Flottir keppendur frá Fjölni á Ofurhetjumóti

Ofurhetjumót Gróttu var haldið síðustu helgi og var húsið fullt af glæsilegum ofurhetjum sem tóku þátt og sumir voru að keppa á sínu fyrsta móti. Um 430 keppendur frá átta félögum voru skráð á mótið og keppa þau í  4., 5. og 6. þrepi íslenska fimleikastigans.
Til hamingju með mótið!


Glæsilegt Bikarmót í hópfimleikum í Dalhúsum

Helgina 26. – 27. febrúar fór fram Bikarmót í hópfimleikum, keppt var í efri flokkum og meistaraflokki. Mótið var haldið í íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum í glæsilegri umgjörð og mikilli stemmingu. Þetta var fysta fimleikamótið í um tvö ár þar sem ekki hafa verið einhvernskonar samkomutakmarkanir og voru þjálfarar, dómarar og áhorfendur alveg í skýjunum með grímulaust líf. Fjölnir átti 3 lið á mótinu og stóðu þau sig öll frábærlega. Liðið okkar í 1. flokki var örstutt frá því að tryggja sér keppnisrétt á Norðurlandamóti unglinga. En liðið er ungt og efnilegt og verður gaman að fylgjast með þeim vaxa. Á sunnudeginum var svo bein  útsending á RÚV frá keppni í  meistaraflokkum. En þar bar hæst sigur Stjörnunnar í kvennaflokki.


Þrír drengir frá Fjölni í úrvalshóp unglinga

Landsliðsþjálfari unglinga í áhaldafimleikum, Róbert Kristmannsson, hefur tilnefnt 13 drengi til þátttöku í Úrvalshópi drengja keppnisárið 2022.

Í ár eru þrír drengir frá Fjölni í hópnum og erum við einstaklega stolt af okkar stráknum. Til hamingju strákar og Zoltán.

 

  • Davíð Goði Jóhannsson
  • Elio Mar Rebora
  • Sigurður Ari Stefánsson

Keppnistímabilið er hafið

Um helgina fóru fram fyrstu fimleikamót ársins 2022.
Í Laugardalnum í fimleikasal Ármanns fór fram Þrepamót 2 í áhaldafimleikum. Mótið gekk vel og iðkendur spenntir að sýna sínar æfingar.

Það var líka mikið fjör á Akranesi því þar fór fram Haustmót í Stökkfimi og GK mót í hópfimleikum. Það var mikil spenna í loftinu en engin mót voru haldin á haustönn 2021. Mótið var glæsilegt og stóðu lið Fjölnis sig frábærlega.


Norðurlandamót unglinga í áhaldafimleikum

Laugardaginn 30. október fór fram Norðurlandamót unglinga í áhaldafimleikum. Mótið fór fram með nokkuð breyttu sniði en vanalega. En mótið fór fram í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hver þjóð mætti til leiks á sínum heimavelli. Þar framkvæmdu keppendur sínar æfingar sem svo voru dæmdar á rauntíma af dómurum sem sátu og dæmdu af skjáum.
 
Ísland sendi til keppni lið í stúlkna- og drengjaflokki. Í drengjaflokkunum átti Fjölnir tvo fulltrúa, þá Davíð Goða Jóhannsson og Sigurð Ara Stefánsson. Drengjaliðið stóð sig frábærlega og hafnaði í 2. sæti á mótinu. Einnig gerði Sigurður Ari sér lítið fyrir og hreppti bronsverðlaun á bæði stökki og gólfi og endaði 8. sæti í fjölþraut.
 
Við erum svakalega stolt af okkar frábæru drengjum og óskum þeim og Zoltan þjálfara þeirra innilega til hamingju með árangurinn.


Uppfært: Strætófylgd í vetur 2021

Við verðum með fylgd í strætó fyrir 1. – 2. bekk í vetur eins og undanfarin ár frá öllum frístundarheimilum í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal á æfingar sem eru klukkan 14:40 – 15:30 í Egilshöll. Fylgdin hófst miðvikudaginn 1. september. Greinar sem eru í boði eru fimleikar, handbolti, knattspyrna og körfubolti.

Skráning í fylgdina fer fram á fjolnir.felog.is. Vetrargjald (1. september – 31. maí) er 7.900 kr.

Einnig þarf að upplýsa sínu frístundaheimili. Frítt er í strætó fyrir 11 ára og yngri.

