Um deildina


Körfuknattleiksdeild Fjölnis var stofnuð af áhugasömum foreldrum árið 1993. Lagt var í hann af fullum krafti og þrír flokkar sendir til keppni og voru drengir sem fæddir voru 1980 þeirra elstir. Aðalsteinn Hjartarson var ráðinn þjálfari, en hann gat sér síðan gott orð sem dómari og dæmdi meðal annars lengi í Sviss og á vegum FIBA.

Áhugi foreldranna sem ýttu skútunni úr vör árið áður, jókst enn og var nú Jón Þorbjörnsson, síðar framkvæmdastjóri Fjólnis, ráðinn til að sjá um rekstur deildarinnar. Fjórir flokkar voru nú sendir til keppni á vegum Körfuknattleikssambandssins.

Haustið 1995 virtist sem deildin ætlaði að lognast útaf og minnstu munaði að hún yrði lögð niður í nóvember þetta ár. Sigurður Hálfdán Leifsson, betur þekktur sem Bóbó, var kominn til starfa sem þjálfari hjá deildinn og hann ásamt Jóni Þorbjörnssyni ákváðu að láta reyna á þetta lengur og í kjölfarið rættist úr iðkendafjölda.

Veturinn eftir var síðan stofnuð fyrsta stjórn deildarinnar þar sem Bóbó varð formaður og Árni Grétar Gunnarsson, núverandi gjaldkerfi, bættist í hópinn sem og Ragnar Torfason sem þjálfari og síðan einnig í stjórn. Bæði Árni og Ragnar ásamt Bóbó eru enn að og gegna lykilhlutverki í deildinni líkt og undanfarin ár. Ragnar tók að sér þjálfun í minnibolta þennan vetur og laðaði að sér krakka og hefur iðkendum fjölgað stórlega meðal þeirra yngstu.

Haustið 1997 var Hlynur Skúli Auðunsson ráðinn sem þjálfari og hann ásamt Ragnari og Bóbó sáu til þess að yngri flokkar Fjölnis fóru að láta vel að sér kveða í mótum hjá KKÍ.

Fyrstu verðlaun komu í hús veturinn 1999 þegar tveir flokkar urðu Íslandsmeistarar. Piltar fæddir 1987 sigruðu í minnibolta 11 ára og tíundi flokkur karla, piltar fæddir 1983, unnu frækinn sigur á KR í úrslitaleik. Þar var Fjölnir 22:35 undir í leikhlé en liðið náði að sigra 63:62. Hjalti Vilhjálmsson, núverandi leikmaður meistaraflokksliðs félagsins, fór fyrir þessu liði og var með 29 stig og 12 fráköst í leiknum. Aðrir leikmenn í sigurliðinu voru Bogi Hauksson, Andri F. Ólafsson, Davíð I. Ragnarsson, Sigurgeir Jónsson, Helgi P. Jóhannesson, Sigurður Gíslason, Egill Thorarensen, Pétur Ásgeirsson, Hilmar B. Harðarson og Geir Þorvaldsson.

Í minniboltanum sem vann KR 43:38 og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn voru: Almar Smári Ásgeirsson, Árni Þór Jónsson, Árni Ragnarsson, Garðar Sveinbjörnsson, Birkir Már Árnason, Björn Þór Jóhannsson, Arnar Ólafsson, Heiðar Már Aðalsateinsson, Svavar Svavarsson, Þorsteinn Sverrisson, Tryggvi Gunnar Teitsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Atli Rúnar Bender, Björgvin G. Björgvinsson, Davíð Gunnarsson, Emil Örn Emilsson, Hallgrímur Ragnarsson, Hrafnkell Einarsson, Högni Þorkelsson, Ingvar Sæmundsson, Sigurður Tryggvi og Sigmar Örn Ásgrímsson.

Þennan sama vetur kom Sverrir Þorsteinsson inn í stjórn og var fram til ársins 2005.

Meistaraflokkur karla undir stjórn Eggerts Garðarssonar, sigraði í annari deildinni vorið 2000. Starfið í yngri flokkunum blómstraði og varð stöðugt umfangsmeira og fleiri bikarar komu í hús.

Strax næsta vetur var ákveðið að fara í samstarf við Val og meistaraflokkur félaganna voru sameinaðir og átti þetta að vera upphafið af sameiningu deildanna. Pétur Guðmundsson, fyrrum leikmaður í NBA, var fenginn til að stýra skútunni og Herbert Arnarson kom heim úr atvinnumennskunni og skrifaði undir samning viði félagið. Meistaraflokki karla gekk ekki sem skildi þennan veturinn og varð niðurstaðan fall í fyrstu deild. Samstarfinu við Val var síðan slitið fyrir næsta vetur.

Starfið í yngri flokkunum hefur verið fjölbreytt og hafa meðal annars nokkrir yngri flokkar pilta farið á mót jafnaldra sinna í Svíþjóð og í fyrra [2007] fóru stelpur úr 9. Flokki í tíú daga æfingabúðir til Serbíu þar sem þær lærðu mikið, meðal annars að góður matur er ekki sjálfsagður!

Þó svo að korfuknattleiksdeild Fjölnis hafi aðeins starfað frá árinu 1993 hefur starfið verið blómlegt og árangurinn góður. Fjölnir hefur unnið 33 Íslands og bikarmeistaratitla, þegar hér er komið sögu. Piltalið hafa 20 sinnum oðrið Íslandsmeistarar og 11 sinnum bikarmeistarar og stúlkur úr Fjölni hafa einu sinni orðið Íslandsmeistarar og einu sinni bikarmeistarar.

Texti tekin úr bókinni : Saga Fjölnis
Útgefandi Ungmennafélagið Fjölnir
1988-2008 Ritstjóri Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, Reykjavík 2008.