Skákheimsókn í Kelduskóla KORPU

Nú á síðustu metrum skólastarfs í Kelduskóla KORPU sem borgaryfirvöld ætla sér að leggja niður og loka, mættu félagar frá Skákdeild Fjölnis í heimsókn og efndu til skákhátíðar meðal allra nemenda skólans.
Helgi Árnason formaður skákdeildarinnar kynnti blómlega skákstarfsemi í Grafarvogi og nemendur fengu að reyna sig við í fjöltefli við Dag Ragnarsson skákmeistara í Fjölni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Dagur náð býsna langt á skákferlinum allt frá því að hann varð NM meistari með skáksveit Rimaskóla í nokkur skipti. Erlingur Þorsteinsson stjórnarmaður skákdeildarinnar var Degi til aðstoðar við fjölteflið.
Krakkarnir í KORPU sýndu skákinni mikinn áhuga og höfðu reglulega gaman af þessari stuttu heimsókn og kynningu.
Auk fjölteflis var efnt til skákmóts þar sem flestir nemendur voru að tefla með klukku í fyrsta skipti.


Meistarar vetrarins krýndir á lokaskákæfingu Fjölnis

Skákæfingum Fjölnis lauk með fjölmennri skákhátíð í hátíðarsal Rimaskóla 14. maí. Tilkynnt var um val skákdeildarinnar á afreks-og æfingameistara vetrarins. Margir voru verðugir heiðursins en aðeins tveir útvaldir.
Hin efnilega Emilía Embla B. Berglindardóttir í 2. bekk Rimaskóla var kjörin afreksmeistari. Hún leiddi hina efnilegu stúlknaskáksveit skólans sem sigraði í opnum flokki bæði á jólamóti ÍTR og TR og Reykjavíkurmóti grunnskóla 2020 í flokki 1. – 3. bekkjar, afrek sem engin stúlknasveit hefur fyrr né síðar náð að landa. Emilía Embla varð líka Íslandsmeistari grunnskóla í stúlknaflokki með sveit Rimaskóla 3. – 5. bekkur. Framtíðarskákkona Íslands.
Arnar Gauti Helgason í 6. bekk Rimaskóla var valinn æfingameistari vetrarins. Hann var ásamt fjölmörgum Fjölniskrökkum með 100% mætingu og Reykjavíkurmeistari í flokki 4. – 7. bekkjar 2020 ásamt félögum sínum í Rimaskóla.
 Í tilefni af skemmtilegu skákári var öllum 50 þátttakendum æfingarinnar boðið upp á Domínó´s pítsur þar sem allir fengu nægju sína.
Allar skákæfingar Fjölnis í vetur hafa verið mjög vel sóttar næstum jafnt af strákum og stelpum. Krakkarnir eru á öllum grunnskólaaldri og fást við verðug en skemmtileg viðfangsefni á hverri æfingu.
Skákæfingarnar hefjast að nýju um miðjan september.


Spennandi Miðgarðsmót í skák

Skákdeild Fjölnis í samstarfi við þjónustumiðstöina Miðgarð í Grafarvogi stóð í 16 sinn að skákmóti grunnskólanna í Grafarvogi, Miðgarðsmótinu sem haldið var í hátíðarsal Rimaskóla. Að þessu sinni tefldu 13 skáksveitir, skipaðar 6 liðsmönnum, alls um 80 nemendur á öllum grunnskólaaldri. Skákiðkun og skákkennsla er mismikil í grunnskólunum í Grafarvogi og styrkeliki sveitanna nokkuð eftir því. Í Rimaskóla er einhver lengsta samfellda skákhefð allra skóla og þær 6 skáksveitir sem skólinn sendi til keppni að þessu sinni voru allar býsna sterkar. Dalskóla var boðið að taka þátt í Miðgarðsmótinu í fyrsta sinn og mætti skólinn með tvær jafnar og efnilegar sveitir. Skáksveit Foldaskóla hélt forystunni á mótinu fyrri helming mótsins en það snerist við í 4. umferð af 6 þegar Rimaskóli A sveit vann innbyrðis viðureign 4-2 og kláraði svo dæmið í framhaldi með nokkuð öruggum sigri. Í lokaumferðinni áttust við Rimaskóli stúlknasveit og Rimaskóli B sveit þar sem síðarnefnda sveitin vann 5-1 sigur og sveitirnar skiptu um sæti. Foldaskóli og Rimaskóli C sveit deildu síðan með sér 4 – 5 sæti sem gáfu verðlaun.
Þjónustumiðstöðin Miðgarður gaf verðlaunagripi og veitingar og Skákdeild Fjölnis veitti 30 keppendum í 5 efstu skáksveitunum SAM-bíómiða í verðlaun. Það er mikill skákáhugi í grunnskólum Grafarvogs þegar á reynir enda skákin skemmtileg. Skákstjórar voru þeir Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis og Ragnar Harðarson frá Miðgarði.


