Hér að neðan munum við uppfæra félagsmenn um stöðu Covid-19 veirunnar.
English and Polski below
Ágætu foreldrar / forráðamenn,
Uppfært 25.03.2021 kl. 09:00:
Stjórnvöld kynntu stórhertar sóttvarnaraðgerðir á fundi sínum í Hörpu í gær sem tóku gildi á miðnætti og munu gilda í 3 vikur eða til og með 15. apríl næstkomandi.
Nánar má lesa um aðgerðinar með því að smella HÉR.
Allt æfinga og mótahald er óheimilt á þessu tímabili en fram kom í ræðu heilbrigðisráðherra að:
„Inni- og útiíþróttir verða óheimilar þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra bil milli fólks eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, sundstaðir verða lokaðir sem og líkamsræktarstöðvar. Sviðslistastarf verður óheimilt, bæði æfingar og sýningahald.“
Hvaða áhrif hafa þessar hertu aðgerðir á okkur?
Æfinga- og félagssvæði Fjölnis er lokað frá og með 25. mars og til og með 15. apríl.
Þetta nær yfir:
- Æfinga- og keppnissvæði í og við Dalhús og Egilshöll
- Skrifstofu Fjölnis og félagaðstöðu í Egilshöll
Við beinum því til þjálfara félagsins að hvetja iðkendur til að sinna æfingum heima, halda fjaræfingar og leggja fyrir verkefni til að stytta biðina. Við kunnum þetta.
Starfsfólk Fjölnis eru til taks á skrifstofunni fyrir félagsmenn sem þurfa að ná í eigur. Vinsamlega hafið samband við Guðmund á gummi@fjolnir.is eða Arnór á arnor@fjolnir.is.
#FélagiðOkkar
Uppfært 16.11.2020 kl. 16:00:
Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi frá og með miðvikudeginum 18. nóvember er íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar (15 ára og yngri) heimilað.
Við beinum því til allra deilda að setja starfið á fullt aftur samkvæmt æfingatöflu.
Strætófylgdin fer af stað með hefbundnum hætti samhliða æfingum.
Hér má finna nánari útlistun á reglugerðinni
Ný reglugerð er í gildi frá og með 18. nóvember til og með 1. desember.
Hvaða áhrif hefur þetta á okkur?
- Æfingar heimilar hjá iðkendum fædd 2005 og síðar (15 ára og eldri)
- Æfingar óheimilar hjá iðkendum fædd 2004 og fyrr (16 ára og eldri)
- Starfsfólk skrifstofu er ýmist að vinna í Egilshöll eða að heiman. Vinsamlega hafið beint samband við viðkomandi starfsmann ef þið þurfið að mæla ykkur mót.
o Netföng starfsfólks: https://fjolnir.is/felagid-okkar/skrifstofa/ - Þær deildir sem óska eftir fundaraðstöðu eru beðnar að hafa samband við Arnór á arnor@fjolnir.is.
- Gengið inn í Egilshöll:
- Handbolti og karfa inn austan megin
- Aðrar deildir notast við aðalinngang
Við erum #FélagiðOkkar
Uppfært 30.10.20 kl. 15:45:
Heilbrigðisráðherra tilkynnti hertar aðgerðir í samkomubanni. Þar kemur meðal annars fram að:
„Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi frá og með 31. október til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.“
Þetta eru vissulega mikil vonbrigði en áfram höldum við höfðinu hátt og berjumst gegn þessari veiru. Höldum í brosið og jákvæðnina og ræktum líkama og sál.
Við viljum hvetja iðkendur til að vera dugleg að stunda æfingar heima og taka þátt í áskoruninni okkar #FjölnirHeima.
Uppfært 27.10.20 kl. 11:45:
Æfingar iðkenda fædd 2004 og fyrr er heimilar. Íþróttafólk sem með þessu fá leyfi til æfinga gæti því vel að fjarlægðarmörkum sem eru 2 metrar og gæti einnig að almennum persónubundnum sóttvörnum. Engin snerting er leyfð og tryggja þarf að allir iðkendur noti eigin bolta og brúsa. Sótthreinsa þarf áhöld fyrir og eftir notkun.
