Ráðning skautaþjálfara
Svetlana Akhmerova hefur verið ráðin til að þjálfa framhaldshópa listhlaupadeildar Fjölnis. Hún kemur frá Rússlandi, er 42 ára og hefur 18 ára reynslu sem skautaþjálfari. Svetlana hefur starfað sem skautaþjálfari og yfirþjálfari og unnið með skauturum á ýmsu getustigi, allt frá byrjendum að lengra komnum skauturum. Hún hefur víðtæka reynslu sem skautaþjálfari og hefur starfað í Svíþjóð, Rússlandi, Suður Afríku, Indlandi og Íslandi. Svetlana er með skautaþjálfaramenntun frá Rússlandi. Hún tók þátt á ýmsum innlendum og alþjóðlegum mótum, var í landsliði Rússlands frá 1994-1996 og var nokkrum sinnum St. Petersburg meistari. Eftir að hún hætti keppni þá tók hún þátt í íssýningum í fjögur ár áður en hún snéri sér alfarið að skautaþjálfun.
Einnig er deildin búin að ráða Sif Stefánsdóttur sem yfirþjálfara Skautaskólans. Hún er 24 ára og var skautaþjálfari hjá Öspinni síðastliðinn vetur og í sumar var hún að þjálfa í sumarbúðum Skautaskóla Fjölnis. Sif æfði skauta þegar hún var yngri og um tvítugt byrjaði hún aftur að æfa skauta eftir hlé. Hún hefur lokið almennu þjálfaranámskeiði hjá ÍSÍ, skyndihjálparnámskeiði Rauða Krossins og stundar jógakennaranám hjá Eden Yoga ásamt því að stunda nám við Myndlistaskólann í Reykjavík.