Dagur Ragnarsson sigurvegari MÓTEX skákhátíðarinnar 2020

Skákmaður Fjölnis 2018 og 2019 Dagur Ragnarsson (2457) varð sigurvegari á sterku 7 umferða MÓTEX skákhátíðarmóti sem er nýlokið. Tefldar voru 7 umferðir. Dagur tapaði fyrir Guðmundi Kjartanssyni í 2. umferð en vann síðan allar 5 skákir mótsins, m.a. Hjörvar Stein Grétarsson stigahæsta skákmann landsins. Með þessari góðu frammistöðu kemst Dagur upp í 2400 skákstig sem viðmið aðþjóðlegs skákmeistara. Liðsmenn Fjölnis eru aldeilis að gera það gott í skákinni því fyrir stuttu vann Sigurbjörn J. Björnsson félagi Dags hjá Fjölni öruggan sigur á meistaramóti Reykjavíkur og jafnframt titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2020.


Skákmeistari Reykjavíkur 2020 er Fjölnismaður

Sigurbjörn J. Björnsson Skákdeild Fjölnis sigraði glæsilega á hinu árlega Skákþingi Reykjavíkur með ótrúlegri frammistöðu. Sigurbjörn vann allar sínar 9 skákir en svo afgerandi sigur hefur ekki unnist síðan árið 1993. Sigurbjörn teflir með A sveit Fjölnis á Íslandsmóti skákfélaga og er þar „reynsluboltinn“ í annars ungri og stórefnilegri skáksveit sem endað hefur í verðlaunasæti í 1. deild á sl. þemur árum. Fjölnismenn óska Sigurbirni til hamingju með titilinn og sigurinn.


Fjölmennt á TORG - skákmóti Fjölnis

Sterkt og fjölmennt TORG – skákmót Fjölnis 2020

Það er ekki á hverjum degi sem 2/3 þátttakenda á skákmóti ljúka keppni með verðlaunum eða happadrættisvinningi. Þetta gerðist þó á fjölmennu og skemmtilegu TORG skákmóti Fjölnis í Rimaskóla fyrsta dag febrúar mánaðar.
Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson stigahæsti skákmaður Íslands og fyrrum nemandi Rimaskóla var heiðursgestur mótsins og lék fyrsta leikinn fyrir Söru Sólveigu Lis. Sara er ein fjögurra stúlkna í Íslandsmeistarasveit Rimaskóla á Íslandsmóti grunnskóla 6. – 10. bekkjar.
Á TORG skákmótinu fjölmenntu yngri og eldri skákkrakkar á grunnskólaaldri, þar af um helmingur úr Grafarvogi. Tefldar voru sex umferðir og barist um hvern vinning sem skipti máli í hnífjafnri baráttu um sigra og veglega vinninga.
Það var að venju margt spennandi og skemmtileg á TORG skákmótinu 2020, fríar veitingar frá Hagkaupum, Ekrunni og Emmess. Glæsilegir vinningar frá Hagkaup, Emmess, CoCO´s, Pizzan, Bókabúðinni Grafarvogi og Blómabúðinni Grafarvogi, alls 40 talsins.
Fjölniskrakkar sem urðu meðal efstu á mótinu má nefna stúlkurnar Emilíu Emblu, Maríu Lenu og Nikolu sem allar tefldu með Íslandsmeistarasveit Rimaskóla á Íslandsmeistaramóti stúlkna í 3. – 5. bekk í janúar sl., bekkjarbræðurna Aðalbjörn Þór og Aron Örn í Rimaskóla, Eirík Emil í Húsaskóla og áðurnefnda Söru Sólveigu Lis í Rimaskóla.
Skákstjórn var í höndum Helga Árnasonar formanns skákdeildar Fjölnis og Páls Sigurðssonar skákdómara.
Þátttakendur voru 64, jöfn tala við reitina á skákborðinu, sem er skemmtileg tilviljun. Foreldrar fjölmenntu að venju og fylgdust af ánægju með sínum ungu „skákmeisturum“ og létu fara vel um sig í félagsmiðstöðinni á staðnum.
Skákdeild Fjölnis þakkar öllum þeim fyrirtækjum sem gáfu vinningana og veitingarnar á þessu 16. TORG skákmóti Fjölnis.
Myndatextar:
IMG 5380:  Heiðursgestur TORG mótsins, Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari, leikur fyrsta leik mótsins fyrir Söru Sólveigu Lis
IMG 5397:  Þessir efnilegu skákkrakkar hlutu eignarbikara TORG skákmótsins 2020. Einar Dagur í yngri flokk, Árni Ólafsson sigurvegari mótsins og Soffía Arndís sem náði bestum árangri stúlkna
IMG 5389: Skákfærnina er að finna meðal nemenda allt frá 1. bekk. Þessir efnilegu skákkrakkar á myndinni eru ótrúlega færir í skáklistinni þrátt fyrir ungan aldur og koma til með að tefla af krafti bæði innanlands og erlendis næstu árin


