Hinar vinsælu skákæfingar Skákdeildar Fjölnis hefjast að nýju fimmtudaginn 26. september. Æfingarnar eru ókeypis og fara fram í Rimaskóla þar sem gengið er inn um íþróttahús skólans. Skákæfingarnar hefjast kl. 16:30 og standa yfir til kl. 18:00. Allir áhugasamir skákkrakkar í Grafarvogi eru hvattir til að mæta, æfa sig í skáklistinni og njóta skemmtilegra æfinga sem enda á verðlaunahátíð. Boðið er upp á veitingar í skákhléi. Skákdeildin vill taka fram að skákæfingarnar eru fyrir þá grunnskólanemendur sem hafa náð tökum á skákíþróttinni og geta teflt sér til ánægju. Skákkennsla er í boði í flestum grunnskólum Grafarvogs og þar fá börnin kennslu í grunnatriðum skákarinnar. Umsjón með skákæfingum í vetur hefur sem fyrr Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis (skak@fjolnir.is). Honum til aðstoðar verða ungir skáksnillingar sem æft hafa með Fjölni í langan tíma. Skák er skemmtileg verður áfram kjörorð Skákdeildar Fjölnis.