Meðfylgjandi er texti úr tilkynningu sem barst frá almannavörnum:
“Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við ÍSÍ og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hafa tekið þá ákvörðun um að heimila börnum fædd 2004 og eldri að hefja æfingar í þróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og félaganna frá og með 26. október n.k. Íþrótta- og tómstundastarf og sundkennsla barna fædd 2005 og síðar mun hefjast 3. nóvember næstkomandi.”
Við viljum hvetja iðkendur til að vera dugleg að stunda æfingar heima og taka þátt í áskoruninni okkar #FjölnirHeima.
Uppfært 20.10.20 kl. 13:30:
Að kröfu sóttvarnaryfirvalda og Reykjavíkurborgar höfum við framlengt æfingabann á svæðum félagsins. Staðan verður endurmetin í samvinnu við þessa aðila að viku lokinni.
Meðfylgjandi er texti úr tilkynningu sem barst frá almannavörnum:
“Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.”
Við viljum hvetja iðkendur til að vera dugleg að stunda æfingar heima og taka þátt í áskoruninni okkar #FjölnirHeima.
Uppfært 08.10.20 kl. 13:00:
Sóttvarnarlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa sent tilmæli til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu eru þar beðin um að gera hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum frá deginum í dag til 19. október.
Þau tilmæli sem eiga sérstaklega við um íþróttafélög eru:
- Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
- Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.
Æfinga- og félagssvæði Fjölnis er lokað frá og með 8. október og til og með 19. október.
Þetta nær yfir:
- Æfinga- og keppnissvæði í og við Dalhús og Egilshöll
- Skrifstofu
- Fundasvæði
Við beinum því til þjálfara félagsins að hvetja iðkendur til að sinna æfingum heima, halda fjaræfingar og leggja fyrir verkefni til að stytta biðina.
Fréttatilkynning frá almannavarnadeild höfuðborgarsvæðisins.
Allar nánari upplýsingar veitir Arnór Ásgeirsson á arnor@fjolnir.is.
#FélagiðOkkar
Uppfært 05.10.20 kl. 09:00:
Heilbrigðisráðuneytið hefur birt breyttar reglur um samkomutakmarkanir sem taka gildi frá og með 5. október. Samkvæmt reglunum eru keppnisíþróttir með snertingu áfram leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Æfingar: Áhorfendur eru ekki leyfðir á æfingar, þó með þeirri undantekningu að foreldrar leikskólabarna mega fylgja sínu barni en þurfa að notast við andlitsgrímu.
Leikir/Mót: Áhorfendur eru ekki leyfðir innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur að hámarki 100 í hverju rými, sitji þeir í númeruðum sætum skráð á nafn og noti andlitsgrímu.
Við beinum því til foreldra og annarra sem ekki tilheyra æfingahópum að halda sig frá æfingasvæðum félagsins. Stöndum saman og gerum allt sem við getum til að halda starfinu okkar gangandi.
Beðið er frekari fyrirmæla um þau skilyrði sem sett eru fyrir keppnisíþróttir með snertingu.
Frétt um nýjar reglur, sem uppfærð verður, má finna á vef stjórnarráðsins – sjá hér.
#FélagiðOkkar
Uppfært 20.08.20 kl. 10:00:
14. ágúst tók í gildi ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 12. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 27. ágúst kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 (tekið af vef isi.is).
Stærsta breytingin sem snýr að íþróttahreyfingunni er 6. grein auglýsingarinnar sem á við um nálægðartakmarkanir í íþróttum. Sérsambönd ÍSÍ eiga að setja sér reglur í samstarfi við ÍSÍ um framkvæmd æfinga og keppna í sínum greinum þannig að snertingar séu heimilar (tekið af vef isi.is).
Almenna reglan er sú að áhorfendur eru ekki leyfðir á íþróttaviðburðum hjá iðkendum fædd árið 2004 og fyrr, þann tíma sem auglýsingin gildir, samanber minnisblað sóttvarnalæknis. Á íþróttaviðburðum yngri iðkenda gildir 100 manna fjöldatakmörkun og 2 metra fjarlægð.
Samantekt og áherslupunktar:
- Virðum 2 metra regluna á íþróttasvæðinu okkar, þetta á við um öll rými s.s. búningsklefa, íþróttsali og fundarými.
- Hugum að einstaklingsbundnum sóttvörnum og smitvörnum. Handþvottur og spritt og notkun gríma ef það er ómögulegt að viðhalda 2 metra fjarlægð.