Mjög mikilvægt er að foreldrar tilkynni starfsfólki frístundarheimilisins hvaða daga barnið á að fara á æfingu. Stundatafla fyrir æfingar sem eru í boði með fylgdinni má sjá hér neðar á síðunni. Vinsamlegast skráið barnið í fylgdina og látið frístundaheimilið vita í síðasta lagi deginum áður en æfingin er, ekki er nóg að tilkynna þátttöku samdægurs.

Gott er ef foreldrar hafi tök á að fara með krökkunum í strætó frá frístundarheimilinu og til baka áður en þau fara í sýna fyrstu fylgd.

Við verðum með krakkana úr fylgdinni sér í búningsklefum svo auðveldara sé að halda utan um hópana. Við verðum í búningsklefum í Fjölnishöll eins og í fyrra.

Fylgdin verður með sama sniði og fyrri ár. Ath. gerðar hafa verið smávægilegar breytingar á leiðakerfi Strætó. Krakkar sem koma úr Regnbogalandi og Kastala þurfa að labba sjálf út á stoppustöð og til baka frá stoppustöð í frístund eftir æfingar, en það er tekið á móti þeim í vagninum, þeim fylgt á æfingu og til baka aftur. Fylgdarmaður passar upp á að þau fari út á réttri stoppustöð. Sama gildir með Galdraslóð, Fjósið og Úlfabyggð. Starfsfólk frístundarheimilana hafa aðstoðað okkur með fylgdina á stoppustöðvarnar ef þau hafa tök á því. Aðrir skólar fá fylgd frá Frístundarheimilum og til baka. Á mánudögum geta iðkendur úr 7.fl. kk yngri í knattspyrnu komið í fylgdina á æfingu sem hefst kl. 15:30 en foreldrar sækja börnin í Egilshöll eftir æfingu.

Við hvetjum svo foreldra barna í 3. bekk og eldri til að kenna börnum sínum á Strætó.

Í ár er í fyrsta sinn lögð gjaldtaka á fylgdina. Þrátt fyrir styrk frá ÍBR (Íþróttabandalagi Reykjavíkur) þá er kostnaður sem fylgir þessu verkefni of mikill fyrir félagið þar sem styrkurinn nær aðeins yfir hluta kostnaðar.

Upplýsingar um leiðakerfi Fjölnis og Strætó má finna hér


Sigurður Ari hvetur iðkendur til lesturs

Sumarlestrarátak Fjölnis og Borgarbókasafnins í Spöng er í fullum gangi, þriðja árið í röð.

Í fyrra útbjuggum við bókamerki sem allir iðkendur Fjölnis fengu gefins og í ár höfum við endurbætt þau með QR kóða sem leiðir inn á stutt myndband þar sem afreksfólk okkar segir frá sinni uppáhalds bók.

Sigurður Ari Stefánsson afreksmaður úr fimleikadeild segir frá sinni uppáhalds bók.

Bókamerkinu verður á næstu dögum og vikum dreift til iðkenda félagsins af þjálfurum. Einnig má nálgast bókamerkin á skrifstofu Fjölnis í Egilshöll. Borgarbókasafnið í Spöng hefur sett upp Fjölnisbókastand með vel völdum titlum sem afreksfólk Fjölnis hefur valið. Þar geta gestir og gangandi einnig nælt sér í bókamerkið.

Fjölnir hvetur alla, jafnt iðkendur sem aðra til að vera dugleg að lesa í sumar því það er ekki síður mikilvægt en á veturna.

#FélagiðOkkar


Frítt hópfimleika námskeið

Dagana 14.- 16. júní ætlar Fimleikadeild Fjölnis að bjóða uppá hópfimleikanámskeið fyrir stelpur fæddar 2013-2014 endurgjaldslaust.
Námskeiðið verður kynnig fyrir hópfimleika og eina sem þarf að gera til þess að taka þátt er að skrá sig í gegnum þetta skráningarfrom https://forms.gle/knnRTuvDJRSLDLY99 

Virkilega flott þjálfarateymi mun sjá um námskeiðið og er engin krafa um grunn í fimleikum.

