Stjórn knattspyrnudeildar Fjölnis hefur samið við Magnús Hauk Harðarson að taka við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fjölni á nýju tímabili. Þeir Júlíus Ármann Júlíusson og Theódór Sveinjónsson munu klára tímabilið með liðinu en undir þeirra stjórn fór Fjölnir upp úr 2.deild yfir í Lengjudeildina. Einnig hafa þeir félagar verið öflugir yngri flokks þjálfarar hjá félaginu og hefur gengið vel hjá U20/2.flokki kvenna undir þeirra stjórn. Fjölnir þakkar þeim fyrir störf sín fyrir meistaraflokkinn.

Magnús Haukur er í dag þjálfari hjá Val ásamt því að vera annar af tveimur þjálfurum meistaraflokksliðis KH. Þá er Magnús vel kunnugur starfi innan Fjölnis, hann byrjaði sinn þjálfaraferil þar sem barna- og unglingaþjálfari og hefur áður komið að meistaraflokk kvenna hjá félaginu sem einn af aðstoðarþjálfurum. Frá Fjölni fór Magnús yfir til FH og frá FH lá leið Magnúsar yfir til Vals ásamt því að vera í þjálfarateymi KH.

Fjölnir býður Magnús velkominn til félagsins og hlakkar til samstarfsins.