa framlengt samning Úlfs um
þjálfun Lengjudeildarliðs Fjölnis. Samningurinn gildir til tveggja ára.
„Við hjá Fjölni erum ákaflega ánægð með að hafa endurnýjað samninginn við Úlf.
Við höfum byggt upp ungt og skemmtilegt lið sem var nálægt því að vinna sig upp um deild.
Við munum áfram leggja áherslu á að ungir knattspyrnumenn eigi greiðan aðgang að meistaraflokkshópi
félagsins og að Fjölnir sé í fremstu röð í að búa til unga afreksleikmenn.
Þetta er í samræmi við afreksstefnu okkar. Í þessari vegferð gegnir Úlfur lykilhlutverki“ segir
Björgvin Jón Bjarnason formaður knattspyrnudeildar Fjölnis í tilefni af framlengingu samningsins.
„Ég er bæði ánægður og stoltur að hafa endurnýjað samning minn sem þjálfari Fjölnis í meistaraflokki karla í knattspyrnu.
Fjölnir er minn uppeldisklúbbur og ég á þar sterkar rætur. Mér finnst mikill heiður að vera treyst fyrir áframhaldandi þjálfun Fjölnis.
Ég hlakka til að halda áfram að vinna með þessum frábæra hópi og byggja ofan á þann árangur sem náðist í sumar.
Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við komandi tímabil af krafti og eldmóði og trúi því að við getum gert enn betur. Áfram Fjölnir!“ sagði Úlfur við sama tækifæri.
Fjölnir hefur gengið frá samningum við 6 15-16 ára knattspyrnumenn sem munu á næsta ári verða hluti af afreksstarfi félagsins.