Frábær árangur skautastúlkna Fjölnis á Reykjavíkurleikunum
Reykjavíkurleikarnir hófust á föstudaginn en þá kepptu Fjölnisstúlkur í flokkum Chicks, Cubs, Intermediate Novice og Advanced Novice. Þetta er eina mót ársins hér á landi þar sem þær keppa við iðkendur frá öðrum löndum og er þetta mjög góð reynsla fyrir þær.
Ungu stúlkurnar okkar í Chicks og Cubs hófu mótið og stóðu sig mjög vel. Sumar eru farnir að reyna við tvöföld stökk og eru að bæta erfiðleikastigum á pírúettana sína. Það hafa verið stöðugar framfarir hjá þessum ungu stúlkum í vetur.
Rakel, Tanja og Lena kepptu allar í Intermediate Novice. Tönju hefur gengið vel í allan vetur en á þessu móti voru smá erfiðleikar með tvöföldu stökkin og endaði hún í 6. sæti á mótinu. Rakel bætti sitt persónulega stigamet og var í 5. sæti. Lena var með 26.87 stig sem skilaði henni 3. sæti í flokknum. Aldeilis frábær árangur hjá þeim stelpum.
Júlía Sylvía var í 8. sæti eftir stutta prógrammið á föstudeginum. Á laugardeginum skautaði hún mjög vel og bætti persónulegt met í langa prógramminu og endaði í 6. sæti í flokknum Advanced Novice.
Á laugardeginum kepptu Junior stelpur svo í stutta prógramminu. Hildur var fyrst af Fjölnisstelpunum, skautaði vel og bætti sitt persónulega stigamet í stutta prógramminu. Herdís var næst, lenti öllum stökkunum og var mjög nálægt sínum besta árangri í vetur. Helga átti líka fínan dag og lenti hún flottri stökksamsetningu strax í byrjun prógrammsins. Þær kepptu síðan í frjálsa prógramminu á sunnudeginum. Hildur lenti í smá erfiðleikum með nokkur stökk í frjálsa prógramminu en samanlögð stig henni þau næsthæstu í vetur. Helga átti annan fínan dag og hóf prógrammið sitt á tvöföldum axel og flottri tvöfaldri stökksamsetningu. Herdís var síðust þeirra og átti hún frábæran dag þar sem hún bætti persónulegt stigamet í frjálsu prógrammi og samanlögð stig hennar voru 95.79. Með þessum árangri náði hún viðmiðum afrekshóps og keppir því á Norðurlandamótinu eftir 2 vikur. Til hamingju með frábæran árangur á Reykjavíkurleikunum 2020!
Nýr yfirþjálfari Skautaskólans
Listhlaupadeildin hefur ráðið Sólbrúnu Ernu Víkingsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Sólbrún hefur æft skauta hjá deildinni í 15 ár, tekið þátt á mótum og æfingabúðum hér heima og erlendis. Hún var íþróttakona deildarinnar árið 2018. Sólbrún hefur þjálfararéttindi 1 og 1A í sérgreinahluta. Hún hefur þjálfað í Skautaskólanum og yngri iðkendum í framhaldshópum deildarinnar í nokkur ár samhliða háskólanámi og æfingum.
Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019
Íþróttakona listhlaupadeildar Fjölnis árið 2019 er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt á mótum á árinu. Júlía Sylvía keppti á Reykjavíkurleikunum í janúar þar sem hún lenti í 6. sæti með 64,53 stig. Hún fór á sitt fyrsta Norðurlandamót í febrúar en þar hafnaði hún í 18. sæti með 66,50 stig. Nú í haust tók hún þátt á Haustmóti ÍSS, Vetrarmóti ÍSS og Íslandsmótinu. Hún hafnaði í 3. sæti á bæði Haustmótinu og Vetrarmótinu en á því síðara fékk hún 70,13 stig. Hún hefur því sýnt stöðugar framfarir á árinu.
