Baldur Sigurðsson í Fjölni
Knattspyrnumaðurinn Baldur Sigurðsson er orðinn leikmaður Fjölnis og hefur skrifað undir samning við félagið. Hann mun gegna hlutverki spilandi aðstoðarþjálfara og tekur þar við hlutverki Gunnars Más sem er hér með þakkað kærlega fyrir allt sitt góða starf í þágu meistaraflokks karla undanfarin ár – en Gunni heldur vitanlega áfram störfum hjá félaginu sem yfirþjálfari yngri flokka karla.
Baldur, sem er 35 ára, er Mývetningur að upplagi og lék fyrstu ár sín í meistaraflokki með Völsungi á Húsavík. Hann kemur til okkar frá FH en þar áður hafði hann m.a. spilað með Stjörnunni, KR, Keflavík, í Danmörku og í Noregi. Baldur hefur orðið 2x Íslandsmeistari, 5x bikarmeistari og leikið 3 A-landsleiki.
Baldur hefur alls leikið yfir 430 KSÍ leiki og skorað í þeim 100 mörk. Hann er jafnframt einn leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi.
Á einni af myndunum má sjá þjálfarateymi meistaraflokks karla á komandi tímabili – þ.e. reynsluboltarnir Ásmundur Arnarsson og Gunnar Sigurðsson auk Baldurs.
Knattspyrnudeild Fjölnis býður Baldur hjartanlega velkominn í #FélagiðOkkar
Júlíus og Theódór taka við meistaraflokki kvenna
Það er Knattspyrnudeild Fjölnis sönn ánægja að tilkynna Júlíus Ármann Júlíusson og Theódór Sveinjónsson sem nýja aðalþjálfara meistaraflokks kvenna. Taka þeir við af Axel Erni Sæmundssyni sem hverfur til annarra verkefna innan félagsins.
Júlíus er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til kvennaboltans en hann hefur gegnt starfi aðalþjálfara meistaraflokks kvenna Aftureldingar frá árinu 2015 þar sem hann stýrði liðinu meðal annars upp úr 2. deild árið 2017. Að auki hefur hann sinnt þjálfun hjá Gróttu í tæp 20 ár við góðan orðstír þar sem hann stýrði meðal annars meistaraflokki karla en hann var einnig sigursæll þjálfari þau 10 ár sem hann var við störf hjá Breiðablik. Júlíus hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu.
Theódór þekkjum við Fjölnismenn vel þar sem hann stýrði nokkrum yngri flokkum félagsins hér á árum áður og meistaraflokki kvenna í Landsbankadeildinni árið 2008. Síðustu ár hefur Theódór þjálfað yngri flokka Víkings með góðum árangri og jafnframt verið í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna Víkings. Áður var hann þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Aftureldingu, Þrótti og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals sem varð Íslandsmeistari á árunum 2006 og 2007. Theódór hefur einnig lokið UEFA-A þjálfaragráðu.
Knattspyrnudeild Fjölnis bindur miklar vonir við þessa ráðningu og hlakka til samstarfsins á komandi tímabilum.
Fjölnir þakkar Axel Erni fyrir sitt mikilvæga framlag undanfarin ár og býður Júlla og Tedda velkomna til starfa.
Getraunakaffi fer aftur í gang
RAFRÆNT GETRAUNAKAFFI!
Hið margrómaða Getraunakaffi Fjölnis fer aftur í gang núna á laugardaginn 31.október og alla laugardaga eftir það til og með 19. Desember.
Leikurinn er sáraeinfaldur en það eru tveir aðilar saman í liði að giska á úrslit í enska boltanum. Flottir vinningar í boði í hópleiknum.
Skráning fer fram á 1×2@fjolnir.is þar sem fram koma nöfn beggja liðsmanna, kennitala, sími, netfang og nafn á liðinu.
Við ætlum að vera með 8 vikna hópleik þar sem 7 bestu vikurnar gilda. Þátttökugjald er einungis 4.990 kr. per hóp eða 2.495 kr. á mann og greiðist beint inn á reikning félagsins: 0114-05-060968 kt: 631288-7589
Fólk tippar sjálft í gegnum vefsíðuna 1×2.is/felog eða í gegnum þennan link en hægt að senda á netfangið 1×2@fjolnir.is ef ykkur vantar aðstoð.
