Þeir Emil Alengård og Andri Freyr Magnússon ætla að lyfta íshokkídeild Fjölnis upp á næsta stig.

Emil Alengård, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í íshokkí var ráðinn til starfa í sumar sem nýr yfirþjálfari Fjölnis í íshokkí en hann var áður aðstoðarþjálfari sænska úrvalsdeildarfélagsins AIK. Emil á leiki með A-landsliði og yngri landsliðum Íslands en skautarnir eru farnir upp í hillu. Hann er talinn vera einn af bestu leikmönnum íslenska landsliðsins frá upphafi. Emil er 32 ára gamall og á íslenska móður en sænskan föður.

Andri Freyr Magnússon mun sjá um þjálfun yngri flokka og koma að ýmsum verkefnum fyrir íshokkídeildina. Hann hefur einnig umsjón yfir skautaskólanum. Andri hefur áralanga reynslu af þjálfun barna og aðkomu að skipulagi barnastarfs.

Með tilkomu þeirra er framtíðin björt. Ný og fersk sýn í uppbyggingu íshokkídeildar Fjölnis.

Í grein sem birtist á Vísi fara þeir félagar yfir íshokkísamfélagið á Íslandi og þar segir Emil meðal annars: „Íshokkísamfélagið þarf að vera sýnilegra svo fólk þekki íþróttina. Fyrir tíu árum voru um 800 manns að spila íshokkí á Íslandi en nú eru það í kringum 500. Við þurfum að fá fleiri inn í íshokkíið, halda vel utan um leikmenn og byggja upp. Hjá Fjölni leggjum við mikla áherslu á barnastarfið því grunnurinn er mikilvægur.“ (heimild, visir.is).

#FélagiðOkkar