Knattspyrnudeild Fjölnis samdi í vikunni við þrjá unga og efnilega Fjölnismenn sem eru að ganga upp úr 2. flokki félagsins.

Daníel Smári Sigurðsson (2003) er kröftugur hafsent sem síðastliðin tvö tímabil hefur verið á láni hjá Vængjum Júpíters og fengið dýrmæta reynslu í meistaraflokki þar sem hann meðal annars fór upp úr 4. deild með Vængina sumarið 2021. Ásamt því að spila með Vængjunum hefur Daníel verið lykilmaður í sterku 2. flokks liði Fjölnis sem vann Íslandsmeistaratitillinn á þessu sumri. Á lokahófi Vængja og 2. flokks var Daníel valinn Besti Leikmaðurinn í bæði Vængjum og 2. flokki.

Arnar Ragnar Guðjohnsen (2003) er vinstri bakvörður sem kom til baka í ár eftir erfið hnémeiðsli árið 2021. Arnar stimplaði sig strax inn í 2. flokkinn sem lykilleikmaður í liðinu sem landaði Íslandsmeistaratitlinum ásamt því að vera á láni hjá Vængjum Júpíters þar sem hann spilaði 8 leiki og skoraði 4 mörk!

Sölvi Sigmarsson (2003) er leikinn miðjumaður sem lenti í slæmum meiðslum í sumar en fram að því var hann lykilmaður í 2. flokks liði Fjölnis ásamt því að vera á láni hjá Vængjum Júpíters í 3. deildinni þar sem Sölvi spilaði stórt hlutverk með þeim. Sölvi er búinn að sinna endurhæfingunni vel og fagnar knattspyrnudeildin því að hann er kominn aftur á ról og byrjaður að æfa á fullu eftir meiðslin.

Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við að þessir leikmenn taki skrefið upp í meistaraflokk félagsins á komandi árum og eigi bjarta framtíð hjá félaginu.

#FélagiðOkkar