Dagana 25.-28. apríl var íshokkímótið Iceland International Ice Hockey Cup 2019 haldið í Egilshöllinni. Til liðs mættu þrenn lið frá Finnlandi, stelpulið frá Akureyri, sameinað lið íslenskra félaga (SHS) og að lokum eitt lið frá okkur, Fjölnir-Björninn. Þátttökurétt höfðu iðkendur fæddir 2005 og 2006, s.s. 4. flokkur.
4. flokks lið íshokkídeildarinnar Fjölnir-Björninn vann alla sína leiki á mótinu, þar á meðal úrslitaleikinn og vann því IceCup 2019. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá þær framfarir sem liðið hefur náð á þessu tímabili. Þrautseigja, elja, agi og viljinn til að ná lengra og gera betur hefur skilað þessum iðkendum þeim sigrum sem unnir hafa verið á svellinu. Þess má einnig geta að leikmenn úr 4. fl. Fjölnir-Björninn röðuðu sér í efstu þrjú sætin yfir stigahæstu leikmennina. Arnar Smári Karvelsson var stigahæstur leikmanna á mótinu og má sjá halda á verðlaunagripi fyrir þann titil. Hinir tveir leikmennirnir eru Haukur Freyr Karvelsson og Kristján Hróar Jóhannesson.
Á myndunum má einnig sjá nokkrar myndir úr úrslitaleiknum og auðvitað mynd af 4. flokk ásamt þjálfara, Alexander Medvedev. Frábært að enda keppnistímabilið á þennan hátt.
Við ætlum auðvitað að halda áfram að vaxa og ná enn lengra í komandi framtíð. Við hjá Fjölnir-Björninn hlökkum mikið til að fylgjast áfram með þessum leikmönnum vera ávallt besta útgáfan af sjálfum sér og bæði liði og félagi til sóma.
Sjá má niðurstöður mótsins og tölfræði á eftirfarandi tengli: Tölfræði IceCup 2019