Júlía Sylvía byrjaði að æfa skauta í Skautaskóla skautafélags Bjarnarins þegar hún var 6 ára. Hún var fljótlega færð yfir í framhaldshópana. Árið 2016 flutti hún með foreldrum sínum til Kanada og þar komst hún að í góðum skautaskóla þar sem Annie Barabé var yfirþjálfari. Júlía Sylvía flutti aftur til Íslands árið 2018 og byrjaði að æfa hjá Fjölni undir stjórn Gennady Kaskov og nú Svetlönu Akhmerovu.
Þegar hún var yngri stundaði hún fleiri áhugamál, æfði sund, leiklist, ballet og Tai Kwon Do en á síðustu árum hefur sífellt meiri tími farið í skautaiðkunina sem hún stundar af kappi. Önnur áhugamál hennar eru tónlist og Manga sögur og þættir.
Júlía Sylvía er metnaðargjarn iðkandi, leggur hart að sér og hefur sýnt framúrskarandi ástundun. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd og deildinni til mikilla sóma. Við óskum henni innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil.
Íslandsmót ÍSS á listskautum
Íslandsmótið var haldið í Laugardal helgina 29.nóvember-1.desember. Fjölnir átti 13 af 39 keppendum á þessu móti. Það er ekki hægt að segja annað en að stelpurnar okkar hafi lagt mikið í undirbúning fyrir mótið því margar þeirra voru að bæta sín persónulegu stigamet bæði í yngri og eldri flokkunum. Í flokki Intermediate Novice voru Fjölnisstúlkurnar Lena Rut Ásgeirsdóttir í fyrsta sæti og Tanja Rut Guðmundsdóttir í öðru sæti.
Aldís Kara Bergsveinsdóttir úr SA var Íslandsmeistari í flokki Junior og Júlía Rós Viðarsdóttir úr SA í flokki Advanced Novice. Úr Fjölni var Herdís Birna Hjaltalín í 3. sæti í flokki Junior.
Vetrarmót ÍSS
Helgina 1. - 3. nóvember var Vetrarmótið haldið á skautasvellinu í Egilshöllinni. Alls tóku 43 keppendur í 7 keppnisflokkum á mótinu, þar af átti Fjölnir 15 keppendur í 5 keppnisflokkum.
Keppendur stóðu sig vel en hæst bar að Aldís Kara Bergsdóttir bætti sitt eigið Íslandsmet í flokki Junior. Eftir Vetrarmótið er Fjölnir í öðru sæti í Bikarmótaröð ÍSS með 50 stig en SA er með 58 stig og SR með 48 stig.
Veittar voru þátttökuviðurkenningar fyrir keppnisflokka Chicks og Cubs. Úrslit í öðrum flokkum voru:
Basic Novice:
- Berglind Inga Benediktsdóttir - SA 25.27 stig
- Sædís Heba Guðmundsdóttir - SA 24.11 stig
- Sunna María Yngvadóttir - SR 23.74 stig
Intermediate Novice:
- Lena Rut Ásgeirsdóttir - Fjölnir 26.64 stig
- Tanja Rut Guðmundsdóttir - Fjölnir 24.91 stig
- Rakel Sara Kristinsdóttir - Fjölnir 21.28 stig
Intermediate Ladies:
- Þórunn Lovísa Löve - SR 33.88 stig
- Edda Steinþórsdóttir - SR 25.70 stig
- Anna Björk Benjamínsdóttir - SR 23.97 stig
Advanced Novice:
- Júlía Rós Viðarsdó2tir - SA 79.18 stig
- Rebekka Rós Ómarsdóttir - SR 74.10 stig
- Júlía Sylvía Gunnarsdóttir - Fjölnir 70.13 stig
Junior:
- Aldís Kara Bergsdóttir - SA 127.69 stig
- Marta María Jóhannsdóttir - SA 109.56 stig
- Viktoría Lind Björnsdóttir - SR 96.52 stig
Úrslit Kristalsmóts 2019
