Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir er nýr formaður UMF Fjölnir, fyrst kvenna, en aðalfundur félagsins var haldinn þriðjudaginn þann 19. mars. Á aðalfund mættu hátt í fjörutíu manns þar sem áttu sér stað bæði líflegar og heitar umræður um starf íþróttafélaga í dag.

 
Hanna er Fjölnisfólki góðkunn en hún hefur setið í stjórnum fimleikadeildar, handknattleiksdeildar og frjálsíþróttadeildar, var formaður meistaraflokksráðs karla í handknattleiksdeild frá 2019-2024 auk þess sem hún var formaður fimleikadeildar frá 2010-2018 og formaður handknattleiksdeildar frá 2018-2019. Auk þess hefur hún átt sæti í aðalstjórn félagsins í rúm 10 ár þar af sem varaformaður frá árinu 2021 og tekur nú við kefli formanns.
 
Hanna tekur við formennsku af Jóni Karli Ólafssyni sem hefur gegnt hlutverki formanns síðan árið 2009 en hann hefur setið í stjórn félagsins í hátt í tuttugu ár.
 
Fjölnir þakkar fráfarandi formanni fyrir ómetanlegt starf í gegnum árin og óskar nýjum formanni til hamingju og velfarnaðar í starfi.