Íþróttakona Fjölnis 2023 - Helga Þóra Sigurjónsdóttir

Uppskeruhátið Fjölnis fór fram í kvöld, þann 13. desember. Hún Helga Þóra Sigurjónsdóttir hlaut titilinn Íþróttakona ársins 2023. Helga er með bestu hástökkvurum á landinu í kvennaflokki. Hennar besta afrek árið 2023 er stökk upp 1,77 m á Stökkmóti FH og Meistaramóti Íslands utanhúss, en sá árangur skilaði henni Íslandsmeistaratitli og er annar besti árangur konu utanhúss á árinu og jöfnun á besta árangri innanhúss. Jafnframt er þetta 8. besti árangur sem íslensk kona hefur stokkið. Sá árangur gefur 994 WA stig sem er frábær árangur.

Við óskum Helgu Þóru innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Mynd: Baldvin Berndsen


Íþróttakarl Fjölnis 2023 - Gabríel Sigurður Pálmason

Uppskeruhátið Fjölnis fór fram þann 13. desember að viðstöddum stórum hópi íþrótta- og stuðningfólks. Stóru fréttirnar voru þar að okkar maður, Gabríel Sigurður Pálmason afreksmaður hjá Karatedeild Fjölnis var valinn íþróttakarl ársins. Það var sérlega ánægjulegt að sjá Gabríel hljóta þessa viðurkenningu fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í undanfarin ár. En á meðal sigra hans árið 2023 voru Íslandsmeistaratitill í kata, ásamt fjölda verðlauna sem hann hlaut á hinum ýmsu mótum innanlands og utan.

Við óskum Gabríel innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Mynd: Kristján U Kristjánsson.


Framtíðar frjálsíþróttastjörnur á Jólamóti Fjölnis

Jólamót frjálsíþróttadeildar Fjölnis var haldið á dögunum í Laugardalshöll. Mótið er haldið á ári hverju í desember fyrir yngstu iðkendur í frjálsum. Krakkarnir léku á als oddi og spreyttu sig í 60m spretthlaupi, langstökki, skutlukasti, grindaboðhlaupi, þrístökki og 200m hlaupi. Árangurinn lét ekki á sér standa og ljóst er að Fjölnir á stóran hóp af efnilegum frjálsíþróttakrökkum.

Þjálfarar hópsins hafa lagt áherslu á að byggja upp alhliða íþróttakrakka sem njóta þess að hreyfa sig og mæta á æfingar og hefur tekist vel til. Að mótinu loknu fengu allir keppendur verðlaunapening og viðurkenningarskjal fyrir frábæran árangur.