Nítján skautarar úr listskautadeild Fjölnis héldu til Stokkhólms í vikunni til að taka þátt á skautamótinu Stockholm Trophy sem fram fór í Nacka Ishall í Stokkhólmi. Alls voru 223 keppendur frá fimm löndum skráðir á mótið. Keppt var í 19 flokkum og átti Fjölnir fulltrúa í 8 keppnisflokkum. Með þeim í för voru þjálfararnir Benjamin og Helga Karen ásamt fararstjórum og foreldrum.

Keppnin hófst á fimmtudag, en þá keppti meirihluti Fjölnisstúlkna. Í flokki Springs C voru alls 12 keppendur og áttum við sex fulltrúa, það voru: Arna Dís Gísladóttir, Elisabeth Rós Giraldo Ægisdóttir, Ermenga Sunna Víkingsdóttir, Perla Gabriela Giraldo Ægisdóttir, Sóley Björt Heimisdóttir og Una Lind Otterstedt. Þar mátti sjá bætingu hjá þeim öllum frá seinasta móti. Arna Dís endaði í 2. sæti og Perla Gabriela í 3. sæti.

Í flokki Debs C voru alls 10 keppendur og áttum við fjóra fulltrúa, Edil Mari Campos Tulagan, Lilju Harðardóttur, Liva Lapa og Selmu Kristínu S. Blandon. Þær áttu einnig góðan dag og koma heim reynslunni ríkari.

Í flokki Novice C voru 5 keppendur og áttum við þar þrjá fulltrúa, það voru: Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir, Íris María Ragnarsdóttir og Ísabella Jóna Sigurðardóttir. Þær áttu allar góðan dag og bættu sig frá seinasta móti og enduðu á að taka öll sætin á verðlaunapallinum. Íris María var í 1. sæti, Ásta Lovísa í 2. sæti og Ísabella Jóna í 3. sæti.

Í flokki Junior C voru alls þrír keppendur en þar kepptu Rakel Sara Kristinsdóttir og Andrea Marín Einarsdóttir sem áttu stórgóðan dag. Rakel Sara tók 1. sætið í flokknum og Andrea Marín 2. sætið.

Á föstudeginum áttum við þrjá keppendur í þremur flokkum. Elín Katla Sveinbjörnsdóttir keppti í flokki Springs B en þar voru 27 keppendur. Elínu gekk vel og bætti sig frá seinasta móti og endaði í 13. sæti með 22,27 stig. Berglind Inga Benediktsdóttir keppti í flokki Debs B en þar voru 20 keppendur. Berglind átti mjög góðan dag og skautaði gott prógram sem skilaði henni 1. sæti í sínum flokki með 38,23 stig. Tanja Rut Guðmundsdóttir keppti í flokki Junior B en þar voru 14 keppendur. Tanja skautaði vel sem skilaði henni 5. sætinu með 31,80 stig.

Á laugardegi áttum við aðeins einn keppanda, Elvu Ísey Hlynsdóttur sem keppti í Advanced Novice stuttu prógrami, en þar voru 25 keppendur. Þetta er annað mót Elvu í flokki Advanced Novice. Elva átti góðan dag og sat í 19. sæti með 22,49 stig eftir stutta prógramið. Á sunnudeginum keppti Elva í frjálsu prógrami og átti einnig góðan dag en fyrir frjálsa prógramið fékk hún 36,83 stig og endaði í 21. sæti með samanlagt 59,32 stig fyrir bæði prógröm. Elva gerði nýtt persónulegt stigamet í báðum prógrömum en hún bætti sig um rúm 11 stig í heildareinkunn.

Þetta er frábær árangur hjá okkar iðkendum og erum við afar stolt af frammistöðu þeirra á mótinu. Við óskum keppendum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Við búum yfir efnilegum skauturum sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni!

Berglind Inga Benediktsdóttir í 1. sæti

Arna Dís Gísladóttir í 2. sæti og Perla Gabriela Giraldo Ægisdóttir í 3. sæti

Íris María Ragnarsdóttir í 1. sæti, Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir í 2. sæti og Ísabella Jóna Sigurðardóttir í 3. sæti

Rakel Sara Kristinsdóttir í 1. sæti og Andrea Marín Einarsdóttir í 2. sæti

Fjölnishópurinn

Klappliðið