Pepsi Max deild karla

7. umferð

Fjölnir – FH

Laugardaginn 18. júlí kl. 16:00 á Extra vellinum

Eftir jafntefli gegn KA í síðustu umferð situr Fjölnir áfram á botni Pepsi Max deildarinnar. Fjölnir er með tvö stig, tveimur stigum á eftir Gróttu sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Á milli Fjölnis og Gróttu situr KA með þrjú stig. Í næstu umferð mætast Grótta og KA. Það gerir leik Fjölnis og FH á laugardaginn enn mikilvægari í ljósi þess að Grótta og/eða KA mun(u) fá stig í næstu umferð. Með hliðsjón af stöðu Fjölnis í deildinni má raunar segja að næsti leikur hverju sinni sé mikilvægasti leikur tímabilsins.

Hans Viktor Guðmundsson lék sinn hundraðasta leik fyrir meistaraflokk Fjölnis í jafnteflinu við KA í upphafi vikunnar.  Hansi spilaði lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Fjölnis 25. maí 2015 þegar hann kom inná fyrir Daniel Ivanovski í 3-3 jafntefli á Hlíðarenda. Til hamingju með áfangann Hansi. Annað fagnaðarefni frá mánudeginum er það að Hallvarður Óskar Sigurðarson lék sinn fyrsta leik í sumar eftir baráttu við meiðsli. Hallvarður var að öðrum ólöstuðum öflugasti leikmaður Fjölnis á undirbúningstímabilinu áður en hlé var gert á því vegna kórónaveirunnar. Þá skoraði Orri Þórhallsson sitt fyrsta mark í efstu deild í 1-1 jafnteflinu við KA.

Andstæðingurinn

Eftir að hafa lagt HK og ÍA í fyrstu tveimur umferðum Íslandsmótsins hefur FH fengið eitt stig úr síðustu þremur leikjum. Fimleikafélagið tapaði 1-2 fyrir Fylki á mánudaginn, áður hafði FH tapað 1-4 fyrir Víkingi og gert 3-3 jafntefli við Breiðablik. FH er í 8. sæti deildarinnar með fimm stig. FH hefur leikið einum leik færra en flest lið deildarinnar. Sem fyrr er Steven Lennon öflugasti leikmaður FH. Lennon hefur skorað fimm af tíu mörkum FH í sumar. Eftir tap FH gegn Fylki í upphafi vikunnar hefur orðið þjálfarabreyting í Hafnarfirði. Ólafur Helgi Kristjánsson er stiginn frá borði til að taka við Esbjerg í Danmörku. Við hans starfi taka Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen.

Fjölnir og FH hafa mæst fjórtán sinnum í deildarkeppni. Allir leikirnir hafa verið í A-deild. Af þessum fjórtán leikjum hefur Fjölnir unnið tvo. Ellefu hafa endað með sigri Hafnarfjarðarliðsins og einn leikur með jafntefli. Báðir sigurleikir Fjölnis gegn FH áttu sér stað sumarið 2017. 2-1 sigur Fjölnis í Grafarvoginum á FH undir lok móts árið 2017 hafði það í för með sér að Fjölnir svo gott sem tryggði sæti sitt í deildinni það tímabilið. Eins og flestum Fjölnismönnum er kunnugt léku þessi lið til bikarúrslita árið 2007. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 en FH skoraði eitt mark gegn engu marki Fjölnis í framlengingunni.

Mikill samgangur hefur verið á milli Fjölnis og FH í gegnum tíðina. Meðal leikmanna sem leikið hafa fyrir bæði félög eru Gunnar Már Guðmundsson, Atli Viðar Björnsson, Magnús Ingi Einarsson, Atli Guðnason, Guðmundur Karl Guðmundsson og margir fleiri.

 

 

Miðasala á leikinn er hafin, nánar hér.

Flykkjumst á völlinn. Áfram Fjölnir!

#FélagiðOkkar

Grétar Atli Davíðsson

Sjá einnig:

Fyrri viðureignir liðanna

 

Leikmenn sem hafa leikið 100 leiki eða fleiri fyrir Fjölni*

Hans Viktor Guðmundsson – 100 leikir

Aron Sigurðarson – 103 leikir

Guðný Jónsdóttir – 104 leikir

Oddný Karen Arnardóttir – 106 leikir

Pétur Georg Markan – 108 leikir

Aníta Björk Bóasdóttir – 110 leikir

Ásgeir Aron Ásgeirsson – 110 leikir

Ómar Hákonarson – 111 leikir

Helena Konráðsdóttir – 112 leikir

Hrefna Lára Sigurðardóttir – 119 leikir

Þórir Guðjónsson – 125  leikir

Tinna Þorsteinsdóttir – 129 leikir

Sonný Lára Þráinsdóttir – 141 leikur

Kristjana Ýr Þráinsdóttir – 147 leikir

Íris Ósk Valmundsdóttir – 156 leikir

Bergsveinn Ólafsson – 162 leikir

Illugi Þór Gunnarsson – 164 leikir

Ásta Sigrún Friðriksdóttir – 189 leikir

Þórður Ingason – 194 leikir

Elín Heiður Gunnarsdóttir**

Þorvaldur Logason**

Leikmenn sem leikið hafa yfir 200 leiki fyrir Fjölni

Gunnar Valur Gunnarsson – 204 leikir

Guðmundur Karl Guðmundsson – 222 leikir

Gunnar Már Guðmundsson – 258 leikir

*Listinn er birtur með fyrirvara um að mögulega vanti örfáa leikmenn á listann. Listinn er unninn upp úr öðrum lista sem kynntur var þegar leikmenn með yfir 100 leiki fyrir Fjölni voru verðlaunaðir á stuðningsmannakvöldi vorið 2018. Allar ábendingar eru vel þegnar.

** Bæði Elín Heiður og Þorvaldur hafa leikið yfir 100 leiki fyrir Fjölni. Undirrituðum er ekki kunnugt um nákvæman leikjafjölda. Allar ábendingar eru vel þegnar.

 

 

Leikmannahópur Fjölnis

1 – Steinar Örn Gunnarsson (m)

4 – Sigurpáll Melberg Pálsson

5 – Torfi Tímoteus Gunnarsson

6 – Grétar Snær Gunnarsson

7 – Ingibergur Kort Sigurðsson

8 – Arnór Breki Ásþórsson

9 – Jón Gísli Ström

10 – Viktor Andri Hafþórsson

11 – Hallvarður Óskar Sigurðarson

12 – Atli Gunnar Guðmundsson (m)

14 – Lúkas Logi Heimisson

16 – Orri Þórhallsson

17 – Valdimar Ingi Jónsson

19 – Daníel Smári Sigurðsson

20 – Péter Zachán

21 – Christian Sivebæk

23 – Örvar Eggertsson

25 – Sigurjón Daði Harðarson (m)

28 – Hans Viktor Guðmundsson, fyrirliði

29 – Guðmundur Karl Guðmundsson, varafyrirliði

31 – Jóhann Árni Gunnarsson

32 – Kristófer Óskar Óskarsson

42 – Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson

Þjálfari: Ásmundur Arnarsson
Aðstoðarþjálfarar: Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson