Dagur Ragnarsson valinn í landsliðshópinn

Skákmaðurinn efnilegi, Dagur Ragnarsson (2388)  Fjölni fær eldskírn sína með landsliði Íslands á komandi Evrópumóti landsliða í skák sem fram fer í Batuni í Georgíu nú í október. Dagur er einn fjölmargra afreksnemenda Rimaskóla í gengum árin en áður höfðu þau Hjörvar Steinn Grétarsson stigahæsti skákmaður Íslands, Hrund Hauksdóttir og  Nansý Davíðsdóttir fv. nemendur Rimaskóla teflt með landsliði Íslands. Dagur Ragnarsson hefur verið afar virkur við skákborðið undanfarin tvö ár og siglt hratt upp ELO stigalistann. Hann vakti mikla athygli í fyrra þegar hann sigraði á aljóðlega skákmótinu í Västerås í Sviþjóð ásamt stórmeistaranum Yuri Solodovini (2554) og síðar á Reykjavík Open 2019 þegar hann sigraði m.a. stórmeistarann Matthien Cornette. Frammistaða og árangur Dags og nú val í landsliðið er enn ein skrautfjöðrin í skákstarfi Fjölnis í Grafarvogi.  (HÁ)


Skákæfingar Fjölnis hefjast 26. september

Hinar vinsælu skákæfingar Skákdeildar Fjölnis hefjast að nýju fimmtudaginn 26. september. Æfingarnar eru ókeypis og fara fram í Rimaskóla þar sem gengið er inn um íþróttahús skólans. Skákæfingarnar hefjast kl. 16:30 og standa yfir til kl. 18:00. Allir áhugasamir skákkrakkar í Grafarvogi eru hvattir til að mæta, æfa sig í skáklistinni og njóta skemmtilegra æfinga sem enda á verðlaunahátíð. Boðið er upp á veitingar í skákhléi. Skákdeildin vill taka fram að skákæfingarnar eru fyrir þá grunnskólanemendur sem hafa náð tökum á skákíþróttinni og geta teflt sér til ánægju. Skákkennsla er í boði í flestum grunnskólum Grafarvogs og þar fá börnin kennslu í grunnatriðum skákarinnar. Umsjón með skákæfingum í vetur hefur sem fyrr Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis (skak@fjolnir.is). Honum til aðstoðar verða ungir skáksnillingar sem æft hafa með Fjölni í langan tíma. Skák er skemmtileg verður áfram kjörorð Skákdeildar Fjölnis.


Helgi Árnason fær fálkaorðuna

Helgi Árnason, formaður Skákdeildar Fjölnis og skólastjóri Rimaskóla, fékk afhenta fálkaorðuna, ridd­ara­kross úr hendi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar  fyr­ir störf á vett­vangi skóla og skák­list­ar. Athöfnin fór fram að Bessastöðum á þjóðahátíðardaginn 17. júní. Helgi hefur gegnt formennsku í Skákdeild Fjölnis frá stofnun deildarinnar árið 2004 og eflt starfsemina ár frá ári þannig að Fjölnir er í hópi þriggja sterkustu skákfélaga landsins. Helgi er því að mati skákmanna vel að þessum heiðri kominn. Hann hefur jafnhliða byggt upp afar öflugt skákstarf í Rimaskóla en skáksveitir skólans hafa m.a. unnið Norðurlandameistaratitil barna-og grunnskólasveita í sex skipti og mun það vera einsdæmi á Norðurlöndum. Úr Rimaskóla hafa komið sterkir skákmenn eins og Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistariDagur Ragnarsson alþjóðlegur meistariOliver Aron Jóhannesson FIDE meistari og Nansý Davíðsdóttir landsliðskona í skák. Helgi hefur ávallt verið virkur skákhreyfingunni og sat samfellt í Stjórn Skáksambands Íslands í 10 ár og Skákakademíu Reykjavíkur frá stofnun árið 2008. Á 30 ára afmæli Fjölnis í febrúar 2018 var Helgi Árnason sæmdur gullmerki Fjölnis.

Við óskum Helga Árnasyni innilega til hamingju með þessa heiðursveitingu.

