Bjarnarskautarar gerðu sér ferð um síðustu helgi í Laugardalinn og tóku þátt í Bikarmóti Skautasambands Íslands. Mótið er annað mótið þeirra á tímabilinu og mikil vinna búin að eiga sér stað. Björninn átti keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu, margir að keppa í fyrsta sinn í nýjum keppnisflokkum og mikil eftirvænting og spenna í okkar herbúðum.

Á laugardeginum var keppt í Intermediate novice og Intermediate ladies og réðust úrslit rétt um kl 10. Í Intermediate ladies landaði Berglind Óðinsdóttir 2. sæti og Hildur Bjarkadóttir 3. sæti og að auki lentu Hildur Hilmarsdóttir 4. sæti og Sólbrún Víkingsdóttir í 6. sæti. Í Intermediate novice röðuðu Harpa Karin Hermannsdóttir, Lena Rut Ásgeirsdóttir og Valdís María Sigurðardóttir sér í 5., 6. og 7. sæti.

Eftir verðlaunaafhendingu hófst keppni í Advanced novice, junior og senior með stutta prógramið. Aníta Núr Magnúsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir kepptu í Advanced novice. Eftir prógramið var Júlía Sylvía í 2. sæti og Aníta Núr í 7. sæti. Í Junior ladies kepptu Helga Karen Pedersen og Herdís Birna Hjaltalín. Helga Karen átti stórgóðan sprett og sat í 2. sæti eftir daginn og Herdís Birna í því fimmta, einnig með gott prógram. Eva Dögg Sæmundsdóttir keppti í senior ladies. Evu Dögg gekk ágætlega í stutta prógraminu og vermdi fyrsta sætið þegar keppni lauk í flokkinum.

Á sunnudegi var keppt í Chicks, Cubs og Basic novice ásamt keppni í frjálsu prógrami hjá Advanced novice, junior og senior.

Í Chicks og Cubs stóðu allir Bjarnarkeppendur, Sunneva, Brynja, Emelíana og Elva, sig mjög vel og sýndi snilldar tilþrif á ísnum. Í Basic novice átti Björninn fjóra keppendur. Því miður gat einn ekki lokið keppni vegna veikinda en úrslit voru þau að Tanja Rut Guðmundsdóttir nældi í 3. sæti, Þórdís Helga Grétarsdóttir varð í 5. sæti og Rakel Sara Kristinsdóttir í því 6.

Keppni lauk svo í eldri flokkunum í mikilli spennu enda var mjótt á mununum eftir fyrri daginn. Í Advanced novice krækti Júlía Sylvía sér í 3. sætið en Aníta Núr varð því miður að hætta keppni sökum óhapps sem hún varð fyrir í prógraminu.

Í Junior luku þær Helga Karen og Herdís Birna keppni í 4. og 6. sæti í geysisterkum flokki þar sem miklar sviptingar urðu á sætaröð milli daga. Eva Dögg Sæmundsdóttir lauk svo keppnisdeginum í senior flokki með silfurverðlaunum.

Eins og áður sagði átti Björninn 20 keppendur í öllum keppnisflokkum á mótinu og komu okkar stúlkur heim með 2 silfurverðlaun og 3 bronsverðlaun í farteskinu reynslunni ríkari og fullar eldmóði fyrir Íslandsmótinu sem haldið verður í Egilshöllinni í lok nóvember.