Höfundur starfar sem markaðsfulltrúi Fjölnis.

Kæru Grafarvogsbúar,

Mig langar að segja ykkur frá frábærum viðburði sem við munum standa fyrir laugardaginn 28. nóvember. Fyrst ætla ég aðeins að þræða söguna.

Það er eflaust sagan endalausa að íþróttafélög þurfi að leita til fólksins í hverfinu. Starfið stendur og fellur með dulegum sjálfboðaliðum hvort sem er í stjórnar- og/eða nefndarstörfum eða þjálfun barnanna okkar. Foreldrar eru svo annar angi en öflugt foreldrastarf skilar sér beint til iðkenda. En í þessu starfi myndast einnig mikil vinátta, alveg eins og gerist í skóla eða vinnu. Það er því gríðarlega dýrmætt að gefa af sér til hverfisfélagsins.

Ég er uppalinn Grafarvogsbúi og Fjölnismaður, í húð og hár og geri mér grein fyrir að það eru ekki allir sem dýrka og dá hverfisfélagið eða hafa áhuga á að koma að starfinu öðruvísi en að vera foreldri eða einfaldlega íbúi í hverfinu. Enn fremur reyni ég eftir fremsta megni að virða afstöðu þeirra sem hafa engan áhuga á starfi hverfisfélagsins en það er oft erfitt að hugsa út fyrir íþróttabúbbluna 😅😅

Nú sjáum við vonandi fyrir endann á veirunni og það er mjög gleðilegt að starfið sé farið af stað, þó ekki að fullu. Það skiptir bara öllu máli að sjá líf og fjör í Egilshöll og Dalhúsum og þannig viljum við hafa það.

———————

Ef við komum okkur svo að tilgangi og markmiði færslunnar þá höfum við seinustu 2 ár lagt mikið upp úr því að nýta tæknina, kynna félagið vel á miðlunum okkar og láta hverfið vita hvað sé á döfinni. Við erum stórt og flott hverfi sem hefur allar burði til að vera hverfi sem styður óendanlega vel við hverfisfélagið sitt, hvort sem er í formi sjálboðaliða, foreldra, iðkenda eða áhorfenda á leikjum, mótum og viðburðum.

Þorrablótið hefur fest sig rækilega í sessi og við getum hreinlega ekki beðið eftir því að hitta ykkur í troðfullum sal í stanslausu stuði. Í framhaldi af árangri þorrablótsins höfum við verið að byggja upp októberfest sem annan af stóru viðburðum félagsins ár hvert. Við gerum okkur grein fyrir því að það mun taka tíma og í ár erum við að standa frammi fyrir stærstu mögulegu hindrun, þ.e við getum ekki haldið fisískan viðburð. Það tókst mjög vel til í fyrra, sem var fyrsta útgáfan af svokölluðu októberfesti. Þetta er viðburður sem hefur alla möguleika til að sameina hverfið, sannkallaður hverfisviðburður. Frábær matur, góð tónlist og stanslaust stuð! Við getum ekki beðið um meira, eða hvað?

Ég vil með þessari færslu hvetja ykkur, kæru Grafarvogsbúar, til að kaupa miða á rafræna októberfestið okkar og styðja við áframhaldandi öflugt starf hverfisfélagsins.

Innifalið í 5.000 kr miðaverði á mann er:

  • Matur heim að dyrum frá Múlakaffi
  • Beint streymi frá frábærum tónleikum með Magna í Á móti sól og fleiri frábærum tónlistarmönnum

Allt fyrir #FélagiðOkkar 💛
Arnór Ásgeirsson