Dusan Ivkovic tekur við meistaraflokki kvenna
Dusan Ivkovic tekur við meistaraflokki kvenna.
Það er knattspyrnudeildinni sönn ánægja að tilkynna Dusan Ivkovic sem nýjan aðalþjálfara meistaraflokks kvenna en hann tekur við af Helenu Ólafsdóttur sem lét af störfum nýverið.
Dusan er reyndur og metnaðarfullur þjálfari sem þekkir vel til innan félagsins og innviða þess en hann þjálfaði síðast árið 2018 hjá Fjölni. Hann hefur lokið UEFA-A þjálfaragráðu og býr yfir alþjóðlegri þjálfarareynslu en áður en kom að Covid þá var hann m.a. þjálfari í knattspyrnuakademíu í Peking í Kína.
Axel Örn Sæmundsson og Arnór Ásgeirsson verða vitanlega áfram í teyminu og munu sinna sínum hlutverkum áfram af festu sem aðstoðarþjálfari og styrkarþjálfari liðsins.
Knattspyrnudeildin fagnar þessari ráðningu og hlakkar til samstarfsins og getur jafnframt ekki beðið eftir því að keppnistímabilið hefjist.
#FélagiðOkkar
Æfingar falla niður sunnudag og mánudag
Æfingasvæði Fjölnis eru lokuð næstkomandi sunnudag (hvítasunnudagur) og mánudag (annar í hvítasunnu).
#FélagiðOkkar
Fjölnishellirinn
Ný aðstaða Fjölnis í austurenda Egilshallar hefur fengið nafnið Fjölnishellirinn.
Eins og áður hefur komið fram þá gafst félagsmönnum tækifæri á að senda inn tillögur þar sem þrjár voru valdar. Í framhaldi af því var efnt til kosninga um nafnið.
115 atkvæði bárust sem skiptust á eftirfarandi hátt: Lengjan (20), Fjölnishellirinn (73) og Austrið (22).
Við óskum öllum félagsmönnum til hamingju með nýtt og flott nafn á nýju aðstöðunni okkar í Egilshöll.
Fyrir hverja er Fjölnishellirinn?
Nýja aðstaðan okkar mun sérstaklega breyta umhverfi frjálsíþróttadeildar til hins betra, sem hefur þurft að sækja æfingar í Laugardalinn undanfarin ár. Nú gefst deildinni tækifæri á að vaxa enn frekar. Á sama tíma mun aðstaðan nýtast öllum deildum félagsins sem hafa áhuga að halda úti styrktar- og þrekæfingum.
#FélagiðOkkar


