Það mættu 80 efnilegir skákkrakkar á öllum grunnskólaaldri á TORG skákmót Fjölnis í Rimaskóla á Skákdegi Íslands 2019. Tefldar voru sex umferðir og keppnin jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Verðlaunað var í þremur flokkum; eldri flokki, yngri flokki og stúlknaflokki. Sigurvegarinn reyndist vera Kristján Dagur Jónsson TR sem hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Sara Sólveig Lis skákdeild Fjölnis sigraði í stúlknaflokki. Meðal efstu manna á mótinu voru Fjölnis strákarnir Joshua Davíðsson, Arnór Gunnlaugsson og Anton Breki Óskarsson, bekkjarbræður í Rimaskóla, allir með 5 vinninga.
Í upphafi mótsins ávarpaði borgarfulltrúinn og Grafravogsbúinn Valgerður Sigurðardóttir keppendur og lýsti ánægju sinni með hið öfluga skákstarf Fjölnis og sagðist stolt af því að fá að leika fyrsta leikinn á þessu glæsilega skákmóti. Valgerður lék síðan fyrsta leikinn fyrir hina bráðefnilegu Emilíu Emblu Baldvins-og Berglindardóttur sem er aðeins 6 ára gömul, nemandi í Rimaskóla, og var í afrekshópi Omar Salama á Laufásborg sl. vetur.
Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar frá Hagkaup og Emmess ís. Gífurlegt verðlaunaflóð skall á að loknu móti, alls 43 talsins. Hagkaup, Pizzan, Emmess, Disney-klúbburinn og fyrirtækin Bókabúðin, Blómabúðin,CoCo´s og Smíðabær við Hverafold gáfu vinningana sem voru flottir og fjölbreyttir. Fjölmargir foreldrar fylgdust með af áhuga, fengu sér kaffi og kökur og gátu haft það huggulegt í félagsmiðstöðinni.