Mánudaginn 4.maí hefjum við æfingar aftur í samræmi við leiðbeiningar heilbrigðisráðherra, þó með þeim breytingum sem við útlistum hér að neðan. Í ljósi alls þessa sem gengið hefur á munum við lengja æfingatímabilið frá því sem sem stóð til fram í miðjan júní – en nákvæm lokadagsetning verður auglýst síðar. Markmið okkar er að allir verði áfram með aðstöðu til að taka beltapróf á réttum tíma.
Við byrjum barnastarfið með sama hætti og áður var, samkvæmt sömu stundarskrá. Fyrstu æfingar verða haldnar hjá byrjendum á mánudeginum og svo framhaldshóparnir frá þriðjudeginum. Frístundafylgdin er ekki enn hafin, en við munum tilkynna um hana um leið og hún er i boði og þá hefja Fjörkálfanámskeiðið aftur.
Fullorðinsstarfið (eldri en 16 ára) verður með breyttu sniði. Þar sem ekki er hægt að vera með fleiri en 4 á æfingu innanhúss eða 7 utanhúss, hljóðar núverandi áætlun upp á að þjálfarar boði til æfinga á Facebook hópum félagsins innan dagsins. Þær æfingar verði þá haldnar útivið – á svæðinu við Egilshöll, nema annað sé auglýst sérstaklega. Í ljósi þess að um útiæfingar verður að ræða mun veðurfarið spila einhvern þátt í hversu margar æfingar verður hægt að halda.
Breytingar frá því sem verið hefur:
- Þeir sem eru að koma í karatesalinn þurfa að ganga um suðurinngang í Egilshöll (aðalinngang). Þannig á að reyna að takmarka samgang eftir því sem hægt er.
- Enginn kemur inn í sal nema þeir sem eru að fara á æfingu (foreldrar skila iðkendum af sér við innganginn og koma ekki inn í salinn).
- Við dyrnar í æfingaraðstöðuna verður sótthreinsivarningur, gert er ráð fyrir að iðkendur noti hann bæði fyrir og eftir æfingar. Iðkendur þurfa jafnframt að gæta fyllsta hreinlætis fyrir og eftir æfingar.
- Á æfingum verður miðað við að gera æfingar þar sem ekki er þörf á miklum líkamlegum snertingum.
- Þjálfararnir munu aðstoða yngstu iðkendurnar við að virða ofangreint – við óskum jafnframt eftir því að foreldrar ræði þessar breytingar við krakkana.
Beltapróf eru svo fyrirhuguð sem hér segir.
- Beltapróf – fara fram 2. vikuna í maí. 11.-16. maí
- Brúnbeltaprófin sem fara áttu fram í apríl, fara fram laugardaginn 30. maí.
Hlökkum ósegjanlega til að sjá ykkur öll aftur.
Hvetjum ykkur til að fylgjast með heimasíðu Fjölnis til að sjá nánari útlistun á hvernig aðgengi að húsinu verður stýrt.
#FélagiðOkkar