- Forðumst blöndun flokka og hópa.
- Forðumst margmenni að óþörfu og höldum áfram að vera skynsöm.
- Höldum í bjartsýni og jákvæðni, það er gott að brosa.
Uppfært 04.08.20 kl. 10:00:
Í ljósi nýrra takmarkana á samkomum frá og með 31. júlí til og með 13. ágúst er þeim tilmælum beint til eldri flokka (16 ára og eldri, f. 2004 og fyrr):
- Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til og með 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
- Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
- Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.
Þetta þýðir að ef hægt er að æfa með því að fylgja ítrustu takmörkunum er það heimilt. Við ítrekum að nauðsynlegt er að gæta fyllstu varúðar og fara í einu og öllu að tilmælum heilbrigðisyfirvalda s.s. að virða fjarlægðarmörk og huga að handþvotti og sóttvörnum. Við höfum ákveðið að loka styrktarsalnum í Dalhúsum og búningsklefum í Egilshöll og Dalhúsum til og með 13. ágúst.
Æfingar yngri iðkenda, þeirra sem eru 15 ára og yngri (f. 2005 eða síðar) fara fram með óbreyttu sniði. Við beinum því til forráðamanna að ef það þarf að fylgja barni á æfingar að aðeins einn forráðamaður mæti með barnið. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá höfum við skilgreint inn- og útganga við Egilshöll. Vinsamlegast kynnið ykkur myndina vel.
Stjórnendur félagsins vinna náið með yfirþjálfurum og öðrum starfsmönnum félagsins í úrlausnum á æfingum fyrir þann hóp sem takmarkanirnar hafa mest áhrif á. Staðan er endurmetin eftir þörfum, í takt við uppfærð tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Allar uppfærslur má finna á Facebook Fjölnis og heimasíðu okkar www.fjolnir.is.
Við óskum eftir því að allir félagsmenn okkar sýni gott fordæmi og hjálpi okkur að fylgja þessum tilmælum, með lausnarmiðuðum hugsunarhætti og jákvæðni.
Uppfært 29.06.20 kl. 10:00:
Við viljum minna þá á sem sækja svæði Fjölnis að virða tilmæli Almannavarna, huga að handþvotti og almennu hreinlæti ásamt því virða 2 metra regluna fyrir þá sem þess óska. Þeir sem finna fyrir einkennum eða eru slappir eru hvattir til að vera heima og gera ráðstafanir s.s. að fara í skimun.
Höldum FÓKUS og stöndum saman!
Uppfært 25.05.20 kl. 16:00:
Æfingar eldri flokka hefjast að nýju með hefðbundnum hætti frá og með mánudeginum 25. maí.
- Búið er að opna fyrir notkun á klefum.
- Styrktarsalurinn í Dalhúsum fer í notkun um leið og tímatafla verður staðfest.
Uppfært 22.05.20 kl. 12:20:
Nánari upplýsingar varðandi frekari tilslakanir fullorðinna verða gefnar út næstkomandi mánudag. Fylgist vel með á heimasíðunni okkar og á Facebook.
Uppfært 03.05.2020 kl. 14:30:
Við gleðjumst yfir því að á morgun geta börnin okkar hafið hefðbundið íþróttastarf. Seinustu daga hafa stjórnendur félagsins í samvinnu við fulltrúa allra deilda unnið hörðum höndum að góðu skipulagi fyrir forráðamenn, iðkendur og þjálfara félagsins. Egilshöllin er sem fyrr hjarta Fjölnis og þar er langstærsti hluti starfsemi okkar. Við bendum á að íþróttasalurinn í Dalhúsum er lokaður vegna viðgerða á gólfi, þá er styrktarsalurinn einnig lokaður. Fundabókanir fara fram á vefnum okkar https://fjolnir.is/felagid-okkar/fundabokanir/.
Nánari upplýsingar er að finna hér: https://fjolnir.is/2020/05/03/upplysingar-til-forradamanna-og-idkenda/.
Uppfært 22.04.2020 kl. 14:30:
Heilbrigðisráðherra kynnti breytingu á samkomubanni. Í því felst að fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4.maí næstkomandi. Unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi en skólasundkennsla verður heimil.