Öll lið senda inn tvo seðla sem skulu innihalda nákvæmlega 7 leiki með einu merki og 6 leiki með tvítryggingu (2 x 960 kr. seðill). Betri seðillinn gildir. Með þessu móti standa allir þátttakendur jafnt.
Hér má finna reglur og frekari upplýsingar í leiknum
Hér má finna sérstaka Facebook grúbbu fyrir Getraunakaffi Fjölnis
Taktu þátt í félagsstarfinu og vertu með frá byrjun. Allir velkomnir!
#FélagiðOkkar
Sigurpáll Melberg framlengir við Fjölni
Sigurpáll Melberg Pálsson hefur framlengt samningi sínum við knattspyrnudeild Fjölnis til ársins 2022. Sigurpáll er öflugur varnarmaður með mikla reynslu en hann hefur leikið 121 leik og skorkað 5 mörk.
Þetta eru mikil gleðitíðindi en Sigurpáll hefur staðið sig vel síðan hann kom til liðs við Fjölni fyrir tímabilið 2018 og verið einn af lykilleikmönnum liðsins undanfarin tvö ár. Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Sigurpáli til hamingju og væntir mikils af honum.
#FélagiðOkkar
Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!
Sigurjón Daði framlengir við knattspyrnudeild Fjölnis!
Sigurjón Daði Harðarson, markvörður, hefur framlengt samningi sínum við Fjölni út keppnistímabilið 2023.
Þetta eru góðar fréttir en Sigurjón er uppalinn Fjölnismaður, sem kemur úr hinum sterka 2001 árgangi félagsins. Sigurjón hefur leikið samtals 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.
Við óskum Sigurjóni til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.
#FélagiðOkkar
Lúkas Logi skrifar undir þriggja ára samning
Það er ánægjulegt að tilkynna í dag gekk knattspyrnudeildin frá þriggja ára samningi við Lúkas Loga Heimisson (f. 2003).
Lúkas er einn af okkar efnilegustu leikmönnum sem kemur upp úr yngri flokka starfi Fjölnis. Hann hefur spilað 7 leiki með meistaraflokki karla í deild og bikar á þessari leiktíð auk þess hefur hann spilað 3 leiki fyrir U-16 ára landslið Íslands. Þá hefur hann skorað 15 mörk með 2. flokki á Íslandsmótinu.
Við óskum Lúkasi til hamingju og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.
#FélagiðOkkar
Hans Viktor framlengir
Hans Viktor Guðmundsson er búinn að framlengja núgildandi samning sinn og gildir framlengingin út tímabilið 2022.
Hans er 24 ára og getur bæði leikið á miðjunni sem og í miðverði. Í sumar hefur Hans tekið þátt í öllum átján leikjum Fjölnis.
Á sínum tíma lék Hans tólf U21 landsleiki og skoraði hann eitt mark.
Þetta eru frábærar fréttir!
#FélagiðOkkar
Æfingar 8. flokks í knattspyrnu
ÆFINGAR FRÁ OG MEÐ 7. OKTÓBER:
Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu þurfum við að breyta aðkomu foreldra að æfingum barna í 8. flokki sem hér segir:
• Foreldrar mega ekki vera með barni sínu á æfingunni.
• Velkomið að eldri systkini/skyldmenni (14 – 16 ára/8. – 10. bekkur) mæti og fylgi barninu eftir á æfingunni.
• Þjálfarar verða við inngang á Egilshöll og taka á móti börnunum áður en æfing hefst.
• Gætið þess að mæta hvorki of snemma né of seint (sjá tímasetningar að neðan).
• Engir klefar verða í notkun fyrir æfingar og þarf barnið því að vera alveg tilbúið og með reimaða skó þegar það mætir.
• Enginn aukabúnaður og/eða skór eiga að fylgja barninu.
• Að æfingu lokinni fylgja þjálfarar börnum í anddyri og gæta þeirra þar til þau verða sótt.
• Vinsamlegast hugið að sóttvörnum fyrir og eftir æfingu – handþvottur, spritt o.s.frv.
• Ef barnið finnur fyrir einkennum þá á að halda sig heima.
• Vinsamlegast virðið þessi tilmæli.
