Autumn Classic International

Í síðustu viku tóku þær Eva Dögg Sæmundsdóttir og Júlía Grétarsdóttir úr Listskautadeild Bjarnarins þátt á Autumn Classics International sem haldið var í Oakville í Kanada. Mótið er hluti af ISU Challenger series mótaröðinni og eru þær fyrstu íslensku keppendurnir sem tekið hafa þátt á þessari mótaröð. Margir af bestu skauturum heims tóku þátt og öttu íslensku stúlkurnar meðal annars kappi við Evgeniu Medvedeva sem vann til tvennra silfurverðlauna á Ólympíuleikunum fyrr á þessu ári. Eva og Júlía stóðu sig með mikilli prýði og hafnaði Eva Dögg í 21. sæti og Júlía í því 22.


Haustmót 2018

Haustmót ÍSS var haldið á Akureyri um helgina. Tuttugu keppendur frá Listskautadeild Bjarnarins tóku þátt á mótinu. Keppt var í 8 keppnisflokkum og átti Björninn keppendur í öllum flokkum. Stelpurnar stóðu sig með mikilli prýði á mótinu. Úrslit flokkanna voru:

Intermediate Ladies

1. Eva Björg Halldórsdóttir SA

2. Hildur Hilmarsdóttir SB

3. Hugrún Anna Unnarsdóttir SA

Basic Novice

1. Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir SA

2. Kristín Jökulsdóttir SR

3.  Vilborg Gróa Brynjólfsdóttir SR

Intermediate Novice

1. Harpa Karin Hermannsdóttir SB

2. Valdís María Sigurðardóttir SB

3. Ingunn Dagmar Ólafsdóttir SR

Advanced Novice

1. Herdís Heiða Jing Guðjohnsen SR

2. Rebekka Rós Ómarsdóttir SR

3. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir SB

Junior:

1. Viktoría Lind Björnsdóttir SR

2. Aldís Kara Bergsdóttir SA

3. Herdís Birna Hjaltalín SB

Senior:

1. Eva Dögg Sæmundsdóttir SB


Sumarbúðum Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar lokið

Æfingabúðirnar í júní 2018 voru á vegum Skautafélags Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi tvö félög hafa farið í samstarf með æfingabúðir og má með sanni segja að vel hafi tekist til. Góð þátttaka var frá skauturum beggja félaga á öllum stigum og skemmtileg stemming myndaðist milli iðkenda félaganna. Óhætt er að segja að mörg vináttusambönd hafi skapast og verður skemmtilegt fyrir iðkendurna að rækta vináttuna í framtíðinni.
Fyrstu vikuna sáu George Kenchadze, yfirþjálfari á Akureyri og Christina Phipps skautastjóri Bjarnarins um kennsluna ásamt gestaþjálfaranum Kevin Curtis sem kemur frá Bandaríkjunum. Gaman var fyrir iðkendurna að fá til sín utanaðkomandi þjálfara því slíkt eykur aðlögunarhæfni þeirra og gefur þeim aðra sýn inn í æfingarnar.
Í annarri og þriðju viku fór Kevin heim en í stað hans kom Gennady Kaskov, yfirþjálfari Bjarnarins auk Christinu og Georgs. Ásamt þeim kom að auki Adelina Sotnikova, en hún er Ólympíumeistari í listskautum frá Ólympíuleikunum í Sochi 2014. Það þarf ekki að tíunda hve mikill heiður það er að fá skautara á þessu kalíberi til að vinna með öllum skaututunum okkar enda urðu gífulegar framfarir í túlkun og öllum hreyfingun iðkendanna á ísnum svo ekki sé minnst á grunnskautum og framfarir í stökkum. Adelina hannaði prógröm fyrir skautarana og verður gaman að sjá hvernig þau taka sig út á ísnum í fyrstu keppni tímabilsins í september.
Mikill metnaður var lagður í afísþjálfun í þessum búðum enda er afísþjálfun jafn mikilvæg skauturum eins og ísþjálfun ef maður ætlar að ná árangri. Afísþjálfarar voru Íris og Arnór en að auki sá Sara Dís um danskennslu.
Það var einnig ákveðið að vera með fræðslufyrirlestra og í fyrstu vikunni sagði Indíana okkur allt um sjálfsímynd á samfélagsmiðlum. Í viku tvö kom Sif Garðars með fyrirlestur og verkefni tengt mataræði og í viku þrjú vorum við með fyrirlestur um íþróttasálfræði fyrir eldri stelpurnar.
Allar vikurnar var æft fyrir lokasýninguna sem var haldin á föstudagskvöldið 29. júní. Þemað var myndin The Greatest Showman. Upptöku af sýningunni má finna á Youtube.
Styrktaraðilar á þessum sumarbúðum voru: Krumma, Macron og Subway.