 


Skráningar á sumarnámskeið félagsins í fullum gangi

Skráningar á sumarnáskeið félagsins eru í fullum gangi.

Fjölbreytt úrval námskeiða er í boði hjá deildum félagsins.  Sjá allar upplýsingar um námskeið HÉR.

Allar skráningar á námskeið og æfingar félagsins eru rafrænt í Nóra, skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/

 


Sumargleði á sumarskákmóti Fjölnis

Vignir Vatnar Stefánsson stigahæsti skákmaður Íslands 20 ára og yngri sigraði alla sína andstæðinga á Sumarskákmóti Fjölnis sem fram fór í hátíðarsal Rimaskóla. Batel Haile Goitom varð efst stúlkna og Markús Orri Jóhannsson efstur í yngri flokki. Vignir Vatnar sem kemur frá Hörðuvallaskóla í Kópavogi hefur allan sinn grunnskólaferil verið tíður gestur á skákmótum Fjölnis og ekki síður sigursæll. Það mættu alls 56 grunnskólakrakkar á þetta glæsilega mót, um helmingur úr grunnskólum Grafarvogs. Meðal verðlaunahafa úr Grafarvogi voru þeir Arnar Gauti Bjarkason Vættaskóla, Eiríkur Emil Hákonarson Húsaskóla, Jón Bjarni Margrétarson Hamraskóla og Rimaskóladrengirnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunlaugsson og Arnar Gauti Helgason.

Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf alla verðlaunabikara mótsins líkt og áður.

Sumarskákmótið var vel sótt að venju og hart barist um 20 efstu sætin sem gáfu áhugaverða vinninga frá Dominos, SAMbíóunum og 66° N. Skákmótið gekk afar vel fyrir sig enda flestir þátttakendurnir með reynslu af grunnskólamótum vetrarins. Teflt var í rúmgóðum hátíðarsal Rimaskóla en á milli umferða nýttu krakkarnir sér að leika í fjölbreyttum leiktækjum félagsmiðstöðvarinnar og skemmtu sér vel. Skákstjórar voru þeir Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og Páll Sigurðsson.

Auk 20 vinninga var boðið upp á happdrætti þar sem 10 vinningar bættust við. Vinningslíkurnar því 50% sem gerist vart betra.

 

Mynd 1:  Í hópi verðlaunahafa á Sumarskákmóti Fjölnis; Batel 1. sæti stúlkna og Arnar Gauti 2. sæti í yngri flokk

Mynd 2:  Þau unnu Rótarýbikarana: Batel, Markús Orri og Vignir Vatnar ásamt Helga Árnasyni formanni skákdeildar Fjölnis

Mynd 3:  Um 20 stúlkur tóku þátt í mótinu og gáfu strákunum ekkert eftir


Skákdeildin verðlaunaði Joshua og Aron Örn

Á sumarskákmóti Fjölnis 2019 var kunngjört hverjir hlytu nafnbótina „Afreksmeistari Fjölnis“ og „Æfingameistari Fjölnis“ tímabilið 2018 – 2019.

Fyrir valinu að þessu sinni urðu þeir Joshua Davíðsson afreksmeistari og Aron Örn Scheving Hlynsson æfingameistari.

Joshua tefldi á 1. borði skáksveit Rimaskóla sem náði 2. sæti á Íslandsmóti grunnskólasveita 2019 og hann varð í 2. sæti í flokki 1600 ELÓ á alþjóðlegu skákmóti í Västerås í Svíþjóð svo að eitthvað sé nefnt af skákafrekum hans í vetur.

Aron Örn teflir einnig með skáksveitum Rimaskóla og er í hópi afar efnilegra 5. bekkinga sem mæta nánast á allar skákæfingar og skákmót sem í boði eru.


Sumarskákmót Fjölnis

Sumarskákmót Fjölnis í Rimaskóla laugardaginn 11.maí

 

Hið árlega sumarskákmót Fjölnis fer fram í hátíðarsal Rimaskóla laugardaginn 11.maí og hefst kl. 11:00. Mótinu lýkur með verðlaunahátíð og happdrætti kl. 13:15.

