Tvöfaldir Reykjavíkurmeistarar

Í gær lauk Reykjavíkurmóti karla í meistaraflokki og á sama tíma flottu undirbúningstímabili karla og kvennaliðana okkar.

Stelpurnar höfðu tryggt sér sigur á Reykjavíkurmótinu og strákarnir fylgdu því glæsilega eftir með góðum sigri á Víkingi. Þess má geta að Fjölnir U tók þátt í tveimur leikjum og fengu því góða æfingu fyrir Grill 66 deildina.

Við óskum meistaraflokkunum okkar innilega til hamingju með þennan árangur og hvetjum Fjölnisfólk til að fjölmenna á leiki í Olís deild karla, Grill 66 deild karla og kvenna.

Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar


Handboltaskóli Fjölnis að hefjast

Á þriðjudaginn hefst Handboltaskóli Fjölnis 2019. Skólinn er ætlaður strákum og stelpum sem eru að fara í 1. - 6.bekk næsta vetur. Boðið er upp á tvær vikur, 6. - 9.ágúst og 12. - 16.ágúst.

Handboltaskóli Fjölnis er frábær undirbúningur fyrir vetrarstarf Fjölni en í honum er fléttað saman skemmtilegum handboltaæfingum í bland við leiki og skemmtun. Byrjendur eru sérstaklega velkomnir.

Handboltaskólinn stendur yfir frá kl. 09:00 til 12:00 með stuttri nestispásu.

Skólastjóri og aðalleiðbeinandi er Andri Sigfússon yfirþjálfari yngri flokka en auk hans verða þjálfarar hjá deildinni auk leikmanna sem munu aðstoða.

Verð:
6. - 9.ágúst / 5900 kr
12. - 16.ágúst / 6900 kr

Ef báðar vikurnar eru teknar kostar skólinn 9900 kr.

Skráning fer fram í Nóra, skráningarkerfi Fjölnis (http://fjolnir.felog.is)


Alana Elín æfir með bandaríska landsliðinu

Alana Elín Steinarsdóttir leikmaður meistaraflokks kvenna í handbolta var í leikmannahópi bandaríska landsliðsins í svokölluðu „try-out“ í Þýskalandi á dögunum en liðið undirbýr sig fyrir Pan American leikana sem fara fram mánaðarmótin júlí/ágúst.

Við fengum smá ferðasögu senda frá Alönu:

„Þar sem ég er fædd í Opelika, Alabama þá var ég valin í yngra landslið Bandaríkjana árið 2012 og spilaði með þeim í Mexico á IHF Trophy mótinu og fórum heim með brons þaðan. Þar sem ég ákvað nýlega að taka skóna af hillunni var mér boðið að koma í “try-out” eða reynslu með A-landsliði Bandaríkjana hérna í Þýskalandi, þar sem þær eru að undirbúa sig fyrir Pan American leikana í Perú í lok júlí-byrjun ágúst. Það er mikill munur á bandaríska liðinu síðan ég spilaði með þeim síðast en það vantar ennþá margt upp á (tækni, leikskilningur, hraði o.s.f.v.). Þetta sport er ennþá í þróun í Bandaríkjunum en það verður gaman að fylgjast með þeim þróast áfram. En þar sem Fjölnir og Grill 66 er númer 1, 2 og 3 hjá mér (og þar sem ég mun ekki fara með til Perú) þá tek ég ekki 100% þátt í öllu með liðinu, heldur er ég aðallega að æfa með þeim og þær sem eru að fara til Perú spila mest alla leikina. Við erum að æfa meira og minna tvisvar á dag svo eru nokkrir leikir á móti þýskum félagsliðum. Stelpurnar gista í íþróttaskóla í Hassloch en leikirnir eru nær Frankfurt“.


Ferðasaga frá Partille Cup

4.flokkur karla og kvenna í Fjölni/Fylki fór á stærsta og flottasta handboltamót í heimi, Partille Cup í Gautaborg dagana 29.júní til 7.júlí. Á mótinu léku rúmlega 25 þúsund keppendur frá öllum heimshornum.

Hópurinn taldi 40 manns og tefldum við fram þremur liðum. Liðin léku í riðlakeppni fyrstu keppnisdagana þar sem okkar lið mættu fimm andstæðingum frá fjölmörgum löndum. Á föstudeginum og laugardeginum léku liðin síðan í útsláttarkeppninni þar sem liðin komust mislangt. Fyrir utan keppnina sjálfa var dagskráin þétt setin. Krakkarnir fóru í vatnsrennibrautargarðinn Skara Sommarland, sáu íslenska U17 ára landslið karla vinna bronsverðlaun á European Open þegar það vann frábæran sigur á Hvít-Rússum í skemmtilegum handboltaleik. Krakkarnir fóru í Liseberg, glæsilegan skemmtigarð í miðbæ Gautaborgar, þeir kíktu í verslunarleiðangur, horfðu á ótal handboltaleiki, léku sér við að hoppa í Kåsjön-vatnið og margt fleira.

