Silfurmerkjahafar Karatedeildar

Það var sérlega ánægjulegt að veita þeim sem láta starf deildarinnar ganga Silfurmerki Fjölnis. Þetta eru einstaklingarnir sem vinna óeigingjarnt starf svo að iðkendur og aðstandendur þeirra geti notið íþróttarinnar.

 

Sif Ólafsdóttir

Sif Ólafsdóttir,  það eru ekki margir sem hafa unnið jafn ósérhlífið starf fyrir hönd karatedeildarinnar. Sif hefur tekist á við sum af erfiðari verkefnum deildarinnar frá því hún kom til starfa.  Hún er til dæmis burðarstoð í starfi deildarinnar innan Karatesambands Íslands. Þar sem varla er haldin keppni hjá Karatesambandinu öðruvísi en að Sif leggi þar hönd á plóg.

En hún hefur svo sem ekki látið þar við sitja heldur hefur hún einnig lagt deildinni til iðkendur úr fjölskyldunni. Sif er nefnilega þessi dæmigerða karatemamma sem tók deildina upp á arma sér og hefur svo haldið áfram að hjálpa deildinni sem stjórnarkona löngu eftir að börnin hennar hættu æfingum. Félög og deildir eins og okkar ganga ekki án fólks eins og Sifjar sem leggja sitt af mörkum langt umfram það gera má ráð fyrir.

 

 

 

 

 

Ester Hlíðar Jensen

Esther Hlíðar Jensen – það eru kannski ekki margar íþróttir þar sem foreldrar elta börnin inn í íþróttina og fara að æfa samhliða þeim. En það gerði Esther með sanni og svo þegar sonurinn heltust úr lestinni hélt hún áfram að æfa og hefur nú auk þess um fimm ára skeið lagt félaginu lið sem gjaldkeri deildarinnar og stjórnarmanneskja.

Á þeim tíma hefur deildin verið með fyrirmyndarrekstur og náð þeim fjárhagslegu markmiðum sem sett hafa verið þrátt fyrir að á ýmsu hafi gengið á þeim tíma.

Hún hefur jafnframt náð að verða sér úti um 2. dan í svartbeltisgráðun og dómararéttindi í karate. Esther er ómissandi fyrir starfsemi karatedeildarinnar.

 

 

 

 

 

 

Fyrir hönd Sigríðar Þórdísar Pétursdóttur

SIgríður Þórdís Pétursdóttir hefur starfað við karatedeildina síðan 2014 og þjálfar nú unglinga og fullorðna í framhaldshópum.

Sigríður hefur æft karate hjá Fjölni síðan hún var örlítil písl árið 2006 en er nú með 2. dan svart belti auk dómararéttinda.

Hún átti langan og farsælan keppnisferil og varð m.a. Íslandsmeistari í kata. Hún hefur lokið 1. og 2. stigi þjálfararéttinda frá ÍSÍ og stundar nú nám við Háskóla Íslands í sjúkraþjálfunarfræðum.

Það leynist engum að hjarta Siggu slær fyrir velgengni og vellíðan iðkenda karatedeildarinnar, við hin finnum það glögglega.

Á myndinni tekur yfirþjálfari deildarinnar Willem Verheul við silfurmerkinu fyrir hönd Sigríðar sem ekki átti heimangengt.

 

 

 

 

Páll Haraldsson

Páll Haraldsson, er einn af þeim sem hefur lengi verið til fyrirmyndar innan félagsins sem og innan karateíþróttarinnar. Hann hóf æfingar hjá Fjölni árið 2007 og hefur síðan verið óslitið að æfingum og störfum hjá félaginu.

Hann komst í afrekshóp þegar hann hafði aldur til og keppti með góðum árangri fyrir hönd Fjölnis á fjölda móta. Eftir að keppnisferli lauk hefur Páll margsinnis tekið að sér starf liðsstjóra Fjölnis á mótum.  Hann tók jafnframt að sér þjálfun árið 2016 og er nú vinsæll þjálfari og stuðningsmaður keppenda á mótum.

Heimspeki karateíþróttarinnar kveður á um að iðkendum beri að gefa til baka til félagsins og Páll er þar til fyrirmyndar. Hann hefur lokið 2. Dan gráðun fyrir svart belti og eftir 15 ára starf með Fjölni sér engan bilbug á honum.