Upphitun: Fjölnir – KA

Pepsi Max deild karla
17. umferð
Fjölnir – KA
Laugardaginn 19. september kl. 14:00 á Extra vellinum

Leiðin var löng frá Seltjarnarnesi í Grafarvog eftir 2-2 jafntefli Fjölnis og Gróttu síðastliðið mánudagskvöld. Fjölnir er með fimm stig á botni deildairnnar, níu stigum frá þeim þremur liðum sem eru í næstu sætum fyrir ofan fallsvæðið. KA situr í níunda sæti deildarinnar, með betri markatölu en ÍA en lakari en Víkingur. Leik Fjölnis og KA í fyrri umferðinni lauk með 1-1 jafntefli. Báðar fyrri viðureignir liðanna í efstu deild í Grafarvogi hafa endað með jafntefli. Nánar er vikið að fyrri viðureignum liðanna og tengingum á milli félaganna í upphitunarpistli fyrir leik liðanna í sumar.

KA er það lið í deildinni sem hefur náð í fæst stig á útivelli í sumar. Aftur á móti er Fjölnir með lakasta heimavallarárangur A-deildarliða það sem af er móti. Ekkert lið hefur skorað færri mörk í sumar en KA og ekkert fengið lið fengið á sig fleiri mörk en Fjölnir. Ekkert annað lið en FH og Stjarnan hefur fengið á sig færri mörk en KA í sumar. Af fjórtán stigum KA í sumar hafa átta þeirra komið með jafnteflum. Öll fimm stig Fjölnis í sumar hafa fengist með jafnteflum.

Guðmundur Karl Guðmundsson afplánaði leikbann í síðasta leik og reikna má með því að hann komi aftur inn í liðið. Nicklas Halse lék sinn fyrsta leik fyrir Fjölni gegn Gróttu. Jeffery Monakana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Fjölni á laugardag.

Útlitið er ekki bjart sem stendur en á meðan möguleiki er fyrri hendi á að halda sætinu í deildinni má ekki leggja árar í bát.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

 

Grétar Atli Davíðsson