Í síðustu viku héldu Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, skautari úr listskautadeild, ásamt þjálfara deildarinnar, Lorelei Murphy, til Ljubljana til þátttöku á Junior Grand Prix mótaröðinni sem fulltrúar Íslands. Þetta var í fyrsta skipti sem Júlía Sylvía tók þátt á mótaröðinni, en nokkrir íslenskir skautarar hafa tekið þátt á mótaröðinni, þar á meðal skautarar úr Birninum, en nokkur ár eru síðan okkar félag sendi fulltrúa til keppni.

Junior Grand Prix er mótaröð fyrir Junior skautara alls staðar að úr heiminum sem haldin er af Alþjóðaskautasambandinu, ISU. Á mótaröðinni safna skautarar stigum og að lokum keppa stigahæstu 6 keppendur í hverjum flokki til úrslita. Meira um mótaröðina má finna hér.

Á mótinu voru 31 keppandi í stúlknaflokki og á fimmtudeginum var keppt í stuttu prógrami þar sem Júlía var fimmtánda í röðinni. Í stuttu prógrami þurfa skautarar að sýna skylduæfingar. Júlíu skautaði gott stutt prógram og endaði með heildarstig upp á 28,56, þar af 12,30 í tæknieinkunn og 17,26 í framkvæmdareinkunn. Á laugardeginum var svo keppt í frjálsu prógrami og gekk Júlíu ágætlega, hún gerði góða snúninga og stökk tvöfalda Axelinn af miklu öryggi og má þess geta að lýsandi mótsins gaf Júlíu mörg hrós fyrir sína frammistöðu. Hún endaði með 56.39 í heildarstig fyrir frjálst prógram, þar af 23,69 í tæknieinkunn og 34,70 fyrir framkvæmd. Að keppni lokinni endaði Júlía með heildarstig fyrir bæði prógröm upp á 84.95 stig sem skilaði henni 28. sætinu. Júlía má vera sátt með sinn árangur á mótinu þrátt fyrir að vera aðeins frá sínu besta.

Júlía og Lorelei koma reynslunni ríkari heim eftir ferðina og erum við öll afar stolt yfir þátttöku Júlíu á mótinu.

#FélagiðOkkar