Fréttir frá Bikarmóti ÍSS 2018
Bjarnarskautarar gerðu sér ferð um síðustu helgi í Laugardalinn og tóku þátt í Bikarmóti Skautasambands Íslands. Mótið er annað mótið þeirra á tímabilinu og mikil vinna búin að eiga sér stað. Björninn átti keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu, margir að keppa í fyrsta sinn í nýjum keppnisflokkum og mikil eftirvænting og spenna í okkar herbúðum.
Á laugardeginum var keppt í Intermediate novice og Intermediate ladies og réðust úrslit rétt um kl 10. Í Intermediate ladies landaði Berglind Óðinsdóttir 2. sæti og Hildur Bjarkadóttir 3. sæti og að auki lentu Hildur Hilmarsdóttir 4. sæti og Sólbrún Víkingsdóttir í 6. sæti. Í Intermediate novice röðuðu Harpa Karin Hermannsdóttir, Lena Rut Ásgeirsdóttir og Valdís María Sigurðardóttir sér í 5., 6. og 7. sæti.
Eftir verðlaunaafhendingu hófst keppni í Advanced novice, junior og senior með stutta prógramið. Aníta Núr Magnúsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir kepptu í Advanced novice. Eftir prógramið var Júlía Sylvía í 2. sæti og Aníta Núr í 7. sæti. Í Junior ladies kepptu Helga Karen Pedersen og Herdís Birna Hjaltalín. Helga Karen átti stórgóðan sprett og sat í 2. sæti eftir daginn og Herdís Birna í því fimmta, einnig með gott prógram. Eva Dögg Sæmundsdóttir keppti í senior ladies. Evu Dögg gekk ágætlega í stutta prógraminu og vermdi fyrsta sætið þegar keppni lauk í flokkinum.
Á sunnudegi var keppt í Chicks, Cubs og Basic novice ásamt keppni í frjálsu prógrami hjá Advanced novice, junior og senior.
Í Chicks og Cubs stóðu allir Bjarnarkeppendur, Sunneva, Brynja, Emelíana og Elva, sig mjög vel og sýndi snilldar tilþrif á ísnum. Í Basic novice átti Björninn fjóra keppendur. Því miður gat einn ekki lokið keppni vegna veikinda en úrslit voru þau að Tanja Rut Guðmundsdóttir nældi í 3. sæti, Þórdís Helga Grétarsdóttir varð í 5. sæti og Rakel Sara Kristinsdóttir í því 6.
Keppni lauk svo í eldri flokkunum í mikilli spennu enda var mjótt á mununum eftir fyrri daginn. Í Advanced novice krækti Júlía Sylvía sér í 3. sætið en Aníta Núr varð því miður að hætta keppni sökum óhapps sem hún varð fyrir í prógraminu.
Í Junior luku þær Helga Karen og Herdís Birna keppni í 4. og 6. sæti í geysisterkum flokki þar sem miklar sviptingar urðu á sætaröð milli daga. Eva Dögg Sæmundsdóttir lauk svo keppnisdeginum í senior flokki með silfurverðlaunum.
Eins og áður sagði átti Björninn 20 keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu og komu okkar stúlkur heim með 2 silfurverðlaun og 3 bronsverðlaun í farteskinu reynslunni ríkari og fullar eldmóði fyrir Íslandsmótinu sem haldið verður í Egilshöllinni í lok nóvember.
Autumn Classic International
Í síðustu viku tóku þær Eva Dögg Sæmundsdóttir og Júlía Grétarsdóttir úr Listskautadeild Bjarnarins þátt á Autumn Classics International sem haldið var í Oakville í Kanada. Mótið er hluti af ISU Challenger series mótaröðinni og eru þær fyrstu íslensku keppendurnir sem tekið hafa þátt á þessari mótaröð. Margir af bestu skauturum heims tóku þátt og öttu íslensku stúlkurnar meðal annars kappi við Evgeniu Medvedeva sem vann til tvennra silfurverðlauna á Ólympíuleikunum fyrr á þessu ári. Eva og Júlía stóðu sig með mikilli prýði og hafnaði Eva Dögg í 21. sæti og Júlía í því 22.
Haustmót 2018
Haustmót ÍSS var haldið á Akureyri um helgina. Tuttugu keppendur frá Listskautadeild Bjarnarins tóku þátt á mótinu. Keppt var í 8 keppnisflokkum og átti Björninn keppendur í öllum flokkum. Stelpurnar stóðu sig með mikilli prýði á mótinu. Úrslit flokkanna voru:
Intermediate Ladies
1. Eva Björg Halldórsdóttir SA
2. Hildur Hilmarsdóttir SB
3. Hugrún Anna Unnarsdóttir SA
Basic Novice
1. Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir SA
2. Kristín Jökulsdóttir SR
3. Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir SR
Intermediate Novice
1. Harpa Karin Hermannsdóttir SB
2. Valdís María Sigurðardóttir SB
3. Ingunn Dagmar Ólafsdóttir SR
Advanced Novice
1. Herdís Heiða Jing Guðjohnsen SR
2. Rebekka Rós Ómarsdóttir SR
3. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir SB
Junior:
1. Viktoría Lind Björnsdóttir SR
2. Aldís Kara Bergsdóttir SA
3. Herdís Birna Hjaltalín SB
Senior:
1. Eva Dögg Sæmundsdóttir SB