Fjölmennt á jólaskákæfingunni

Það má eiginlega segja að uppselt hafi verið á jólaskákæfingu skákdeildar Fjölnis fimmtudaginn 12. des. Tæplega 50 þátttakendur mættu í Rimaskóla þar sem Fjölnisæfingar fara fram. Keppt var í tveimur flokkum og tefldar voru 5 umferðir. Í skákhléi var boðið upp á myndarlega skúffuköku og börnin leyst út með veglegum jólaglaðningi í lok æfingar. Það eru hjónin Vala borgarfulltrúi og Steini, góðir Grafarvogsbúar, sem mæta til okkar hvert ár á jólaskákæfingu og skilja eftir eitthvað spennandi til að njóta og leika sér með. Skákæfingar Fjölnis eru alltaf fjölmennar og líka mjög skemmtilegar. Fyrsta æfing á nýju ári verður fimmtudaginn 9. janúar.


Skákkrakkar Fjölnis heimsóttu Korpúlfa

Höfðinglegar móttökur Korpúlfa í Grafarvogi

 

Að frumkvæði Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi, bauð skákdeild félagsins skákkrökkum Fjölnis til móttöku í Borgir í Grafarvogi. Að sjálfsögðu var slegið upp skákmóti, „Æskan og ellin“ í Grafarvogi. Áhugasamir skákkrakkar Fjölnis tóku vel við sér og fjölmenntu í Borgir og fengu þar höfðinglegar móttökur. Alls tóku 43 skákmeistarar þátt í skákmótinu, 30 frá Skákdeild Fjölnis og 13 frá Korpúlfum. Úr hópi heldri borgara voru mættir grjótharðir skákkarlar á við Einar S., Magga Pé. dómara sem verður 87 ára í lok ársins og Fjölnismennina Sveinbjörn Jónsson og Finn Kr. Finnsson. Tefldar voru 5 umferðir og ríkti afar jákvæður keppnisandi yfir salnum og gagnkvæm virðing. Í lok mótsins var sigurvegara úr hvorum aldursflokki veittur glæsileur eignarbikar og voru það Fjölnisfélagarnir Sveinbjörn Jónsson og Joshua Davíðsson sem hlutu þennan heiður í jafnri keppni. Allir yngri þátttakendur fengu verðlaunapening fyrir góða frammistöðu. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Maggi Pé., eigandi Jóa útherja, skákunnandi og fv. knattspyrnudómar,i dreifði fótboltamyndum til krakkanna sem tóku vel við sér og tóku strax við að bítta eða gefa góðum félögum. Þeir Jóhann Helgason formaður Korpúlfa og Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis fluttu ávörp í byrjun og lok þessarar skákhátíðar og lýstu ánægju sinni með glæsilegt framtak og byrjun samstarfs, Stefnt er að þremur heimsóknum í Borgir á hverju ári og verður sú næsta í febrúar 2020.

 

Myndatextar:

 

5211:  Þéttskipaður salur á skákmótinu „Æskan og ellin í Grafarvogi“

 

5215:  80 ára aldursmunur. Heiðursmaðurinn Maggi Pé teflir við Emilíu Sigurðardóttur sem er að byrja skákferilinn. Heiðursmannajafntefli

 

5230: Korpúlfar heiðra skákæsku Grafarvogs með verðlaunapening og fótboltamyndum


Hrund Hauksdóttir sigraði á U2000 skákmóti TR

Hrund Hauksdóttir (1759), ung og efnileg landsliðskona úr Skákdeild Fjölnis sigraði á fjölmennu U2000 skákmóti Taflfélags Reykjavíkur en mótinu lauk 26. nóvember sl. Hrund fylgdi þar með eftir frábærri frammistöðu sinni á alþjóðlega helgarskákmótinu í Hasselbacken um sl. mánaðarmót en þar náði hún 3. sæti kvenna og vann til "ratings" verðlauna. Með frammistöðu sinni hefur Hrund hækkað um 100 skákstig á tæpum mánuði. Hrund er fyrrverandi nemandi í Rimaskóla og varð Norðurlandameistari með skáksveit skólans árið 2012. Hrund hefur teflt með íslenska kvennalandsliðinu á Ólympíumóti landsliða og virðist til alls líkleg í framtíðinni.


Skákæfingar fram að jólaleyfi

Síðustu skákæfingar ársins

Skákæfingar Fjölnis alla fimmtudaga kl. 16:30 - 18.00 hafa verið vel sóttar í vetur og í hópnum leynast skákmeistarar framtíðarinnar, drengir og stúlkur.
Fram að jólum verða eftirtaldar æfingar í boði:

Fimmtudagur 28. nóv. kl. 14:00 - 16:00 Borgir Spönginni
Fimmtudagur 5. des. kl. 16:30 - 18:00 Rimaskóli - gengið inn um íþróttahús
Fimmtudagur 12. des. kl. 16:30 - 18:00 Rimaskóli - Jólaskákæfing

Gleðilegt skákár 2020.