Knattspyrnumaðurinn Baldur Sigurðsson er orðinn leikmaður Fjölnis og hefur skrifað undir samning við félagið. Hann mun gegna hlutverki spilandi aðstoðarþjálfara og tekur þar við hlutverki Gunnars Más sem er hér með þakkað kærlega fyrir allt sitt góða starf í þágu meistaraflokks karla undanfarin ár – en Gunni heldur vitanlega áfram störfum hjá félaginu sem yfirþjálfari yngri flokka karla.
Baldur, sem er 35 ára, er Mývetningur að upplagi og lék fyrstu ár sín í meistaraflokki með Völsungi á Húsavík. Hann kemur til okkar frá FH en þar áður hafði hann m.a. spilað með Stjörnunni, KR, Keflavík, í Danmörku og í Noregi. Baldur hefur orðið 2x Íslandsmeistari, 5x bikarmeistari og leikið 3 A-landsleiki.
Baldur hefur alls leikið yfir 430 KSÍ leiki og skorað í þeim 100 mörk. Hann er jafnframt einn leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi.
Á einni af myndunum má sjá þjálfarateymi meistaraflokks karla á komandi tímabili – þ.e. reynsluboltarnir Ásmundur Arnarsson og Gunnar Sigurðsson auk Baldurs.
Knattspyrnudeild Fjölnis býður Baldur hjartanlega velkominn í #FélagiðOkkar