Síðasta laugardag var Kristalsmótið haldið á skautasvellinu í Egilshöllinni. Alls tóku 52 keppendur þátt í 12 keppnisflokkum á mótinu. Veitt voru þátttökuviðurkenningar fyrir hópa 8 og 10 ára og yngri. Úrslit í öðrum flokkum voru:
12 ára og yngri:
- Ágústa Ólafsdóttir - SR
- Íris María Ragnarsdóttir - Fjölni
- Arna Sigríður Gunnlaugsdóttir - SA
15 ára og yngri:
- Thelma Rós Gísladóttir - SR
- Bryndís Bjarkadóttir - SR
- Emilía Dögg Stefánsdóttir Steed - SR
17 ára og yngri:
- Vigdís Björg Einarsdóttir - Fjölni
- Ylfa Rán Hjaltadóttir - Fjölni
Level 1 11 ára og yngri:
- Hulda Björk Geirdal Helgadóttir - Öspin
Level 1 16-21 árs:
- Gunnhildur Brynja Bergsdóttir - Öspin
- Anika Rós Árnadóttir - Öspin
Level 2 16-21 árs:
- Nína Margrét Ingimarsdóttir - Öspin
- Gabríela Kamí Árnadóttir - Öspin
Level 2 12-15 ára:
- Sóldís Sara Haraldsdóttir - Öspin
Level 2 22 ára og eldri:
- Þórdís Erlingsdóttir - Öspin
Par Level 1:
- Gabríella Kami Árnadóttir og Nína Margrét Ingimarsdóttir - Öspin
2
Dagskrá og keppnisröð Kristalsmóts
Kristalsmótið verður haldið á skautasvellinu í Egilshöll laugardaginn 19. október frá kl. 7:20-13:40.
Hér má sjá dagskrá og keppnisröð mótsins.
Skráning á Kristalsmótið
Kristalsmótið verður haldið á skautasvellinu í Egilshöll helgina 19. - 20. október. Skráningu á mótið lýkur þann 11. október en allar upplýsingar um mótið má finna í mótstilkynningunni.
Ráðning skautaþjálfara
Svetlana Akhmerova hefur verið ráðin til að þjálfa framhaldshópa listhlaupadeildar Fjölnis. Hún kemur frá Rússlandi, er 42 ára og hefur 18 ára reynslu sem skautaþjálfari. Svetlana hefur starfað sem skautaþjálfari og yfirþjálfari og unnið með skauturum á ýmsu getustigi, allt frá byrjendum að lengra komnum skauturum. Hún hefur víðtæka reynslu sem skautaþjálfari og hefur starfað í Svíþjóð, Rússlandi, Suður Afríku, Indlandi og Íslandi. Svetlana er með skautaþjálfaramenntun frá Rússlandi. Hún tók þátt á ýmsum innlendum og alþjóðlegum mótum, var í landsliði Rússlands frá 1994-1996 og var nokkrum sinnum St. Petersburg meistari. Eftir að hún hætti keppni þá tók hún þátt í íssýningum í fjögur ár áður en hún snéri sér alfarið að skautaþjálfun.
Einnig er deildin búin að ráða Sif Stefánsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Hún er 24 ára og var skautaþjálfari hjá Öspinni síðastliðinn vetur og í sumar var hún að þjálfa í sumarbúðum Skautaskóla Fjölnis. Sif æfði skauta þegar hún var yngri og um tvítugt byrjaði hún aftur að æfa skauta eftir hlé. Hún hefur lokið almennu þjálfaranámskeiði hjá ÍSÍ, skyndihjálparnámskeiði Rauða Krossins og stundar jógakennaranám hjá Eden Yoga ásamt því að stunda nám við Myndlistaskólann í Reykjavík.
Skráningar á sumarnámskeið félagsins í fullum gangi
Skráningar á sumarnáskeið félagsins eru í fullum gangi.
Fjölbreytt úrval námskeiða er í boði hjá deildum félagsins. Sjá allar upplýsingar um námskeið HÉR.
Allar skráningar á námskeið og æfingar félagsins eru rafrænt í Nóra, skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/