Það má eiginlega segja að uppselt hafi verið á jólaskákæfingu skákdeildar Fjölnis fimmtudaginn 12. des. Tæplega 50 þátttakendur mættu í Rimaskóla þar sem Fjölnisæfingar fara fram. Keppt var í tveimur flokkum og tefldar voru 5 umferðir. Í skákhléi var boðið upp á myndarlega skúffuköku og börnin leyst út með veglegum jólaglaðningi í lok æfingar. Það eru hjónin Vala borgarfulltrúi og Steini, góðir Grafarvogsbúar, sem mæta til okkar hvert ár á jólaskákæfingu og skilja eftir eitthvað spennandi til að njóta og leika sér með. Skákæfingar Fjölnis eru alltaf fjölmennar og líka mjög skemmtilegar. Fyrsta æfing á nýju ári verður fimmtudaginn 9. janúar.