Æfingatímar:
8. flokkur kvenna (2015-2016)
Miðvikudagur kl. 17:30-18:30 – Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00-10:00 – Egilshöll
8. flokkur karla yngri (2016)
Miðvikudagur kl. 17:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 10:00 Egilshöll
8.flokkur karla eldri (2015)
Miðvikudagur kl. 16:30 Egilshöll
Laugardagur kl. 09:00 Egilshöll
Upphitun: Stjarnan - Fjölnir
Pepsi Max deild karla
11. umferð
Stjarnan – Fjölnir
Sunnudaginn 4. október kl. 17:00 á Samsungvellinum, Garðabæ.
Nú þegar fimm leikir eru eftir af keppnistímabilinu er Fjölnir tíu stigum frá Víkingi R. sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Í síðasta leik laut Fjölnir í lægra haldi í Kaplakrika, 1-0. Andstæðingur Fjölnis á næstkomandi sunnudag gerði 1-1 jaftefli við FH síðastliðið fimmtudagskvöld. Fjölnir og Stjarnan mættust í 2. umferð á Extra vellinum og vann Garðabæjarliðið 1-4 sigur. Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig en hefur leikið leik færra en öll önnur lið deildarinnar að KR frátöldu. Stjarnan er því í harðri baráttu um Evrópusæti.
Fjölnir á ansi veika von um að halda sæti sínu í deildinni. Vinni Víkingur leik sinn á sunnudag gegn KA og tapi Fjölnir gegn Stjörnunni verður tölfræðilegur möguleiki Fjölnis á að halda sæti sínu í deildinni ekki lengur til staðar.
Leikurinn í Garðabæ verður sá síðasti fyrir landsleikjahlé. Ekki verður leikið aftur í efstu deild fyrr en 15. október. Um er að ræða frestaðan leik frá 11. umferð. Sigurpáll Melberg Pálsson verður í leikbanni í leiknum á sunnudag vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Stjörnumennirnir Halldór Orri Björnsson og Brynjar Gauti Guðjónsson verða fjarverandi af sömu ástæðu.
Sjáumst á vellinum. Áfram Fjölnir!
#FélagiðOkkar
Grétar Atli Davíðsson
Nýtt fótboltatímabil að hefjast
Nú er nýtt tímabil að hefjast hjá yngri flokkum og knattspyrnudeild Fjölnis er að blása til sóknar í yngri flokka starfi. Á síðustu mánuðum hefur verið unnin mjög góð og markviss stefnumótunarvinna innan knattspyrnudeildar með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins.
Stór skref hafa verið stiginn og starfa nú tveir yfirþjálfarar í fullu starfi hjá félaginu sem hvor um sig ber ábyrgð á faglegu starfi annars vegar stúlknamegin og hinsvegar drengjamegin. Þetta er stórt skref sem að vonandi leiðir til fjölgunar, ekki síst stúlknamegin, sem og enn faglegra starfi sem mun skila sér til félagsins á næstu árum.
Dagana 3. – 25. október býður Fjölnir börnum fædd árið 2015 og 2016 að æfa frítt og eru þjálfarar og starfsfólk spennt að taka á móti sem flestum börnum. 17. október verður svo haldið Októbermót Fjölnis þar sem allir þeir sem æfa geta tekið þátt gegn þátttökugjaldi.
Æfingatöflur knattspyrnudeildar eru komnar inn á heimasíðu félagsins og má nálgast þar. Minni foreldra að muna að skrá börnin inni á https://fjolnir.felog.is/ svo að æfingatöflur birtist í Sideline appinu.
Svo eru yngri flokkar Fjölnis einnig á Facebook og hvet ég ykkur öll að fylgja okkur þar
https://www.facebook.com/Fj%C3%B6lnir-Yngri-flokkar-Knattspyrnudeild-300328627123537
Árangur yngri flokka félagsins hafa verið með ágætum og er tilvalið að minna á að nýkringdir bikarmeistarar í 3. flokki karla spila úrslitaleik Íslandsmótsins sunnudaginn 4. október klukkan 13:00 á Kópavogsvelli og hvetjum við sem flesta til mæta og hvetja
#FélagiðOkkar
Fyrir hönd Barna- og unglingaráðs knattpyrnudeildar Fjölnis
Sævar Reykjalín
Formaður BUR