Hvað er körfuboltalið án leikmanna?
Frekar augljóst svarið; það væri náttúrulega ekkert lið. Kjánaleg spurning í raun.

En hvað er körfuboltadeild án sjálfboðaliða?
Það er aftur á móti spurning sem ekkert alltof margir gera sér grein fyrir vægi svarsins. Ef ekki væri fyrir fólkið sem gefur deildinni þessa nokkra auka klukkutíma á viku, sem annars færu í Netflix, símann eða annan dauðan tíma, þá væri lítið sem ekkert starf á lífi.

Það er þessu fólki að þakka að áhorfandinn fái sem bestu upplifunina á leikjum, þeim að þakka að bestu leikmenn landsins sæki í að koma til liðs við klúbbinn vegna hve allt gengur smurt, þeim að þakka að foreldrar vilja halda barninu sínu í íþróttinni því það er alltaf fundin lausn á málunum.

Þetta fólk er í raun mikilvægustu hlekkirnir í fjölbreyttu starfi körfuboltadeildarinnar og biðja aldrei um viðurkenningu eða laun fyrir starfið sitt. Þau passa að við fáum strax myndir á netið frá leik dagsins, sjá til þess að það sé heitt á könnunni á hverjum viðburði sem áhorfandinn mætir á, sjá til þess að allt skipulag á fjölliðamótum gangi smurlaust fyrir sig, sjá til þess að aðstandendur lengra frá geti horft á leikina beint í gegnum netið, sem sjá til þess að ráða bestu þjálfarana fyrir börnin okkar.

Ef ekki væri fyrir sjálfboðaliðann þá væri ekkert körfuboltastarf, og þá eigum við ekkert lið í Domino’s deildinni eða blómlegt yngri flokka starf sem hægt er að státa sig af.

Tveir klukkutímar á viku hljóma kannski ekki eins og langur tími fyrir venjulega manneskju, en fyrir körfuboltadeildina eru það dýrmætir tveir tímar uppá að allir sem koma að starfinu, eða viðburðinum, beint eða óbeint, njóta góðs af. Við eigum öll til að mikla fyrir okkur verkefni sem eru fyrir framan okkur. Byrja að mæta í ræktina eftir pásu, taka til í geymslunni, mála pallinn, eða byrja heimildarvinnu fyrir ritgerðina, en lykillinn er eins og í öllu að rífa sig bara af stað.

Hér með er þá áskorun, á þig sem lest þetta, að taka bara af skarið og verða hluti af mikilvægasta hlekknum í körfuboltadeildinni. Svo skemmir ekki fyrir hvað þetta er góður félagsskapur.

Sendu tölvupóst, eða hafðu samband í gegnum Facebook síðu okkar. Við hlökkum til að heyra frá þér.

Áfram Fjölnir – alltaf, allstaðar.