Íþróttastarf fullorðinna lýtur áfram takmörkunum. Þar á meðal mega mest sjö einstaklingar vera með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll en fjórir með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll. Notkun á búningssaðstöðu innanhúss er óheimil og hvatt til að tveggja metra nándarreglan verði virt.
Skrifstofa Fjölnis mun funda næstkomandi föstudag og skipuleggja íþróttastarf félagsins frá og með 4.maí. Nánari upplýsingar verða gefnar út strax eftir helgi.
Uppfært 30.03.2020 kl. 10:30:
Við viljum koma eftirfarandi ábendingu á framfæri til þeirra sem eru að nota sparkvellina í kringum skólana og aðra gervigrasvelli í hverfinu að virða fjarlægðarmörk og fara eftir öðrum fyrirmælum Almannavarna.
#FélagiðOkkar
Uppfært 23.03.2020 kl. 10:00:
Í ljósi nýjustu frétta viljum við koma því á framfæri að allar æfingar falla niður frá og með deginum í dag, 23.mars. Þetta á við um alla flokka og hópa. Þeir sem óska eftir því að bóka fundi í Egilshöll þurfa að senda beiðni á arnor@fjolnir.is.
Við höfum verið að fá fyrirspurnir vegna endurgreiðslu æfingagjalda og viljum koma því á framfæri að ákvörðun um hvort og hvernig við munum bæta upp þann tíma sem æfingar falla niður verður tekin samhliða þróun kórónuveirunnar og stuðningi frá hinu opinbera.
Við minnum enn fremur á netfangið okkar skrifstofa@fjolnir.is og símatímann okkar sem er mánudaga til fimmtudaga frá klukkan 13 til 16 í síma 578 2700.
#FélagiðOkkar
Uppfært 20.03.2020 kl. 14:00:
Öll starfsemi félagsins liggur niðri að undanskildum fundabókunum í Egilshöll. Starfsmenn skrifstofu munu funda á mánudaginn og meta stöðuna í samvinnu við Almannavarnir og íþróttahreyfinguna.
Uppfært 18.03.2020 kl. 16:00:
Eftir fund með ÍTR í hádeginu viljum við koma því á framfæri að einungis meistaraflokkar / afrekshópar fá heimild til að æfa með gefnu samþykki félagsins, til og með 23.mars. Við brýnum fyrir þessum hópum að fylgja í einu og öllu, fyrirmælum Almannavarna og íþróttahreyfingarinnar í samkomubanni. Skrifstofa Fjölnis metur stöðuna á degi hverjum og upplýsir félagsmenn um næstu skref. Starfsmenn munu sérstaklega funda um æfingar annarra hópa, mánudaginn 23.mars. Allar fyrirspurnir skulu berast á skrifstofa@fjolnir.is.
Uppfært 17.03.2020 kl. 14:00:
Skrifstofa félagsins ásamt forsvarsmönnum deildanna vinna saman að skipulagi afreksstarfs. Nánari leiðbeiningar eru væntanlegar.
Uppfært 16.03.2020 kl. 09:45:
Öll starfsemi félagsins fellur niður til og með sunnudags 22.mars. Er þetta gert til skapa svigrúm fyrir skrifstofu félagsins við undirbúning á starfsemi þess. Aftur á móti verður staðan endurmetin á hverjum degi. Allar breytingar á starfi félagsins meðan á samkomubanni stendur birtast á heimasíðu félagsins og FB. Sjá fréttatilkynningu.
Uppfært 13.03.2020 kl. 17:40:
Allar æfingar hjá Fjölni fara fram skv. æfingatöflum fram á mánudaginn 16.mars. Staðan verður tekin þá með framhaldið. ATH! Öllum leikjum og mótum hefur verið frestað hjá félaginu í óákveðinn tíma.
Uppfært 13.03.2020 kl. 11:10:
Samkomubann tekur gildi á öllu landinu. Samkomur verða takmarkaðar í 4 vikur frá miðnætti 15.mars næstkomandi. Þetta á við samkomur þar sem fleiri en 100 koma saman. Frekari frétta frá félaginu er að vænta fljótlega.
Uppfært 13.03.2020 kl. 10:30:
FSÍ hefur ákveðið að fresta bikarmóti unglinga í hópfimleikum.