Keppt er um verðlaunagripi sem Rótarýklúbbur Grafarvogs gefur til mótsins og fjölda áhugaverðra vinninga; pítsur, bíómiða og 66°N húfur.

Mótið er ætlað öllum grunnskólabörnum og er þátttakan ókeypis.

Þátttakendum er bent á að mæta tímanlega til skráningar, 10 – 15 mínútum fyrir mót.

Tefldar verða 6 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.

Í skákhléi býðst þátttakendum og foreldrum að kaupa veitingar á 250 kr, drykkur, prins póló og kex.

Skákmót Fjölnis eru skemmtileg og allar aðstæður á keppnisstað einstaklega góðar fyrir keppendur og foreldra.

Fjölmennum á síðasta skákmót skólaársins. Mætum í Rimaskóla 11.maí kl. 11:00.


Fjölnismenn í 3.sæti

Skákdeild Fjölnis virðist föst í viðjum vanans og sogast að bronsinu þegar dregur að lokum 1. deildar undanfarin ár. Fjórða árið í röð náði skáksveitin 3. sæti sem gefur rétt á þátttöku á EM skákfélaga í Svartfjallalandi í haust.

A sveitin var í baráttu um Íslandsméistaratitilinn allt Íslandsmótið. Vermdi 1. sætið eftir fyrri hlutann og endaði í því þriðja með 50 vinninga af 72 mögulegum, 3 vinningum minna en sigurliðið.

Sem fyrr býr liðstjórinn við þau forréttindi að geta stólað á sömu átta skákmennina á að tefla allar skákirnar. Þetta gagnast okkar ágætu mótherjum líka. Þeir geta þá stúderað andstæðinginn þegar komið er að því að mæta Fjölni. Ekkert pukur eða óþolandi óvissa þar að hálfu Fjölnis. Eins og áður sagði hefur A sveitin aldrei náð eins góðum árangri og einmitt núna. Eftirspurnin er meiri en framboðið á að tefla í A sveitinni. Þetta á ekki síst við okkar ágætu erlendu félaga sem óðir og uppvægir vilja eyða helgi í hópi Fjölnismanna. Þeir sýna það og sanna með góðri og árangursríkri taflmennsku þegar tækifærið býðst þeim. Vinningshlutfall 70 % er hærra en hægt var að búast við í upphafi móts. Samstaða og liðsandi er hins vegar 100 % frá fyrsta borði til þess áttunda.

Það var ánægjulegur bónus fyrir okkar sveit að Davíð Kjartansson, einn af okkar lykilmönnum, skyldi ná lokaáfanga að IM titli.

Dagur Ragnarsson (21) heldur áfram að sýna gífurlegar framfarir líkt og á öllum mótum vetrarins, framtíðarmaður í hugum okkar íslenskra skákáhugamanna. Svíinn Pontus Carlsson tefldi með Fjölni í öllum umferðum og skilaði 7 vinningum í hús sem er frábær árangur á 2. borði. Davíð, Dagur og Sigurbjörn náðu allir 6,5 vinningum og sá síðastnefndi með 87,5 % árangur í síðari lotunni gegn erfiðari andstæðingum en í þeirri fyrri.

Árangur A sveitar Fjölnis í 1. deildinni og draumsýn okkar um Íslandsbikarinn í Grafarvoginn í nánustu framtíð gæti orðið að veruleika.

B sveit Fjölnis skráði árangur sinn einnig á spjöld Fjölnis "sögunnar". B sveitin hélt sæti sínu í 2. deild í fyrsta sinn og teflir á næstu leiktíð í þriðja skipti á fjórum árum í deildinni. Með þá Tómas Björnsson, Jón Árna Halldórsson (3/3) og Erling Þorsteinsson á efstu borðum fá uppalin Fjölnisungmenni tækifæri á að tefla við sterka andstæðinga í hverri umferð og kunna eflaust gott að meta. Jóhann Arnar Finnsson yngsti liðsmaður sveitarinnar kom taplaus frá mótinu og fékk 5 vinninga af 7 sem er mjög góður árangur.