Segja má að vikan hafi verið viðburðarík og skilur eftir ótal minningar hjá okkar krökkum.


Ásta Margrét og Kristín Lísa skrifa undir samning

Kristín Lísa Friðriksdóttir (f.1999) kemur til liðs við liðið frá Stjörnunni eftir árs dvöl, en áður lék hún hjá Fjölni. Kristín Lísa er örvhent skytta og því mun hún nýtast liðinu vel. Við hlökkum til að sjá hana aftur í Fjölnisbúningnum.

Ásta Margrét Jónsdóttir (f.1999) hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild Fjölnis. Ásta Margrét kemur til liðs við liðið frá Aftureldingu, en hún er skytta.

Stjórn og meistaraflokksráð kvenna binda miklar vonir við þær Kristínu Lísu og Ástu Margréti og hlakka til spennandi tímabils á næsta vetri.

Myndir: Ásta Margrét og Kristín Lísa

#FélagiðOkkar


Alana Elín gengur til liðs við Fjölni

Línumaðurinn Alana Elín Steinarsdóttir hefur skrifað undir samning við meistaraflokk kvenna í handbolta. Alana kemur frá FH en hefur verið í stuttu hléi frá handboltanum.

Sigurjón þjálfari hafði þetta að segja um undirskriftina:

„Ég er gríðarlega ánægður með að Alana hafi ákveðið að taka slaginn með okkur. Hún er fjölhæfur sóknarmaður sem mun gefa okkur mikið í baráttunni á næsta tímabili og smellpassar inn í okkar unga og efnilega hóp“.

Frekari frétta er að vænta af leikmannamálum á næstkomandi dögum.


Skráningar á sumarnámskeið félagsins í fullum gangi

Skráningar á sumarnáskeið félagsins eru í fullum gangi.

Fjölbreytt úrval námskeiða er í boði hjá deildum félagsins.  Sjá allar upplýsingar um námskeið HÉR.

Allar skráningar á námskeið og æfingar félagsins eru rafrænt í Nóra, skráningakerfi félagsins https://fjolnir.felog.is/

 


Lykilleikmenn framlengja

Þær eru ansi góðar fréttirnar af leikmannamálum meistaraflokks karla en þeir Bergur Elí Rúnarsson, Breki Dagsson og Bjarki Snær Jónsson hafa allir framlengt samninga sína við deildina til tveggja ára. Þá þarf vart að kynna enda hafa þeir leikið stórt hlutverk seinustu ár. Breki sem er uppalinn hefur verið einn af burðarásum liðsins frá uppbyggingu meistaraflokks. Bergur Elí og Bjarki Snær hafa svo bæst við og fallið vel inn í ungan og efnilegan hóp. Það eru því spennandi tímar framundan, en áður hafði Björgvin Páll Rúnarsson framlengt samning sinn https://www.instagram.com/p/BxIMKzJAQnt/.

Tölfræði strákanna í Grill 66 deildinni:

  • Bergur Elí Rúnarsson: 17 leikir / 50 mörk
  • Breki Dagsson: 18 leikir / 126 mörk
  • Bjarki Snær Jónsson: 16 leikir / 2 mörk
  • Björgvin Páll Rúnarsson: 18 leikir / 95 mörk

#FélagiðOkkar


Fréttir af leikmannahópi meistaraflokks kvenna

Meistaraflokksráð kvenna heldur áfram að styrkja liðið fyrir komandi átök í Grill 66 deildinni.

Á dögunum skrifuðu tveir leikmenn undir samning við félagið.

Victoria Þorkelsdóttir (f.1998) framlengir samning sinn eftir að hafa komið til félagsins sumarið 2017. Hún spilaði sig inn í stórt hlutverk varnarlega á síðasta tímabili og var hún saman með Guðrúnu akkeri í vörn liðsins á nýafstöðnu tímabili. Victoria er frábær liðsmaður og fyrirmynd fyrir yngri stelpur. Við bindum miklar vonir við áframhaldandi framfarir hjá henni.

Eyrún Ósk Hjartardóttir (f.1998) kemur til liðs við liðið frá Fylki. Hún getur leyst af bæði horn og því mun hún nýtast liðinu vel. Hún hefur alla tíð leikið með Fylki og spilaði lykilhlutverk í Grill 66 deildinni tímabilið 2017/2018. Við hlökkum til að sjá hana í Fjölnisbúningnum.


Formaður kosinn í stjórn hkd

Á aukaðalfundi handknattleiksdeildar þriðjudaginn 7.maí kl. 19:00 var nýr formaður stjórnar kosinn.

Davíð Arnar Einarsson bauð sig fram og var því sjálfkjörinn. Mikil ánægja er með að hafa lokið leitinni að formanni deildarinnar. Að auki bætast tveir meðstjórnendur við; Guðrún Birna Jörgensen og Magnús Þór Arnarson.

Það eru spennandi tímar framundan með karlalið í efstu deild, áframhaldandi uppbyggingu kvennaliðsins og öflugu barna- og unglingastarfi.

Stjórn deildarinnar má sjá HÉR