Uppfært 12.03.2020 kl. 18:14:
Við höfum ákveðið að loka tímabundið fyrir fundabókanir í Dalhúsum og einnig verður styrktarsalnum lokað.
Uppfært 12.03.2020 kl. 14:05:
KKÍ hefur því ákveðið að fresta öllum fjölliðamótum fram yfir páska.
Uppfært 12.03.2020 kl. 10:30:
Í gær fundaði HSÍ með ÍSÍ og öðrum sérsamböndum eins og hafði verið ákveðið á fundi sambandanna á mánudag með almannavörnum. Í dag er enn óbreytt staða frá yfirvöldum þ.e. að ekki er um að ræða samkomubann. HSÍ mun almennt fara eftir þeim tilmælum og munu allir leikir fara fram skv. leikjadagskrá þar til annað verður tilkynnt.
Hins vegar hefur HSÍ verið í nánu sambandi við þau félög sem fyrirhuguðu að halda fjölliðamót á næstu 2 vikur. Ljóst er að þegar hafa borist afboðanir þátttakenda og sjálfboðaliða og því erfitt fyrir umrædd félög að fullnægja þeim skilyrðum sem sett hafa verið af hálfu almannavarna til skipuleggjenda viðburða. Í þessu ljósi hefur HSÍ ákveðið að fresta öllum fjölliðamótum á vegum HSÍ næstu tvær vikur.
Uppfært 11.03.2020 kl. 11:03:
Fulltrúar sérsambanda hafa fundað með ÍSÍ og Almannavörnum. Ekkert samkomubann er í gildi og eins og er er slíkt ekki fyrirhugað þó það sé endurmetið daglega og getur breyst með stuttum fyrirvara. Í samræmi þetta mun allt mótahald vera með óbreyttu sniði þar til annað verður sérstaklega tilkynnt.
Í ljósi þess að nú er hættustig almannavarna í gildi vegna COVID-19 kórónaveirunnar áréttar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra mikilvægi þess að allir fylgi leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Nýjustu upplýsingar eru ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins: www.landlaeknir.is
Foreldrar eru beðnir um að fylgjast reglulega með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef börn eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau fara í sóttkví skv. leiðbeiningum Landlæknis.
Foreldrum barna með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni.
Einstaklingar sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar. Þeir sem verið hafa í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra hættusvæða.
Fjölnir fylgist vel með þróun mála og fer eftir þeim fyrirmælum sem berast frá yfirvöldum hverju sinni.
Mjög mikilvægt er að iðkendur fari eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út og hefur félagið nú þegar beint því til þjálfara að forðast óþarfa snertingar milli iðkenda og þjálfara. Einnig brýnum við fyrir iðkendum, þjálfurum og starfsmönnum að þvo sé reglulega um hendur. Þá hefur félagið einnig komið upp sprittstöndum í Egilshöll.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vill vekja athygli á leiðbeiningum sóttvarnarlæknis í tengslum við kórónaveiruna og hvetur sambandsaðila að fylgjast með nýjustu uppfærslum varðandi skilgreiningar á áhættusvæðum. Þeir sambandsaðilar sem hyggja á ferðalög með íþróttahópa ættu að kynna sér allar upplýsingar varðandi smitsvæði á vefsíðu Embættis landlæknis. ÍSÍ bendir sambandsaðilum sínum á að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis um sóttkví vegna kórónuveirunnar hafi aðilar verið á skilgreindum áhættusvæðum. Bent er á að mælst er til þess að þeir sem hafi verið nýlega á þessum áhættusvæðum fari fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð. Hafa ber í huga þau áhrif sem aðgerðir stjórnvalda á áhættusvæðum geta haft á ferðaáætlanir og fylgjast vel með fréttum, þarlendis og á vef Embættis landlæknis þar sem skilgreiningar á svæðum með viðvarandi smit geta breyst hratt.
Embætti landlæknis uppfærir reglulega upplýsingar á vefsíðu landlæknis hér.
Sóttvarnalæknir mælist til þess að fólk hugi vel að persónulegu hreinlæti (handþvottur, klútur fyrir vit við hnerra eða hósta). Almenningur getur með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel að sínu persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, net og munn eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.
Hér á vefsíðu Embættis landlæknis má sjá ráðleggingar til ferðamanna.