C- og ungmennasveit Fjölnis tefldu í 4. deild. Þær eru að mestu skipaðar áhugasömum grunnskólakrökkum úr Grafarvogi. Arnór Gunnlaugsson í 8. bekk Rimaskóla stóð sig adeilis vel. Hann tefldi 6 skákir með C sveit og vann þær allar.

Síðast en ekki síst ber að nefna árangur hinnar 6 ára gömlu Emilíu Emblu B. Berglindardóttur sem tefldi sínar tvær fyrstu skákir á Íslandsmóti skákfélaga og stimplaði sig rækilega inn með öruggum sigri í báðum skákunum. Þessi kornunga Rimaskólastúlka hefur vakið athygli á grunnskólamótum vetrarins fyrir þroskaða taflmennsku og kemur sér upp stöðu "sem hver stórmeistari gæti verið stoltur af" eins og einn af framámönnum í skáklífinu orðaði það eftir að hafa fylgst með stúlkunni ungu.


Fullt hús á TORG skákmóti Fjölnis

Það mættu 80 efnilegir skákkrakkar á öllum grunnskólaaldri á TORG skákmót Fjölnis í Rimaskóla á Skákdegi Íslands 2019. Tefldar voru sex umferðir og keppnin jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Verðlaunað var í þremur flokkum; eldri flokki, yngri flokki og stúlknaflokki. Sigurvegarinn reyndist vera Kristján Dagur Jónsson TR sem hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Sara Sólveig Lis skákdeild Fjölnis sigraði í stúlknaflokki. Meðal efstu manna á mótinu voru Fjölnis strákarnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunnlaugsson og Anton Breki Óskarsson, bekkjarbræður í Rimaskóla, allir með 5 vinninga.

Í upphafi mótsins ávarpaði borgarfulltrúinn og Grafravogsbúinn Valgerður Sigurðardóttir keppendur og lýsti ánægju sinni með hið öfluga skákstarf Fjölnis og sagðist stolt af því að fá að leika fyrsta leikinn á þessu glæsilega skákmóti. Valgerður lék síðan fyrsta leikinn fyrir hina bráðefnilegu Emilíu Emblu Baldvins-og Berglindardóttur sem er aðeins 6 ára gömul, nemandi í Rimaskóla, og var í afrekshópi Omar Salama á Laufásborg sl. vetur.

Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar frá Hagkaup og Emmess ís. Gífurlegt verðlaunaflóð skall á að loknu móti, alls 43 talsins. Hagkaup, Pizzan, Emmess, Disney-klúbburinn og fyrirtækin Bókabúðin, Blómabúðin,CoCo´s og Smíðabær við Hverafold gáfu vinningana sem voru flottir og fjölbreyttir. Fjölmargir foreldrar fylgdust með af áhuga, fengu sér kaffi og kökur og gátu haft það huggulegt í félagsmiðstöðinni.


Grunnskólabörnum boðið á skákmót

TORG skákmót Fjölnis verður haldið á Skákdegi Íslands 26. janúar, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar
Ókeypis þátttaka - ókeypis veitingar - 40 verðlaun

TORG skákmót Fjölnis verður haldið í 14. sinn og hefst kl. 11:00 laugardaginn 26. janúar í Rimaskóla Grafarvogi og lýkur kl. 13:15.

Þetta er tilvalið skákmót fyrir alla áhugasama skákkrakka í Grafravogi.
TORG skákmótið er einkar vinsælt og opið öllum grunnskólakrökkum. Tefldar 6 umferðir.
Það eru Hagkaup Spönginni, Emmess ís, Disney, Pizzan, Bókabúð Grafravogs, CoCo´s, RS blóm, fyrirtækin á Torginu Hverafold, sem gefa allt að 40 áhugaverð verðlaun.
Allir þátttakendur fá fríar veitingar frá Hagkaupum og Emmess ís. Foreldrar geta keypt sér kaffi og kexkökur á vægu verði.

Nú er bara að taka tímann frá strax og mæta tímanlega til skráningar annan laugardag, 26. janúar 2019.