Fjölnisungmenni í Úrvalshóp Frjálsíþróttasambandsins

Þrjú ungmenni úr frjálsíþróttadeild Fjölnis hafa verið valin í Úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands 15-19 ára. Þangað eru valin þau ungmenni sem hafa náð tilskyldum lágmörkum en að þessu sinni voru valin 44 ungmenni af öllu landinu.

Pétur Óli Ágústsson 16 ára – 100m og 200m

Pétur Óli hefur verið í stöðugum bætingum í sumar og hljóp hraðast 11,77 í 100m og 23,61 í 200m, sem er umtalsvert hraðar en hann hafði hlaupið áður.

Grétar Björn Unnsteinsson 17 ára – Stangastökk

Grétar Björn hefur átt mjög gott ár í stangarstökki, hann hefur hæst stokkið 4,24 m utanhúss í sumar en það hefur enginn annar U18 ára Íslendingur gert fyrr eða síðar.

Christina Alba Marcus Hafliðadóttir 16 ára – Þrístökk

Christina Alba stökk sig glæsilega inn í Úrvalshópinn með þrístökki uppá 10,98 m á Bikarmóti Íslands. En Christina Alba sem er líka mjög efnilegur langstökkvari er tiltölulega nýbyrjuð að stökkva þrístökk.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilegu ungmennum og félögum þeirra í framhaldinu.

Fjölnir óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.


Ungmennafélagið Fjölnir styður kvennaverkfallið

Ungmennafélagið Fjölnir styður kvennaverkfallið.

Fjölmörg samtök kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa boðað til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk., þar sem konur og kvár sem það geta, eru hvött til að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Baráttufundur er fyrirhugaður á Arnarhóli í Reykjavík kl. 14:00 undir yfirskriftinni ”Kallarðu þetta jafnrétti?”

Ef einhverjar konur/stelpur/kvár sem vinna hjá félaginu, starfsfólk skrifstofu, Dalhúsa og eða þjálfarar vilja taka þátt í kvennaverkfallinu þriðjudaginn kemur 24. október í einhverjum af þeim viðburðum sem haldnir eru í tilefni dagsins þá biðjum við viðkomandi að senda póst á skrifstofa@fjolnir.is fyrir lok vinnudags í dag, mánudag.  Einnig er það á ábyrgð þjálfara sem taka þátt að senda út boð á forráðamenn í gegnum XPS að æfing falli niður vegna þátttöku þjálfara í kvennaverkfallinu.

https://kvennafri.is/