Mánudaginn 14.júní kl 10:30-12:00
Þriðjudaginn 15.júní kl 10:30-12:00
Miðvikudaginn 16.júní kl 10:30-12:00

Námskeiðinu lýkur kl 12.00 alla dagana og þá er hægt að skrá þau í hádegismat og jafnvel annað námskeið eftir hádegi á vegum Fjölnis ef það er áhugi fyrir því. Hægt að sjá úrval námskeiða og skrá hér https://fjolnir.is/felagid-okkar/sumarnamskeid-2021/ 

Athuga að það er takmarkað pláss, ekki gleyma að skrá ykkar stelpu.


Lið Kky Íslandsmeistari um helgina.

Það er mikið búið að vera um að vera síðastliðnar helgar. En mótahaldi Fimleikasambands Íslands þessa vorönnina lauk nú um helgina þegar Íslandsmót í hópfimleikum fór fram. Skemmst er frá því að segja að lið okkar í Kky sigraði sinn flokk mjög sannfærandi með 3.870 stigum á undan næsta liði, frábær árangur hjá þessum ungu strákum. Liðin okkar í 3. og 4. flokki höfnuðu í 2. sæti í sínum flokkum og 2. flokkurinn í því þriðja. Glæsilegur árangur og greinilegt að framtíðin er björt í Grafarvoginum.

 

Helgina 29. – 30. maí fór fram Vormót í B og C deildum. En þar átti Fjölnir fjögur lið í keppni. Í 4. flokki C röðuðu lið Fjölnis sér í tvö efstu sætin. Lið okkar í 5. flokki B sigraði einnig sinn flokk og 3. flokkur B stóð sig einnig vel í sinni keppni.

 

Sömu helgi var keppt á Þrepamóti 3. En sú breyting er orðin á að nú er verðlaunað fyrir að ná þrepi. Fjölnisstúlkur stóðu sig vel á mótinu og voru alls fimm stelpur sem náðu 5. þrepinu en það voru þær Ásrún Magnea, Elísbet Freyja, Ingunn Lilja, Ísabella og Sunneva Arney.

 

Við óskum öllu okkar keppendum til hamingju  með árangurinn. Við minnum svo á að sumaræfingar hefjast mánudaginn 14. júní


Fjórfalt mótahald um helgina hjá Fimleikasambandinu

Um helgina var mikið um að vera í móthaldi. Alls fóru fram fjögur mót á vegum Fimleikasambands Íslands og átti Fjölnir keppendur á öllum mótunum og var árangurinn vægast sagt frábær.

 

Íslandsmót í stökkfimi

Fjölnir sendi tvö lið til keppni á Íslandsmótinu í Stökkfimi sem fram fór í Ásgarði í umsjón Fimleikadeildar Stjörnunnar. Liðin gerðu sér lítið fyrir og unnu bæði sína flokka. Meistaraflokkur A með 43.975 stig og 1. flokkur A með 36.400 stig

 

Bikarmót í hópfimleikum

Á Bikarmótinu í hópfimleikum sendi Fjölnir til keppni lið í 2. flokki. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og höfnuði í öðru sæti á eftir sterku liði Gerplu með 48.565 stig. Mótið, líkt og Íslandsmótið í Stökkfimi fór fram í Ásgarði, Garðabæ.

 

Íslandsmót í þrepum

Íslandsmótið í þrepum fór fram í Laugabóli, húsakynnum Ármanns. Í 1. þrepi 13 ára yngri sigraði Lilja Katrín Gunnarsdóttir með 51.066 stig. Lilja hafnaði svo í 3 sæti heilt yfir 1. þrepinu. En Íslandsmeistari er krýndur þvert á aldursflokka í Fimleikastiganum. Í 3. Þrepi 12 ára hafnaði Júlía Ísold Sigmarsdóttir í 2. sæti.

 

GK – Meistaramótið

Á GK meistaramótinu í frjálsum æfingum, sem einnig fór fram í Laugarbóli, héldu okkar keppendur áfram að standa sig vel. Í unglingaflokki karla sigraði Sigurður Ari Stefánsson í fjölþraut með 64.150 stig, í öðru sæti varð Davíð Goði Jóhannsson með 59.050 stig. Bjartþór Steinn Alexandersson keppti einnig og stóð sig vel. Sigurður Ari og Davíð Goði skiptu svo á milli sín sigrum á einstökum áhöldum þar sem Sigurður Ari sigraði á bogahesti, stökki og svifrá á meðan Davíð Goði sigraði á gólfi, hringjum og tvíslá. Í drengjaflokki sigraði Elio Mar Rebora með 44.750 stig.

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af okkar keppendum frá helginni.