Fjölnismenn í 3.sæti

Skákdeild Fjölnis virðist föst í viðjum vanans og sogast að bronsinu þegar dregur að lokum 1. deildar undanfarin ár. Fjórða árið í röð náði skáksveitin 3. sæti sem gefur rétt á þátttöku á EM skákfélaga í Svartfjallalandi í haust.

A sveitin var í baráttu um Íslandsméistaratitilinn allt Íslandsmótið. Vermdi 1. sætið eftir fyrri hlutann og endaði í því þriðja með 50 vinninga af 72 mögulegum, 3 vinningum minna en sigurliðið.

Sem fyrr býr liðstjórinn við þau forréttindi að geta stólað á sömu átta skákmennina á að tefla allar skákirnar. Þetta gagnast okkar ágætu mótherjum líka. Þeir geta þá stúderað andstæðinginn þegar komið er að því að mæta Fjölni. Ekkert pukur eða óþolandi óvissa þar að hálfu Fjölnis. Eins og áður sagði hefur A sveitin aldrei náð eins góðum árangri og einmitt núna. Eftirspurnin er meiri en framboðið á að tefla í A sveitinni. Þetta á ekki síst við okkar ágætu erlendu félaga sem óðir og uppvægir vilja eyða helgi í hópi Fjölnismanna. Þeir sýna það og sanna með góðri og árangursríkri taflmennsku þegar tækifærið býðst þeim. Vinningshlutfall 70 % er hærra en hægt var að búast við í upphafi móts. Samstaða og liðsandi er hins vegar 100 % frá fyrsta borði til þess áttunda.

Það var ánægjulegur bónus fyrir okkar sveit að Davíð Kjartansson, einn af okkar lykilmönnum, skyldi ná lokaáfanga að IM titli.

Dagur Ragnarsson (21) heldur áfram að sýna gífurlegar framfarir líkt og á öllum mótum vetrarins, framtíðarmaður í hugum okkar íslenskra skákáhugamanna. Svíinn Pontus Carlsson tefldi með Fjölni í öllum umferðum og skilaði 7 vinningum í hús sem er frábær árangur á 2. borði. Davíð, Dagur og Sigurbjörn náðu allir 6,5 vinningum og sá síðastnefndi með 87,5 % árangur í síðari lotunni gegn erfiðari andstæðingum en í þeirri fyrri.

Árangur A sveitar Fjölnis í 1. deildinni og draumsýn okkar um Íslandsbikarinn í Grafarvoginn í nánustu framtíð gæti orðið að veruleika.

B sveit Fjölnis skráði árangur sinn einnig á spjöld Fjölnis "sögunnar". B sveitin hélt sæti sínu í 2. deild í fyrsta sinn og teflir á næstu leiktíð í þriðja skipti á fjórum árum í deildinni. Með þá Tómas Björnsson, Jón Árna Halldórsson (3/3) og Erling Þorsteinsson á efstu borðum fá uppalin Fjölnisungmenni tækifæri á að tefla við sterka andstæðinga í hverri umferð og kunna eflaust gott að meta. Jóhann Arnar Finnsson yngsti liðsmaður sveitarinnar kom taplaus frá mótinu og fékk 5 vinninga af 7 sem er mjög góður árangur.

C- og ungmennasveit Fjölnis tefldu í 4. deild. Þær eru að mestu skipaðar áhugasömum grunnskólakrökkum úr Grafarvogi. Arnór Gunnlaugsson í 8. bekk Rimaskóla stóð sig adeilis vel. Hann tefldi 6 skákir með C sveit og vann þær allar.

Síðast en ekki síst ber að nefna árangur hinnar 6 ára gömlu Emilíu Emblu B. Berglindardóttur sem tefldi sínar tvær fyrstu skákir á Íslandsmóti skákfélaga og stimplaði sig rækilega inn með öruggum sigri í báðum skákunum. Þessi kornunga Rimaskólastúlka hefur vakið athygli á grunnskólamótum vetrarins fyrir þroskaða taflmennsku og kemur sér upp stöðu "sem hver stórmeistari gæti verið stoltur af" eins og einn af framámönnum í skáklífinu orðaði það eftir að hafa fylgst með stúlkunni ungu.


Fullt hús á TORG skákmóti Fjölnis

Það mættu 80 efnilegir skákkrakkar á öllum grunnskólaaldri á TORG skákmót Fjölnis í Rimaskóla á Skákdegi Íslands 2019. Tefldar voru sex umferðir og keppnin jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Verðlaunað var í þremur flokkum; eldri flokki, yngri flokki og stúlknaflokki. Sigurvegarinn reyndist vera Kristján Dagur Jónsson TR sem hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Sara Sólveig Lis skákdeild Fjölnis sigraði í stúlknaflokki. Meðal efstu manna á mótinu voru Fjölnis strákarnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunnlaugsson og Anton Breki Óskarsson, bekkjarbræður í Rimaskóla, allir með 5 vinninga.

Í upphafi mótsins ávarpaði borgarfulltrúinn og Grafravogsbúinn Valgerður Sigurðardóttir keppendur og lýsti ánægju sinni með hið öfluga skákstarf Fjölnis og sagðist stolt af því að fá að leika fyrsta leikinn á þessu glæsilega skákmóti. Valgerður lék síðan fyrsta leikinn fyrir hina bráðefnilegu Emilíu Emblu Baldvins-og Berglindardóttur sem er aðeins 6 ára gömul, nemandi í Rimaskóla, og var í afrekshópi Omar Salama á Laufásborg sl. vetur.

Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar frá Hagkaup og Emmess ís. Gífurlegt verðlaunaflóð skall á að loknu móti, alls 43 talsins. Hagkaup, Pizzan, Emmess, Disney-klúbburinn og fyrirtækin Bókabúðin, Blómabúðin,CoCo´s og Smíðabær við Hverafold gáfu vinningana sem voru flottir og fjölbreyttir. Fjölmargir foreldrar fylgdust með af áhuga, fengu sér kaffi og kökur og gátu haft það huggulegt í félagsmiðstöðinni.


Grunnskólabörnum boðið á skákmót

TORG skákmót Fjölnis verður haldið á Skákdegi Íslands 26. janúar, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar
Ókeypis þátttaka - ókeypis veitingar - 40 verðlaun

TORG skákmót Fjölnis verður haldið í 14. sinn og hefst kl. 11:00 laugardaginn 26. janúar í Rimaskóla Grafarvogi og lýkur kl. 13:15.

Þetta er tilvalið skákmót fyrir alla áhugasama skákkrakka í Grafravogi.
TORG skákmótið er einkar vinsælt og opið öllum grunnskólakrökkum. Tefldar 6 umferðir.
Það eru Hagkaup Spönginni, Emmess ís, Disney, Pizzan, Bókabúð Grafravogs, CoCo´s, RS blóm, fyrirtækin á Torginu Hverafold, sem gefa allt að 40 áhugaverð verðlaun.
Allir þátttakendur fá fríar veitingar frá Hagkaupum og Emmess ís. Foreldrar geta keypt sér kaffi og kexkökur á vægu verði.

Nú er bara að taka tímann frá strax og mæta tímanlega til skráningar annan laugardag, 26. janúar 2019.


Skákæfingar á nýju ári

Hinar vinsælu skákæfingar Fjölnis hefjast á nýju ári fimmtudaginn 10. janúar. Æfingarnar eru í boði alla fimmtudaga í Rimaskóla frá kl. 16:30 - 18:00. Ókeypis þátttaka. Æfingarnar eru ætlaðar grunnskólakrökkum sem hafa náð grunnatriðum skáklistarinnar, þekkja mannganginn og auðveldustu byrjanir. Keppni og kennsla - verðlaun og veitingar .


Frábær árangur hjá Degi Ragnarssyni

Dagur Ragnarsson (2327) náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum skákmeistaratitli með frábærri frammistöðu á alþjóðlegu skákmóti í Montreal í Kanada sem lauk í gær.  Dagur hlaut 6½ vinning í 9 skákum. Dagur byrjaði afar vel og hafði 3½ vinning eftir 4 umferðir. Jafntefli gerði hann í 5.-8. umferð þar sem hann var oft á tíðum afar nærri því að vinna skákirnar. Sigur í lokaumferðinni á móti kanadíska FIDE-meistaranum Mike Ivanov (2251) tryggði honum áfangann. Frammistaða Dags samsvaraði 2467 skákstigum og hækkar hann um 34 ELÓ stig sem er óvenju mikið miðað við aðra stigaháa skákmenn. Eins og Grafravogsbúum ætti að vera kunnugt um þá var Dagur valinn afreksmaður skákdeildar fyrir árið 2018. Þetta er annar áfangi Dags en til þess að verða útnefndur alþjóðlegur meistari þarf hann þrjá áfanga og komast í 2400 skákstig. Þeim fyrsta náði hann í á Íslandsmótinu í skák 2017 í Hafnarfirði. Skákdeild Fjölnis óskar Degi hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og meistaraáfangann!


Fjölmennt á jólaæfingu

Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.


Íslandsmót unglingasveita

Á Íslandsmóti unglingasveita í skák 2018 sem nýverið var haldið í Garðaskóla í Garðabæ kom C sveit Fjölnis skemmtilega á óvart með því að ná bestum árangri allra C sveita á mótinu. Í skáksveitinni eru mjög ungir krakkar sem eiga það sameiginlegt að mæta nær undantekningarlaust á allar skákæfingar Fjölnis á fimmtudögum. Sú yngsta í skáksveitinni heitir Emilía Embla og er aðeins 6 ára gömul. Hún hlaut 5 vinninga í 7 skákum. Í skáksveitinni eru þau Sindri Snær Rimaskóla, Eiríkur Emil Húsaskóla, Emilía Embla Rimaskóla og Jón Emil Vættaskóla.


Skákdeild Fjölnis leiðir Íslandsmótið

Skákdeild Fjölnis er í forystu á Íslandsmóti skákfélaga eftir fimm umferðir af níu. Framúrskarandi frammistaða Fjölnismanna kom mjög á á óvart enda skáksveitin í 4. sæti eftir styrkleikalista. Enginn gat séð þetta fyrir enda þótt Fjölnir hafi unnið til bronsverðlauna sl. tvö ár. Sjö af átta liðsmönnum Fjölnis hækka á stigum fyrir frammistöðuna. Sveitin er yngsta skáksveitin á mótinu með helming liðsmanna um tvítugt. Síðari hluti Íslandsmótsins fer fram helgina 28. feb - 2. mars 2019. Í þessari fræknu skáksveit eru Jesper Thybo Evrópumeistari U18, Rimaskólameistararnir Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson, sænski alþjóðlegi meistarinn Pontus Carlson, Davíð Kjartansson fv. liðsstjóri Rimaskóla í skák, Tómas Björnsson og Sigurbjörn J. Björnsson. Fjölnir vann stórsigur á Skákdeild KR 7½-½. í 5. umferð Íslandsmótsins og tyllti sér á toppinn.